8.4.2007 | 08:34
GLEÐILEGA PÁSKA!
Gleðilega páska!
Kæru ættingjar og vinir.
Diljá og Sesselja vöknuðu um klukkan 8 í morgun og ræstu restina af fjölskyldunni svo að hægt væri að fara að leita að páskaeggjunum sem Unnur og Óli komu með frá Íslandi og við földum í gærkvöldi. (Unglingurinn á heimilinu hefði nú alveg þegið að sofa lengur!) Það var nú ekki svo lengi gert að finna öll fimm páskaeggin þó svo að yngri fjölskyldumeðlimum fyndist það taka óratíma! Óli var sérstaklega naskur að finna sitt egg sem við höfðum falið á ,,þriðju hæð" íbúðarinnar, uppi á leikloftinu hjá Sesselju, inni í Baby Born fataskápnum. Hann bara rann á lyktina! Rebekka, aftur á móti, þáði hjálp frá Diljá við að finna sitt páskaegg sem var í dótakörfunni hennar Diljár.
Svo voru eggin opnuð og málshættirnir komu í ljós. Óli fékk: Aumur er iðjulaus maður. Alveg sérlega viðeigandi! Minn var: Sá einn veit sem reynir. Rebekka fékk: Margur á bágan dag en blítt kvöld. Sesselju var: Sér eignar smali fé þó engan eigi sauðinn. Og Diljár málsháttur hljóðaði svo: Einhvern veginn slunginn sleppur.
Í dag ætlum við bara að njóta þess að slappa af, spila Matador og horfa saman á fjölskyldumynd. Sjálfsagt verður farið með væntanlegt fermingarbarn í messu seinnipartinn og síðan borðum við hinn klassíska hamborgarahrygg í kvöld.
Ég held að páskarnir séu ekki svo ólíkir hér. Okkur finnast Svíar skreyta mikið, m.a. með marglitum fjöðrum - mjög fallegt. Páskaeggin þeirra eru svolítið öðruvísi en okkar, pappaegg í öllum stærðum og gerðum sem þeir fylla síðan af sælgæti. Þeirra súkkulaðiegg eru örsmá og eru sett í stóra pappaeggið.
Vonandi eigið þið öll gleðilega páska!
Athugasemdir
Gleðilega páska
Kveðja frá Fákaleiru 8c
Ragna (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 10:08
Gleðilega Páska kæra fjölskylda. Af okkur er allt gott að frétta, við förum líka í messu í dag, og svo koma nokkrir ættingjar í heimsókn, ég vildi óska þess að þið væruð líka að koma... En, nú styttist í sumarið og ég get varla beðið.
Kyssið og kjammið nú hvort annað frá okkur hér í Kaliforníunni Við söknum ykkar og elskum, og njótið dagsins í faðmi fjölskyldunnar.
Bertha Sigmundsdóttir, 8.4.2007 kl. 13:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.