17.4.2007 | 21:30
FYRST OG SÍÐAST...
Já, ég viðurkenni það - ég hef verið löt við að blogga upp á síðkastið. Kannski er ég bara ennþá mett eftir páskaheimsókn Unnar og Óla frá Íslandi. Einhvern veginn hef ég svo haft nóg að gera við daglegt amstur eftir að páskafríinu lauk. Sl. fimmtudag var síðan hringt í mig og ég beðin um að kenna aftur þýsku á föstudeginum, sem ég og gerði. Það var fínt! Á laugardeginum fórum við svo til pabba og Irene í Målilla og hjálpuðum þeim að flytja heim fullt af eldivið sem þau höfðu keypt. Það var mjög gaman og minnti pínulítið á heyskapinn á Oddhól í þá gömlu góðu - að henda á kerru, keyra heim og henda af kerru - og veðrið maður...
Það var sumarblíða hér um helgina, yfir 20 stiga hiti og ekki ský á himni. Nú hefur aðeins kólnað aftur en maður er búinn að fá forsmekkinn af því sem koma skal. Það er stutt í stuttbuxurnar skal ég segja ykkur.
Ég festist yfir sænska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Við Óli horfðum á tíu-fréttir, svo sofnaði Óli en ég sat stjörf yfir norskum spjallþætti. Gestir þáttarins voru ekki af verra taginu: Al Gore, Gro Harlem Brundtland, Muhammad Yunus - sem fékk friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári - og Leonard Cohen ásamt bakraddasöngkonu sinni til margra ára, Anjani.
Það var vitaskuld rætt mikið um umhverfismál. Al Gore sagði að nú þýddi ekkert að ætla að lagfæra vandann eftir að skaðinn væri skeður, þá væri það einfaldlega orðið alltof seint. Hann og Yunus bentu á að Bangladesh, heimaland Yunus, væri það land sem verst yrði úti ef menn brygðust ekki við gróðurhúsaáhrifunum, vegna lágrar legu þess. Hækki yfirborð sjávar um 1 metra, munu tugir milljóna missa heimili sín. Nú þegar eru flóð þar orðin tíðari og stærri en áður. Spyrillinn spurði Yunus hvort honum liði aldrei eins og hann gengi inn á kaffihús þar sem Al Gore, Gro Harlem og hann sjálfur sætu og nytu veitinganna - og létu hann svo um að borga reikninginn! Því að þetta fátæka land, þar sem 70% íbúanna eru án rafmagns, er ekki skaðvaldurinn - heldur fyrst og fremst fórnarlamb.
Síðar blandaði Leonard Cohen sér í umræðuna. Hann dvaldi í munkaklaustri í 5 ár og sagði að það væri í mannlegu eðli að gera ekki umsvifamiklar breytingar fyrr en menn neyddust til þess. Sem sagt, eftir að skaðinn er skeður. Þannig að útlitið er ekki gott - eða hvað? Vakti mann til umhugsunar og ekki veitir af.
Ég vinn hjá fyrirtæki sem heitir TSG biomiljö og selur umhverfisvænar hreinlætisvörur. Með því að nota míkrófíber tuskur og moppur, ásamt hreingerningarefnum sem innihalda engin kemísk efni og eru fullkomlega skaðlaus fyrir bæði manneskjuna og umhverfið, getur hvert heimili minnkað losun kemískra efna út í náttúruna um allt að 90%. Það er ekki svo lítið. Á námskeiði hjá fyrirtækinu var sagt við okkur að ef við ætluðum að bíða eftir því að stjórnvöld gerðu eitthvað í málinu, yrðum við að bíða mjööög leeeengi. Ég held að það sé rétt. Eins og Cohen sagði þá bíðum við alltaf eftir einhverju valdboði sem segir okkur hvernig við eigum að hegða okkur. Vörpum ábyrgðinni yfir á aðra. Nú verður sérhver einstaklingur að axla ábyrgð og gera það sem í hans valdi stendur. Margt smátt gerir jú eitt stórt. Ég ætla a.m.k. að reyna að leggja mitt af mörkum.
Eftir þennan sláandi þátt tóku við tónleikar með Sting og bosnískum lútuspilara, Edin Karamazov, þar sem þeir fluttu tónlist eftir ,,fyrsta breska popparann", John Dowland, sem var vinsæll lagasmiður fyrir 400 árum síðan, á endurreisnartímanum. Ótrúleg tónlist, svo falleg og margslungin! Og magnaður flutningur! Svo sannarlega endurnærandi fyrir sálartetrið. Diskur sem ég verð að eignast - ,,Songs from the labyrinth".
Já, þegar ég hallaði mér á koddann í gærkvöldi hafði imbakassinn heldur betur gefið mér bæði andlega næringu og siðferðilegt umhugsunarefni. Eitthvað annað en þetta venjulega: CSI og Seinfeld. Hvaða nútíma poppara skyldu menn annars hlusta á eftir 400 ár? - þ.e. ef við verðum ekki búin að útrýma sjálfum okkur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.