28.3.2007 | 08:06
HITT OG ÞETTA
Æ, það er búið að vera eitthvað svo mikið að gera síðan við komum heim frá London. En þegar vinir mínir krefja mig um skrif, verð ég við óskum þeirra
London er auðvitað æðisleg borg og ég mæli með því fyrir ALLA að heimsækja hana a.m.k. einu sinni á ævinni. Ég hef einu sinni áður komið til London, það var í útskriftarferð í júní 1988 með mínum frábæru vinum Unni, Hönnu Dóru og Bjössa ásamt nokkrum fleirum góðum félögum. Við vorum þar í 4 daga og þræddum listasöfn, leikhús og Oxford stræti, horfðum á lífvarðaskiptin við höllina og fórum í túristaferð með tveggja hæða strætó. Þessi ferð hefur öll setið mér í fersku minni sl. 19 ár - alveg ógleymanleg (þar sem ég er nú búin að gleyma ansi miklu á þessum 19 árum)!
Óli hefur líka komið þangað einu sinni áður, í karateferð þegar hann var 16 ára. Þeir strákarnir hlupu berfættir frá Höfn til Reykjavíkur og söfnuðu áheitum fyrir ferðinni. Það fyrsta sem Sveinbjörn karateþjálfari gerði í London var að fara með hóp af testósteronhormónatrylltum unglingsstrákum í Soho-hverfið! Spurning hvort svoleiðis nokkuð gæti ekki haft varanleg skaðleg áhrif á unga pilta, t.d. þannig að menn staðni árum saman í aldri?
Ég held að London hafi ekkert breyst. Hún er lifandi, fræðandi, nærandi, hrífandi og spennandi! Í þetta sinn nutum við þess að slappa af, sofa út, horfa ekki á klukkuna og borða góðan mat í góðra vina hópi. Við fórum á afar vinalegan (svo að ekki sé meira sagt) indverskan veitingastað þar sem við stelpurnar vorum faðmaðar og kysstar í kveðjuskyni en hvers vegna framkvæmdastjórinn vildi ekki kyssa okkar fjallmyndarlegu herra er mér algerlega óskiljanlegt Við fórum líka á kínverskan stað í Kínahverfinu en það er mjög sérstakur hluti af London. Við horfðum á hátíðahöld vegna St. Patricks Day, kíktum í hljóðfæraverslanirnar við Denmark Street, röltum framhjá Downingstræti (Blair var ekki heima að sögn öryggislögreglunnar) og niður að Big Ben sem er svo sannarlega BIG! Við sáum líka nýjasta djásn Lundúnarborgar - Augað eða ,,The Eye" - risastórt Parísarhjól, 135 metra hátt með útsýni í 40 km radíus. Menn standa inni í stórum klefum sem hver tekur 25 mann og tekur ökuferðin hálftíma. Við fórum ekki í það núna en erum ákveðin í að gera það næst þegar við komum til London. Það var frekar kalt í London, komu m.a.s. haglél svo að ekkert varð úr fyrirhugaðri gönguferð okkar Óla um Hyde Park, sem var beint á móti hótelinu okkar.
Já, London er heillandi. Allt í einu er maður orðinn ,,mam" og ,,sir" og það er svolítill ævintýrablær yfir þessu öllu.
Það var svolítið skrítið að koma heim til Svíþjóðar seint á þriðjudagskvöldinu. Ég gleymdi alveg að tala sænsku til að byrja með á flugvellinum, talaði bara ensku áfram! Svo fórum við á bensínstöð, tókum bensín og keyptum sænska pylsu og þá fór það að síast inn í mig að við værum komin heim. Við komum ekki til Växjö fyrr en hálfþrjú um nóttina og vorum fljót að rotast. Pabbi og Irene höfðu haft 100% stjórn á öllu í fjarveru okkar og við tók hið daglega amstur.
Á sunnudeginum kom Þórunn í heimsókn til okkar. Hún er á leið af landi brott, ætlar til Ameríku og Hawaí, Íslands og sennilega Írlands. Hún fór frá okkur í gær og nú erum við að undirbúa næstu heimsókn, en Unnur og Óli koma til okkar á Pálmasunnudag og verða fram á föstudaginn langa. Ég hlakka rosalega mikið til og vona að vorveðrið verði jafngott og nú á meðan þau stoppa hjá okkur. Það er reyndar kalt á nóttunni, kringum frostmark, svalt á morgnana en fer svo upp í 15 stig yfir daginn og í sólinni á svölunum hjá mér upp í 25 stig. Vorblómin eru farin að stinga sér upp í görðum, Krókus heita þau víst, í öllum regnbogans litum, og lífga svo sannarlega upp á lífið og ekki síst sálartetrið.
Ég vona bara að fleiri eigi eftir að heimsækja okkur í sumar. Við verðum auðvitað á Íslandi seinnipart júlí fram í ágústbyrjun en þið vitið að þið eruð alltaf velkomin til okkar!
Athugasemdir
Vá, hljómar eins og hörkuferð!!! Mig langar bara til þess að panta miðann minn til London núna strax eftir að lesa lýsingu þína. Þú ættir kannski að verða ferðaritari (svona travel writer), þú kemur þessu svo fallega frá þér. Ekki amalegt að fá að ferðast og svo skrifa um það fyrir annað fólk Ég er sko búin að bíða spennt eftir að lesa um ævintýrin ykkar þó svo að ég talaði við þig smávegis um daginn, þannig að ég er sko ánægð að heyra frá ykkur.
Vona að þið hafið kíkt við hjá mér til þess að sjá hversu gaman það er búið að vera hjá mér... jæja, hlakka til þess að sjá ykkur í sumar eins og alltaf
Bertha Sigmundsdóttir, 28.3.2007 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.