18.4.2007 | 13:41
18. APRÍL
Í dag eru víst 36 ár síðan Begga systir fermdist í Háteigskirkju. Ég var ekki orðin þriggja ára en man mjög vel eftir því. Ég man eftir því þegar ég var klædd í bláu sparifötin mín, ég man hvað ég var spennt yfir því að sjá Beggu systur og að hún vinkaði til mín þegar hún gekk inn kirkjugólfið - það fannst mér alveg æðislegt! Ég man líka hvað ég grenjaði þegar sálmarnir voru sungnir. Ég veit ekki af hverju, ég þoldi bara ekki sálmasöng og var sérstaklega viðkvæm fyrir því þegar mamma hóf upp raust sína. Pabbi varð að fara með mig fram í anddyri í kirkjunni meðan á ósköpunum stóð. Ég man líka eftir veislunni, fannst maturinn reyndar ekkert spes, og hópmyndatökunni á eftir þar sem öll stórfjölskyldan var samankomin.
11 árum síðar upp á dag fermdist ég síðan í sömu kirkju. Ég á semsagt 25 ára fermingarafmæli í dag. Minn fermingardagur var alveg indæll og ég hugsaði til þess að nú væri ég í sömu sporum og Begga hafði verið í 11 árum áður og Inda litla uppáhaldsfrænkan mín, tæplega þriggja ára, kannski jafnspennt og ég var þá. Ég grenjaði ekkert yfir sálmasöngnum í þetta sinn og allt fór vel fram. Sr. Valgeir Ástráðsson fermdi mig ásamt 34 öðrum krökkum svo að athöfnin tók sinn tíma. Síðan var matarveisla í sal Málarafélagsins þar sem allir nánustu ættingjar voru saman komnir.
Enn liðu 11 ár og 18. apríl rann upp á ný. Þann dag hélt Begga systir á frumburði mínum undir skírn heima hjá sér og sú hefð hélst síðan að hún og Steinar héldu skírnarveislur allra stelpnanna minna. Reyndar fylgdi þeirri hefð reyndar að í hvert sinn sem þau voru búin að halda skírnarveislu - fluttu þau...eitthvert langt í burtu! Og þar sem fleiri börn eru ekki á döfinni hjá mér er víst engin hætta á að þau færi sig úr stað.
Já, 18. apríl hefur verið góður dagur í mínu lífi
Athugasemdir
Já, 18. apríl er fínasti dagur þá eignaðist ég yngsta bróður minn en hann hefur jú verið mesti ljósgeisli síðan hann kom í heiminn.
Guðlaug Úlfarsdóttir, 19.4.2007 kl. 18:03
Gleðilegt sumar. Hér á Fákaleiru 8c er spurt nokkrum sinnum í viku hvenær nákvæmlega þið komið. Það verður frábært að fá ykkur heim. Hvernig er eiginlega með myndavélina?
Kveðja Ragna
Ragna (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 09:11
Já, ég hef svosem engar sérstakar minningar um 18. Apríl, en það er fyndið að sjá hversu mikilvægur þessi dagur er búinn að vera í þínu lífi, og æðislegt að sjá að þú manst eftir þér sem þriggja ára stúlka...ég man varla eftir mér þegar ég var tvítug, kannski vegna bjórsinshmmmmmm. Sakna ykkar og sé ykkur eftir þrjá mánuði
Bertha Sigmundsdóttir, 20.4.2007 kl. 16:58
Hvað varð um öll þessi ár og takk og lof að ég fæ að vera hér áfram
Begga (IP-tala skráð) 22.4.2007 kl. 14:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.