Marsblogg

Jæja, það er nú heldur en ekki kominn tími á smáblogg héðan úr Svíaríki!

Það er allt gott að frétta af okkur, bara mikið að gera eins og alltaf.  Vinnan á ferðaskrifstofunni hjá mér og svo er ég byrjuð í kór, kvenna-barbershop kór sem heitir Vexiö Ladies Light - rosalega gaman.  Hitti fullt af skemmtilegum konum/stelpum og stjórnandinn okkar, hún Anna sem er ung og hress stelpa, gæti hæglega unnið fyrir sér með uppistandi, hún er bara SVOOOO fyndin - en líka frábær stjórnandi.  Læt ykkur vita þegar heimasíðan okkar kemst í gagnið!

Óli er líka á fullu að spila í öllum sínum hljómsveitum eins og venjulega.  Rokkabillýbandið er komið með nýjan bassaleikara, kontrabassaleikara!  Og alltaf fjölgar spilununum.  Var hringt í þá um daginn og spurt hvort þeir væru til í að spila á tónlistarhátíð í Frakklandi í sumar!!  Við eigum eftir að sjá hvort það verði af því en það hljómar vissulega spennandi!

Rebekka var í inntökuprófi í morgun fyrir tónlistarvalið í menntaskólanum sem hún ætlar í næsta haust og gekk bara vel.  Hún fær að vita á morgun hvort hún kemst að og við bíðum spennt eftir niðurstöðunum!  Við vorum á sinfóníutónleikum um síðustu helgi þar sem Rebekka spilaði með, það var alveg æðislegt!  Um næstu helgi er hún síðan að spila með lúðrasveitinni á tónleikum með söngkonunni Sönnu Nilsen, en hún er mjög vinsæl söngkona hér í Svíþjóð og varð í öðru sæti í sænsku undankeppninni fyrir Eurovision í fyrra með þessu fallega lagi, sem lúðrasveitin ætlar einmitt að spila með henni á laugardaginn:

 

Sesselja æfir nú með hljómsveit á hverjum sunnudegi þar sem hún syngur og spilar á trommur!  Algjör rokkskvísa!  En samt alltaf sama, gamla Sesselja, kát og glöð og nýtur lífsins í botn!  Við erum að spá í að leyfa henni að koma heim í smástund í sumar ef Rebekka fer heim til að vinna, hitta vini sína og fríska aðeins upp á íslenskuna sem er aðeins farin að ryðga!

Diljá er líka spræk!  Búin að missa fyrstu tönnina þannig að hún er á góðri leið með að verða fullorðin.  Hún er mikill spekingur og sem dæmi um heimspekilegar vangaveltur hennar má nefna þegar við vorum á leiðinni á leikskólann einn morguninn og hún spurði mig:  ,,Heyrðu mamma, hvað ef við erum bara draumur sem einhvern annan er að dreyma?" - Já, það er einmitt það!

Annað sem er henni mjög hugleikið eru bókstafir og tölur.  Um daginn taldi hún alveg ein og óstudd upp að hundrað, sem er auðvitað afar stór áfangi, ekki síst þegar maður er bara 5 ára!  Nokkrum dögum seinna komst hún síðan upp í tvöhundruð!  Þann daginn vorum við Óli á leiðinni heim og Diljá var með okkur í bílnum.  Við stoppuðum í búðinni og Óli skaust inn.  Diljá var afar ósátt yfir að fá ekki að fara með og stóð á orgunum með tilheyrandi krókódílatárum.  Þá sagði ég bara:  ,,Tvöhundruð..."  Það skipti engum togum - gráturinn þagnaði samstundis og... "tvöhundruð og einn, tvöhundruð og tveir...." Grin  Sama kvöld þegar Diljá var sofnuð heyrðum við Óli hana tala up úr svefni, og hvað haldið þið að hún hafi sagt?  Jú, einmitt...  ,,tvöhundruð..." LoL LoL LoL

Já, svona er nú okkar líf þessa dagana.  Við bíðum bara eftir vorinu sem er óvenju seint á ferðinni í ár.  Hlökkum svo til páskanna, eigum orðið íslenskan fisk, flatbrauð, hangiálegg og lifrarpylsu í frystinum og meira að segja páskalambið!!  Páskaeggin frá Íslandi komin í hús ásamt fleira góðgæti sem Óli tók með sér þegar hann skrapp heim um daginn.  Hann hafði auðvitað ekki tíma til að hitta alla, stoppaði nánast ekkert í Reykjavík, enda tilgangur ferðarinnar aðallega að hitta foreldra sína fyrir austan!  Þið fyrirgefið honum það vonandi, þið sem hann náði ekki að hitta!

Jæja, það er best að fara að koma sér í háttinn, það er morgunfundur í vinnunni í fyrramálið svo ég þarf að vekja liðið snemma.

Kossar og knús í allar áttir!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Helgadóttir

Gleðilegan mars.   Svo er apríl alveg að rísa úr rekkju....  Við bíðum spennt eftir þeirri færslu... 

Elín Helgadóttir, 24.3.2009 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband