13.2.2007 | 09:01
MIG DREYMDI DRAUM...
Sem er ekkert nýtt. En þetta hafði mig aldrei dreymt áður. Mig dreymdi að við Óli vorum að flytja inn í einbýlishús og vorum stödd í stórri L-laga stofu. Mér fannst að flutningamenn hefðu komið með dótið okkar að okkur fjarstöddum og þessi stóra stofa var full af sófum og stólum. Þarna var leðurhornsófi, leðursófasett, annað gamalt ljótt tausófasett, alls kyns stólar og eitthvað fleira og við vorum að færa þetta til og reyna að koma þessu snyrtilega fyrir.
Þegar ég vaknaði fletti ég strax upp í Stóru draumráðningarbókinni sem Begga, Ella & co. gáfu mér í þrítugsafmælisgjöf og ég hef alltaf við rúmið mitt. Þar las ég að húsgögn væru fyrir fjárgróða. Nú - mig hefur aldrei fyrr dreymt svona haug af húsgögnum og aldrei grætt mikinn pening þannig að það má alltaf vona. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að ég tek ekki mark á þessu í algjörri blindni. Sumt af því sem stendur í bókinni stemmir fyrir mig en annað alls ekki. Það versta sem ég veit t.d. er að dreyma mannaskít - sem á að vera fyrir peningum...þið vitið. Í mínu tilfelli hefur það hins vegar þveröfuga merkingu - þýðir einfaldlega að ég er í djúpum skít! Mannsnafnið Haukur þýðir hins vegar að mér áskotnast einhver aur og einstaka sinnum hefur olíufurstanum á Höfn brugðið fyrir í draumum hjá mér fyrir góðar útborganir eða annað óvænt.
Nú er bara að bíða og sjá hvað setur. Kannski tengist þetta nýja starfinu mínu. Fyrsta umhverfiskynningin fór fram hér heima hjá mér á sunnudaginn. Það kom leiðbeinandi frá TSG og hélt kynninguna til að sýna mér hvernig þetta færi fram, en ég fékk sölulaunin. Ég bauð hingað nokkrum íslenskum konum, hafði reyndar bara hitt eina þeirra áður, og það var mjög gaman! Diljá fékk líka leikfélaga því að það kom tveggja og hálfs árs gamall gutti með. Kynningin gekk vel og salan var mjög góð. Nú þarf ég bara að redda 8 kynningum í viðbót á næstu 8 vikum og er að vinna í því. Eftir 8 heimakynningar fæ ég síðan frekari þjálfun og má þá fara að selja til fyrirtækja. Svo er ég þegar búin að fá eina pöntun frá Íslandi svo að ef einhverjir eru forvitnir um þetta kíkið þá á www.tsgbiomiljo.se.
Annars var helgin viðburðarík. Við fórum til Målilla eftir vinnu hjá Óla á föstudeginum og gistum fram á laugardag. Slöppuðum af fram eftir degi meðan stelpurnar léku sér í snjónum úti í garði. Irene bar í okkur mat og drykk eins og henni einni er lagið, kalkún, dádýrshakk í pottrétti - rosalega gott - og semlur. Semlur eru sænskar rjómabollur með möndlufyllingu - algjört sælgæti - sem borðaðar eru á þessum árstíma. Áður en við fórum heim fór síðan öll fjölskyldan á skauta á bandy-vellinum í Målilla. (Bandy er svipað og íshokkí). Diljá fannst svellið ,,rosalega hált" og var ekkert alltof ánægð, en það kemur. Ég hef ekki farið á skauta í meira en 15 ár, gat það aldrei út af hnjánum á mér, og var vægast sagt stirð. Nú er bara að vera duglegur að æfa sig!
Á laugardagskvöldinu þegar við komum heim kom Maria í heimsókn og þýska stelpan sem leigir hjá henni. Maður fer að vera alveg ruglaður í því hvaða tungumál maður á eiginlega að tala! Við spiluðum Catan og spjölluðum um heima og geima.
Sunnudagurinn var síðan undirlagður undir kynninguna. Ég bakaði fyrri partinn og síðan kom Carina, leiðbeinandinn, klukkan 15. Kynningin var klukkan 17 og konurnar voru að fara heim milli 20 og 21. Síðan kenndi Carina mér að gera pantanir á netinu og fór með mér í gegnum ýmsa pappíra og fór ekki fyrr en undir miðnætti. Þá var ég komin með hausverk eins og alltaf þegar ég þarf að einbeita mér mjög lengi að því að hlusta og skilja allt sem fram fer á sænsku. Úthaldið eykst samt alltaf og í dag er yfirleitt engin áreynsla í því að hlusta á útvarp eða sjónvarp. Sesselja fór líka á skíði í fyrsta sinn á sunnudaginn, með Aneu vinkonu sinni og síðan gaf Anea henni gömlu skíðin sín - ekki lítil hamingja þar!
Alla næstu viku er síðan frí í skólunum, svokallað sportlov. Þá ætlum við m.a. að fara með Mariu, pabba og Irene til Gautaborgar í einn dag. Meira af því siðar...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.