GLEÐILEG JÓL!!!

Gleðileg jól, kæru ættingjar og vinir nær og fjær!!

Vonandi hafa allir átt ánægjuleg jól í gær.  Við þökkum kærlega fyrir allar þær góðu gjafir, góðgæti, myndir og kveðjur sem þið hafið sent okkur InLove.  Maður hugsar óneitanlega meira heim um jólin en á öðrum árstímum og það er notalegt að vita að þið hugsið til okkar líka.

Það var aðeins hafður annar háttur á gjöfum til Íslands í ár.  Vegna þess hve dýrt er að senda pakka heim, sendum við fólki ýmist pening eða höfðum gjafabýtti - þ.e. við keyptum gjafirnar hér handa okkar stelpum frá vinum þeirra og fólk keypti gjafir heima handa sínum börnum frá okkar.  Við reiknuðum það út að í fyrra hefðum við getað tekið peninginn sem fór í póstburðargjöld og keypt flug fyrir einn fram og til baka til Íslands.  Við höfðum einfaldlega ekki pening til að gera þetta í ár - spáðum reyndar í að ég flygi heim með pakkana en það verður bara gert seinna.  Annars finnst mér rosalega gaman að velja jólagjafir handa öðrum og var alin upp við að það er sælla að gefa en þiggja.

Þetta eru fyrstu jólin mín síðan Rebekka fæddist sem ég er ekki í námi eða við kennslu (að ógleymdu atvinnuleysinu) og þar af leiðandi ekki í jólafríi með stelpunum.  Það er svolítið skrítið og gerði það líka að verkum að minni tími gafst til baksturs og dútls þegar maður var að koma heim kl. hálfsjö á kvöldin.  En það var allt í lagi, jólin komu samt til okkar og við höfum haft þann háttinn á hér heima, þar sem það er bara klukkutíma munur á tímanum hér og heima, að við höfum okkar jól á íslenskum tíma, hlustum á þegar jólin eru hringd inn á netinu og hlýðum á jólamessuna meðan við borðum hamborgarahrygginn og laufabrauðið sem við rennum auðvitað niður með malti og appelsíni.  Það er ósköp notalegt!

Það var auðvitað dálítið erfitt fyrir Diljá að bíða eftir jólunum og pökkunum en við höfum lengi haft þann sið að borða möndlugraut í hádeginu á aðfangadag og möndlugjöfin er þá yfirleitt spil, teiknimynd eða eitthvað annað sem öll fjölskyldan hefur gaman af.  Það féll jólasnjór á meðan við borðuðum grautinn í  ár og það var ABBA Singstar sem stytti stelpunum stundirnar.  Diljá var samt orðin ansi óþolinmóð um kvöldið og við drifum okkur í að ganga frá og settumst síðan inn í stofu þar sem biðu skálar af íslensku konfekti og MacIntosh og opnuðum góðar gjafir.  Sesselja er vön að úthluta þeim en Diljá aðstoðaði hana dyggilega í ár, hún er farin að þekkja nánast alla stafina og kann að skrifa og lesa nöfn allra í fjölskyldunni.  Það var mikið um "Vááááá" og "æðislegt" og "takk!!!"  Allir fengu það sem þá langaði mest í - semsagt, allir glaðir!

Sesselja fékk m.a. gítarbók með 100 léttum lögum, allt frá Línu Langsokk upp í Bítlana, og er dugleg að æfa sig.  Hún vakti mikla lukku í afmælinu hennar Diljár um síðustu helgi.  Hún tók óbeðin að sér að vera veislustjóri yfir 9 fimm ára börnum, stjórnaði ásadansi, pakkaopnun og afmælissöng af mikilli röggsemi og í lok afmælisins dró hún fram fjólubláa glimmergítarinn sinn og spilaði og söng lagið "Halleluja" (sem flest börn þekkja úr Shrek).  Ég get svarið það að hakan á krökkunum seig langt niður á maga og augun urðu eins og undirskálar.  Síðan spilaði Sesselja Línu Langsokk og lagið hennar Ídu og þá sungu allir afmælisgestirnir með!  Það var alveg frábært að fylgjast með þessum upprennandi trúbador!

Í dag höfum við legið í leti, nartað í hamborgarahrygg, horft á teiknimynd, borðað smákökur, sungið Singstar og dormað aðeins.  Ég heyri hlátrasköllin í Rebekku úr herberginu þar sem hún liggur og er að horfa á Næturvaktina.  Sesselja er að æfa sig á gítarinn og Diljá er að hjálpa pabba sínum í eldhúsinu.  Á morgun koma pabbi, Irene og Maria og borða hjá okkur.  Óli er í frí fram yfir þrettándann en ég verð að vinna á laugardag og mánudag.  Á sunudaginn verður haldið íslenskt jólaball í Lammhult, sem er smábær og Íslendinganýlenda um 40 km héðan.  Síðan er stefnan tekin á Stokkhólm yfir áramótin.  Þar verðum við í góðu yfirlæti hjá Beggu og Steinari, Gunnsteinn er auðvitað kominn heim frá Ameríku og Bogga, Héðinn og Hulda frá Íslandi.  Það er orðið allt of langt síðan við komum til Stokkhólms og hlökkum mikið til.

Jæja, kæru ættingjar og vinir.  Við sendum ykkur okkar bestu kveðjur og vonum að við sjáum ykkur sem fyrst.  Kossar og knús í allar áttir!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Helgadóttir

Gleðileg Jól elskurnar !!!

Elín Helgadóttir, 26.12.2008 kl. 01:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband