HÉR ERU ALLIR SPRÆKIR!

Ég varð bara að henda inn nokkrum línum til að láta vita að hér er allt í besta standi, allir hressir og sprækir, bara mikið að gera hjá öllum og lítill tími hjá húsfreyjunni til að stunda bloggskriftir.

Við Óli erum bara að vinna og á þessum tímum er maður virkilega þakklátur fyrir að hafa vinnu.  Ég er orðin fastráðin núna, sem er mjög mikils virði hér í Svíþjóð, og líkar vel í vinnunni.

Óli er að stefna á að skreppa heim og austur á Höfn aðeins í næsta mánuði en það er ekkert orðið ákveðið hvenær. 

Rebekka er byrjuð í sinfóníuhljómsveit tónlistarskólans og finnst það æðislegt!  Hún er auðvitað líka í lúðrasveitinni og lifir og hrærist í tónlist.  Rúllar svo upp öllu í skólanum þess á milli.  Hún kom heim á þriðjudaginn og læddi út úr sér:  ,,Ég var í samræmdu prófi í dag".  Já, já - hér er ekkert stress í kringum nationella proven eins og þau heita hér.  Prófað er í sænsku, ensku og stærðfræði og tekin nokkur lítil próf á tímabilinu febrúar - maí.

Sesselja er auðvitað alltaf kát og hress.  Hún var að syngja sóló og dansa í sýningu um helgina og stóð sig rosalega vel.  Hún er á söngleikjanámskeiði og sýningin núna var með atriðum úr þekktum söngleikjum.  Hún söng lagið One úr A Chorus Line og lék líka Dóróteu í Galdrakarlinum frá Oz, auk þess sem hún var með í atriðum úr Oliver Twist og Mamma Mia.  Það var dálítið skrítið að sjá litlu stelpuna sína standa þarna alveg pollrólega á sviðinu og syngja, skella sér síðan í dans með félögum sínum og ljúka svo atriðinu með því að syngja lagið aftur.  Ég get vonandi sett inn smá videó af þessu fljótlega.

Diljá er líka í dansskóla og er farin að hlakka verulega mikið til að byrja í skóla í haust.  Já - það er komið að því.  Þó að hún sé bara nýorðin fimm er hún alveg að fara að missa tönn og er að æfa sig að lesa Gagn og gaman - og gengur bara vel!  Það er leikur að læra og hún elskar það!

Hér er smávetur núna, búinn að vera aðeins snjór og dálítið kalt.  Ég vona að vorið komi á sama tíma og í fyrra - í lok febrúar - en grunar samt að mér verði ekki að ósk minni.

Óli er að spila í Músikhúsinu í kvöld með nýjustu hljómsveitinni sinni og Rebekka fór að horfa á.  En nú þarf ég að fara að koma skvísunum mínum í háttinn - ég vona að þið hafið það öll gott þarna heima og bið ykkur um að örvænta ekki þó að það sé svolítið lengra á milli bloggskrifa hjá mér núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott er að þið hafið það fínt í Svíaríki

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband