28.3.2007 | 22:42
ÉG VIL GETA VAXIÐ EINS OG TRÉ...
...syngja perurnar í leikritinu Ávaxtakörfunni. Sesselja mín vil nú bara geta vaxið eins og önnur börn en eins og þið flest vitið höfum við þurft að sprauta hana daglega með vaxtarhormóni í eitt ár. Það hefur gengið mjög vel og fyrstu 9 mánuðina óx hún að meðaltali um 1 sm á mánuði. Í fyrradag fór hún síðan í reglubundið eftirlit og í þetta sinn hittum við sérfræðing frá Lundi. Árangur meðferðarinnar er ekki marktækur fyrr en eftir 1 ár þar sem öll börn sem byrja á vaxtarhormóninu vaxa mikið í byrjun en síðan finna þau yfirleitt sína kúrfu og fylgja henni.
Nú brá hins vegar svo við að Sesselja hefur nánast ekkert stækkað síðan í síðustu mælingu í janúar, eða aðeins um 0,1 sm. Þetta kom öllum mjög á óvart og velta menn nú fyrir sér hverju þetta sæti. Hvort síðasta mælinghafi verið ónákvæm, hvort eitthvað hafi komið fyrir lyfin og þau eyðilagst (þessi lyf eru mjög viðkvæm og hrikalega dýr!!) eða hvort hún sé einfaldlega hætt að svara meðferðinni, eins og stundum gerist. Nú verður hún boðuð í blóðprufur og myndatöku og meðferðinni haldið áfram í 4 mánuði til að sjá hvort einhver breyting verði.
Áður en hún byrjaði á sprautunum hægði sífellt meir á vextinum hjá henni og óljóst í hvað gæti stefnt. Hún var rosalega glöð þegar hún fór að stækka en hún var þá búin að nota sömu fatastærð í 2 ár, sem er ekki vaninn þegar maður er 6-8 ára. Síðustu mánuði hefur hún verið rosalega þreytt á sprautunum en bitið á jaxlinn og látið sig hafa það í þeirri trú að hún væri að stækka. Nú verðum við bara að bíða og sjá hvað setur en hvernig sem fer getum við þó alltaf verið viss um að Sesselja sé og verði kná þótt hún sé smá!
Athugasemdir
Elsku Sesselja mín. Mikið ertu nú búin að vera dugleg í sprautunum, ég og þú erum báðar að sprauta okkur á hverjum degi. Það er gaman að heyra að þú sért að stækka, en veistu hvað, mér fannst alltaf leiðinlegt að vera lítil þegar ég var á þínum aldri. Þó svo að ég hætti að stækka þegar ég var ellefu ára, þá finnst mér gaman að vera lítil núna þegar ég er fullorðin. Haltu áfram að vera dugleg, elskan, ég veit að það er sko ekki gaman að þurfa að sprauta sig, en þú ert svo dugleg að ég veit að þú átt eftir að verða orðin svaka stór þegar ég sé þig í sumar Við söknum þín og ykkar allra, hlökkum til þess að sjá ykkur í sumar, kossar og knús... Bertha frænka
Bertha Sigmundsdóttir, 29.3.2007 kl. 22:19
Elsku Sesselja mín vertu ná áfram dugleg, það verður örugglega hægt að finna út hversvegna þetta er svona. Kannski eru þetta lyfin sem hafa skemmst og þá færðu bara ný og óskemmd lyf. Bestu kveðjur frá okkur og þá allra messt frá Agnesi.
Guðlaug Úlfarsdóttir, 1.4.2007 kl. 19:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.