LENT Í STOKKHÓLMI!

Diljá fór á sokkunum frá Íslandi!  Reif sig úr skónum EINMITT þegar komið var að okkur við brottfararhliðið og við vorum öll með svo mikinn handfarangur að hún varð bara að labba á sokkaleistunum um borð.  Um leið og hún kom um borð stakk hún svo niður fótum og vildi alls ekki fara lengra svo ég kom henni með herkjum í sætið en eftir það gekk allt vel.  Það var ægilega gaman þegar við tókum á loft og síðan var hún sofnuð og svaf meiripart leiðarinnar - og það gerðum við Sesselja líka.

Við erum komin hérna heim til Beggu og Steinars og Diljá er þegar búin að hella niður fullu mjólkurglasi - svo að hún er strax orðin eins og heima hjá sér.  Rebekka og Sesselja eru frekar rólegar yfir þessu, enda tekur það eflaust einhvern tíma að síast inn að maður sé fluttur.

Sesselja les á öll skilti og umbúðir til að æfa sig í sænskunni og ætlar, held ég, að láta Huldu Steinunni frænku sína vera búna að kenna sér hana fyrir næsta mánudag.  Rebekka er aðallega svekkt yfir því að það skyldi vanta götukortin í MATADOR spilið sem ég keypti í Hagkaup í gær.  AF HVERJU GAT ÞETTA EKKI KOMIÐ FYRIR EINHVERN JÓN ÚTI Í BÆ??!!

Ég lofaði Ellu frænku því að vera ekkert að skrifa um góða veðrið hér í Svíþjóð.  Þar af leiðandi ætla ég ekki heldur að skrifa um vonda veðrið hér.  Þeir sem vilja skoða veðrið hjá okkur geta farið inn á krækjuna hér til vinstri og valið nánast hvaða borg í heiminum sem er.

Nú ætlum við að slappa af þangað til Begga og Steinar koma heim úr vinnunni um fjögurleytið (þá er klukkan tvö á Íslandi).  Diljá er reyndar öll að steypast út í útbrotum.  Ég hringdi í heilsugæsluna heima og þetta gætu verið einhver ofnæmisviðbrögð (þetta byrjaði í gær svo að hún er ekki með ofnæmi fyrir Svíþjóð!).  Kannski þurfum við að láta kíkja á þetta en hún er alveg BRÁÐHRESS að öðru leyti.

Við biðjum bara að heilsa öllum heima og enn og aftur ÁSTARÞAKKIR til allra þeirra sem hjálpuðu okkur við flutningana (og eru jafnvel enn að).  Gulla, Valdís og Ragna - án ykkar hefðum við ALDREI komist af stað frá Hornafirði rúmum tveimur sólarhringum á eftir áætlun!  Og Kalli (tengdó), Bjartmar, Siggi Ben., Stjáni Hauks og Sævar - Takk fyrir alla hjálpina!

Mig langar líka til að þakka öllum sem hafa sent okkur góðar kveðjur og óskað okkur velfarnaðar.  Okkur þykir virkilega vænt um að finna þann hlýhug sem svo margir Hornfirðingar hafa sýnt okkur.  Það er virkilega notalegt að hafa slíkt meðferðis í farteskinu.

Næsta mánudag höldum við suður í Smálöndin með lest en biðjum að heilsa héðan frá Stokkhólmi í bili!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Velkomin tl Stokkhólms. Hér er allt við það sama síðan í gærkvöldi nema að SÓLIN er farin að skína og það er nú aldeilis saga til næsta bæjar hér í Reykjavík. Gott að ferðin gekk vel. Bestu kveðjur til allra.

Unnur og Árni (IP-tala skráð) 21.6.2006 kl. 13:13

2 identicon

Frábært að þið séuð nú komin til Svíþjóðar. Ég er nú samt farin að hugsa hvað það verður dásamlegt þegar hún Dilja hellir aftur niður mjólk hjá mér á Fákaleirunni, Sesselja hoppar syngjandi um húsið og Rebekka í stendur tölvuna flata, en þangað til hafið það sem allra best.

Ragna (IP-tala skráð) 21.6.2006 kl. 21:16

3 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Hæ hæ

Gaman að heyra að allt gekk vel og að þið séuð komin í góða eða slæma veðrið í Svíþjóð. Hér hjá okkur er þvílík hitabylgja og jarðskjálftarveður á sumardaginn fyrsta í Cali, en við höldum okkur bara til í sundlauginni.

Sakna ykkar allra og hugsa til ykkar daglega!!!

Bertha Sigmundsdóttir, 22.6.2006 kl. 05:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband