TUSKUBUSKA OG SKIPTINEMINN

Jæja, þá er maður kominn heim eftir vel heppnaða söluferð til Stokkhólms um helgina.  Ég fór með hele familien og við vorum auðvitað hjá Beggu og Steinari í góðu yfirlæti eins og venjulega.  Horfðum á Melodifestivalen á laugardagskvöldinu þar sem Svíar kusu sitt framlag til Eurovision.  Það var margt góðra flytjenda og laga, allt frá algjörlega óþekktum kennslukonum að koma fram opinberlega í fyrsta sinn upp í landsfræga rokkara, jafngamla rokkinu sjálfu, og inn á milli Idol-stjörnur eins og gengur og gerist.

Svíar völdu hljómsveit héðan frá Växjö sem heitir The Ark.  Segjast vera rokkband en mér þykja rokkarar með maskara og augnskugga aldrei mjög sannfærandi (nema þeir séu konur auðvitað).  Lagið venst ágætlega, en við skulum bara sjá hvað gerist í maí.  Við kjósum auðvitað Eika - sem er alvörurokkari!

Á sunnudeginum var svo ,,tuskupartí" hjá nokkrum hressum íslenskum konum í Stokkhólmi.   Þar var ég kynnt sem ,,tuskukonan" - titill sem ég veit ekki alveg hvort ég fíla.  Á sænsku kallast ég hins vegar ,,miljö konsultant" eða umhverfis ráðgjafi.  Miklu fínna!Joyful

Eftir vel heppnaða kynningu var svo haldið heim á leið og seinnipartinn á mánudeginum (í gær) tókum við síðan á móti Marie, þýska skiptinemanum okkar, á lestarstöðinni.  Hún verður hjá okkur í eina viku og síðan fer Rebekka heim til hennar í maí.  Þær eiga ýmislegt sameiginlegt, elska báðar tónlist, stærðfræði og að teikna, spila báðar á flautu og finnst gaman í keilu.  Svo sýnist mér hún vera svona róleg og hæg eins og Rebekka enda eru þær báðar í fiskamerkinu!  Svo að þetta gengur bara vel.  Tvíburabróðir hennar er síðan á hæðinni fyrir neðan okkur hjá skólabróður Rebekku og þau ætla öll að gera eitthvað saman meðan þau systkin dvelja hér.

Það eina sem er vandamálið er að stúlkan tilkynnti mér í gær að hún væri grænmetisæta, en það hafði ekki komið fram í pappírunum sem við fengum um hana.  Svo að nú er að bretta upp ermarnar og fara að töfra fram grænmetisrétti!  Auf wiedersehen!


Bloggfærslur 13. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband