VINNAN GÖFGAR MANNINN / SÆNSKA LEIKSKÓLAKERFIÐ ER BARA SNILLD!

Jæja, þá fer nú kannski að rofa til í atvinnumálum hjá mér - LOKSINS!!  Annars hef ég eiginlega verið í nánast fullu starfi við að vera atvinnulaus - fara inn á netið á hverjum degi, leita að störfum á hinum og þessum síðum, skrá mig inn á vinnumiðlanir á netinu og sækja um hin ýmsu störf - allt frá ræstingum upp í launafulltrúa.  Og allt tekur þetta nú aðeins lengri tíma en annars þegar maður er að bögglast við þetta á sænsku, einkum og sér í lagi að skrifa atvinnuumsóknir og starfsferilskrár!

Það að þurfa að gera allt á tungumáli sem maður hefur ekki fullkomið vald á, hefur kannski læknað mig pínulítið af fullkomnunaráráttunni...pínulítið...í bili a.m.k. þangað til ég verð búin að ná fullkomnu valdi á sænskunni - sem ég ætla mér að sjálfsögðu að gera!

Ég sá plakat niðri í bæ um daginn þar sem var yfirlit yfir hversu mikil þörf væri fyrir fólk í hin ýmsu störf hér í léninu (sýslunni).  Þá sá ég að það er einmitt offramboð á fólki í þau störf sem ég hef verið að sækja um, en skortur t.d. á múrurum, röntgentæknum og flugfreyjum.  Hm, ég verð að fara að endurmennta migUndecided

Á fimmtudaginn var loksins hringt í mig og ég boðuð í ATVINNUVIÐTAL W00t  Ég hafði sótt um sölustarf hjá fyrirtæki sem selur míkrófíber hreingernigarklúta o.fl.  Svona voða umhverfisvænar vörur.  Þó að ég hafi ekki verið sérlega spennt fyrir svona sölumennsku sá ég nokkra kosti í þessu starfi, m.a. föst tímalaun auk prósentum af sölu, svo ég sló til.  Konan sem hringdi í mig var ekki viss um að ég gæti sinnt þessu starfi vegna skorts á tungumálakunnáttu en sagði mér samt að koma.

Í gær ók ég síðan 55 km leið í nærliggjandi bæ og hitti þar eiganda fyrirtækisins, hinn danska Søren Sørensen, vingjarnlegan eldri mann.  Ég veit ekki hvort það var af því að ég er Íslendingur eða bara svona heillandi og sannfærandi, en hann sagði að ég skyldi búast við því að verða boðuð í annað viðtal á föstudaginn.  Það verða semsagt 2-4 af 50 sem sóttu um sem fá vinnu hjá þeim!  Svo nú bíð ég bara eftir símhringingu!

Það eru líka mjög góðar líkur á að ég geti fengið vinnu sem afleysingakennari i ensku og þýsku í gaggó!  Hér er mikið af fólki sem starfar við afleysingar hjá bæjarfélaginu, í skólum og leikskólum, bæði við kennslu, daggæslu, í eldhúsi og ræstingum.  Ég var aldrei búin að sækja um þetta vegna þess að mér fannst ómögulegt að fara að borga fyrir heilsdagsgæslu fyrir Diljá á leikskólanum ef ég væri svo bara að vinna nokkra daga í mánuði.  Svo var mér nú bent á að spyrjast fyrir á leikskólanum, því að hér væri svo mikill sveigjanleiki.  Og komst að því að SÆNSKA LEIKSKÓLAKERFIÐ ER BARA SNILLD!!

Þó að Diljá sé núna á leikskólanum 3 tíma á dag fyrir hádegi, þá á hún fullt pláss!  Það er ekkert hálft pláss til hér og enginn annar sem fyllir í hennar myndarlega skarð eftir hádegið.  Þannig að ef hringt er í mig að morgni og ég beðin um að leysa af í kennslu frá 9-16, þá er Diljá bara á leikskólanum þann daginn frá 9-16!  Ekkert mál - ekkert vesen og ekkert verið að trufla starfsemina á leikskólanum, eins og maður gæti búist við að yrði sagt heima á Íslandi.  Hér er allt miðað við þarfir barnsins og foreldra þess.  Og svo borgar maður bara fyrir þann tíma sem maður nýtir á leikskólanum.

Nú þarf ég bara að ganga frá umsókn um afleysingakennslu, fá sakavottorð o.þ.h. og svo er bara að setja í gang.  Bæjarfélagið hér hefur t.d. ENGAN afleysingakennara í þýsku, en hér byrja krakkarnir að læra þýsku í 7. eða 8. bekk, þannig að ég ætti að geta fengið eitthvað að gera.

Annars eru allir hressir, hér er smá snjór og frost núna og stelpunum leiðist það nú ekki!  Þær eru komnar á fullt í sína rútínu og njóta lífsins.  Óli er orðinn fastráðinn hjá Ottosson Bygg og líkar alltaf betur og betur - er líka orðinn ansi sleipur í sænskunni svo að þetta fer bara batnandi dag frá degi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Hæ hó. Mikið er nú gaman að heyra að þetta er allt að koma hjá þér Heiða mín. Ég veit alveg hvernig þetta er að vera að leita sér að vinnu, ég er alveg sammála þér, þetta er full vinna í sjálfu sér. Frábært að fá fregnir af ykkur, ég er búin að vera að kíkja á bloggið hjá þér daglega og var ánægð í dag að sjá nýjar fréttir af ykkur. Ég trúi því að þetta fari allt að koma og að þú verður komin í fína vinnu bráðlega, þið verðið eflaust öll orðin sænskutalandi fyrir sumar, og þá meina ég eins og Svíarnir sænskutalandi, þið eruð öll svo fljót til með allt. Við biðjum vel að heilsa í bili hér úr kuldanum í Kaliforníu, þó svo að hér sé enginn snjór, en kalt samt. Sjáumst í sumar, þín Bertha og co.

Bertha Sigmundsdóttir, 23.1.2007 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband