VEÐURFRÆÐI?

Mikið rosalega er hollt að vera útlendingur!  Ég mæli með því fyrir alla að prófa það - og þá meina ég auðvitað ekki í þrjár vikur á Spáni.  Það víkkar sjóndeildarhringinn, styrkir fjölskylduböndin og eykur sjálfstæðið.  Maður finnur alveg nýjar víddir hjá sjálfum sér!

Í fyrstu er maður auðvitað oft að bera saman ,,gamla landið" og ,,nýja landið" og þá líður manni stundum eins og maður hafi skriðið úr eigin skinni.  Hér upplifir maður allt í einu smæð landsins síns á alla kanta.  ,,Ísland - best í heimi!" - gildir ekki hér og svei mér þá ef önnur lönd geta ekki verið að minnsta kosti jafngóð!  Hér býr líka gott fólk, hér er líka falleg náttúra - bara öðruvísi, hér er líka til fullt af góðum mat - bara öðruvísi og hér er líka auðugt menningarlíf - bara öðruvísi.

En hér er veðrið hins vegar miklu, miklu betra Cool - hvort sem er sumar, vetur, vor eða haust.  Því bara verður ekki neitað.  Og eftir rúmlega 8 mánaða búsetu hér í Svíaríki er ég komin á þá skoðun að veðurfar hafi miklu meiri áhrif á daglegt líf okkar en bara það hvort við klæðum okkur í stuttermabol eða heimskautagalla.  Ég held að veðrið hafi mikil áhrif á allt okkar atferli og jafnvel mataræði.  Sjáum nú til...

Er hugsanlegt að hraðinn, flýtirin og stressið í okkur Íslendingum sé tilkominn vegna þess að við erum svo vön því að vera alltaf að reyna að drífa okkur inn úr kuldanum og rokinu?  Vex ekki afslöppun fólks í réttu hlutfalli við hlýrra veðurfar?  Ég hef t.d. heyrt að í Ástralíu sé fólk svo afslappað að það mæti jafnvel með börnin í náttfötunum á leikskólann ef því sýnist svo!  Við löbbum jú óneitanlega hægar niður Laugaveginn í sól og sumaryl en norðangaddi og hífandi roki.

Og svo er það maturinn.  Sykur, sykur og aftur sykur!  Ég veit fyrir víst að bæði Svíum og Þjóðverjum þykir íslenskur matur alveg skelfilega sætur.  Ég var t.d. með Svía í mat um daginn og þorði ekki fyrir mitt litla líf að setja sykur í kartöflumúsina.  Það finnst þeim alveg hræðilegt.  Ég held að við sækjum meira í sykur því að það fer meiri orka í að halda á sér hita í okkar kalda landi.  Nammigrísamælirinn minn varð t.d. nánast óvirkur síðasta sumar.  Maður missir alla löngun í nammi í hitanum fyrir utan það auðvitað að maður stingur ekki súkkulaðistykki niður í handtöskuna sína nema einu sinni Whistling

Ætli þetta hafi eitthvað verið rannsakað?  Kannski það sé til einhver hliðargrein út frá veðurfræði sem fjallar um þetta - einhvers konar veðuratferlisfræði?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Það er mikið til í þessu hjá þér, Heiða mín. Ég hef séð þetta í gegnum árin, þegar ég flutti til Danmerkur og þegar ég flutti til Ameríku. Svo hef ég séð muninn á Austurströndinni og Vesturströndinni. Hér í Kaliforníu er fólk miklu afslappaðra en í Boston. Ég er alveg á því að veðráttan hafi mikið með þetta að gera. Og eflaust líka aldurinn, maður fer að njóta fjölskyldunnar og hún verður mikilvægari með hverjum afmælisdegi sem að maður hefur

Alltaf jafn gaman að lesa pistlana þína, þú ert góð í skrifunum. Ég vona að vinnan þín gangi vel og að allir séu að njóta vorsins sem fer að koma, þó svo að það kom snemma til okkar í sunny California!!!

Ástarkveðjur frá okkur til ykkar

Bertha Sigmundsdóttir, 6.3.2007 kl. 17:37

2 Smámynd: Hulda Dagmar Magnúsdóttir

Já það er heilmikið til í þessu. Maðu sér það bara þegar veðrið er gott stingur fólk niður öxlunum, læðir fram brosi og verður einhvernveginn meðvitaðra um líðandi stund.
Enda má varla sjást til sólu hérna á klakanum þá æða allir hálf berrassaðir út  

Hulda Dagmar Magnúsdóttir, 6.3.2007 kl. 22:31

3 identicon

til hamingju með frumburðinn
gott að sjá og lesa um hvað þið hafið það gott litla fjölskylda
bið að heilsa óla
kveðja Kristín Jóns

Kristín Jóns (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband