Í FRÉTTUM ER ÞETTA HELST...

Ég var að vinna í dag Smile  Það var hringt í mig seinnipartinn í gær og ég beðin um að taka að mér afleysingakennslu í þýsku í Kronobergskola.  Þetta er einkaskóli, í eigu rektorsins sjálfs, með 190 nemendur í 6. -9. bekk (sama og 7. -10. hér heima).  Ég sagði auðvitað ,,JÁ TAKK!" með það sama en var svolítið kvíðin yfir því hvernig mér gengi að kenna lengra komnum nemendum í þýsku.  Ég hef bara kennt byrjendum heima á Íslandi og það sem ég lærði á sínum tíma í MS er orðið ansi ryðgað.

En - skemmst er frá því að segja að þetta gekk allt mjög vel.  Hér velja krakkar sér annað erlent tungumál (þ.e. á eftir ensku) í 6. bekk og geta þá valið um þýsku, frönsku eða spænsku.  Ég kenndi í öllum bekkjum skólans og voru hóparnir frá 4 upp í 21 nemanda að stærð.  Þeim fannst auðvitað voða spennandi að ég kæmi frá Íslandi, spurðu um íslenska hestinn og hvernig í ósköpunum mér hefði dottið til hugar að flytja FRÁ Íslandi, þar væri svo miklu betra að búa en í Svíþjóð út af heita vatninu!  Nokkrir nemendur lærðu meira að segja ,,Ég heiti..." og ,,Bless"  Ég er mikið að spá í að skella mér í þýsku í háskólanum hér í haust - það kostar ekkert nema bækurnar svo það er um að gera að nota tækifærið meðan við erum hér.

Í gær fór ég á hádegistónleika í dómkirkjunni.  Rebekka var að spila með lúðrasveitinni og það var alveg magnaður hljómburðurinn í kirkjunni.  Þau spiluðu m.a. syrpu úr Evitu og kvikmyndatónlist.  Ég tók Diljá með mér og hún sat alveg dolfallin yfir þessu.  Á eftir var síðan hægt að fá sér súpu og smurt brauð í kirkjunni.  Það voru bara dúkuð nokkur borð aftan við kirkjubekkina, en kirkjan er jú nokkuð stór.

Nú er Sesselja að heiman.  Við skutluðum henni og bekkjarbræðrum hennar tveimur í skátakofa úti í sveit nú seinnipartinn þar sem þau verða fram á miðjan dag á morgun að æfa sig við hin ýmsu skátastörf.  Henni finnst rosalega gaman í skátunum og hlakkaði svo mikið til að hún var með fiðring í maganum í allan dag!

Nú fyrir stuttu fór Óli með hana á opið hús í Kulturskolan, sem er tónlistar-, myndlistar- og leiklistarskóli.  Hennar árgangi var boðið að koma og prófa ýmis hljóðfæri til að krakkarnir gætu ákveðið á hvaða hljóðfæri þeir vildu læra.  Hún prófaði gítar, hljómborð, fiðlu og trommur en þegar kom að horninu sagði hún strax:  ,,Ég vil læra á þetta!"  Hún náði strax tóni úr því og fannst það svo frábært.  Fram að þessu hafði hún ætlað að læra á fiðlu - (þegar hún var 5 ára dró pabbi hennar hana öskrandi og grenjandi út úr  hljóðfæraverslun í Reykjavík þvi að hann ,,vildi ekki kaupa litlu barnafiðluna handa henni!") - og síðan gítar þar sem hún ætlaði bæði að verða Idol-stjarna, syngja í Eurovision og vera eins og Hera.  Svo að þetta var eitthvað alveg nýtt.  Við sögðum henni að rokkarar spiluðu yfirleitt ekki á horn, en hún er alveg ákveðin og ekki ætla ég að fara að stjórna því á hvaða hljóðfæri börnin mín læra.

Á morgun og sunnudaginn er Rebekka síðan að keppa á sundmóti hér í bæ, sjálf þarf ég að vera á námskeiði í sölumennsku og á sunnudaginn fer Óli og sækir Unni og nafna sinn til Kaupmannahafnar.  Ég verð hér heima með stelpurnar þar sem Sesselja er að syngja í páskahelgileik í kirkjunni sem hún vill auðvitað alls ekki missa af.

Já - og þið sem þekkið hana Þórunni getið nú fylgst með henni blogga á ferðalagi sínu um heiminn - ég er búin að setja hana í bloggvini hjá mérWink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já við erum alveg komin í startholurnar.  Það verður skrýtið að fara frá Árnaling en hann verður nú í góðum höndum.  Við erum búin að redda þessari líka fínu "páskaeggjatösku" og spurning um að henda svo bara niður nokkrum hlírabolum og hörbuxum. 

Sjáumst á sunnudaginn. Unnur og Óli.

Unnur og co. (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 23:49

2 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

En hvað það verður gaman fyrir ykkur að fá Unni í heimsókn, ég bið rosalega vel að heilsa henni. Ég sé að það er brjálað að gera hjá ykkur í áhugamálunum hjá stelpunum, ég kannast við þetta, maður er alltaf útum allt. Til hamingju með þýsku kennsluna, en frábært... ég veit sko alveg að þú brilleraðir, þú íslensk, að kenna sænskum nemendum, að kenna þeim þýsku. Heimurinn er nú ekki stærri en það að þarna eru komin þrjú tungumál í eina litla skólastofu.

Gaman að heyra um ykkur öll, kossar og knús á línuna

Bertha Sigmundsdóttir, 31.3.2007 kl. 15:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband