SITT AF HVORU TAGI...

Jæja, loksins koma nokkrar línur.  Ég er búin að vera að drepast í vöðvabólgu svo að ég hef sparað mig í tölvunni - veit ekki hvað þetta er með mig eiginlegaUndecided  Annars er allt gott að frétta af okkur, lífið gengur sinn vanagang.  Það hefur sem betur fer ekki verið sami hitinn - ég var farin að kvíða fyrir næstu mánuðum - en það er bara milt og gott og mátulega hlýtt veður.

Það er helst í fréttum að Rebekka er á förum - verður að heiman mestallan maímánuð!  Eldsnemma í fyrramálið fer hún með lest til Gautaborgar í seinni fermingarbúðirnar.  Þar hittir hún, eins og í haust, íslenska krakka sem búa hér í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.  Hún kemur svo heim seinnipartinn á sunnudaginn en fer aftur snemma á mánudagsmorguninn til Þýskalands, þar sem hún verður í viku hjá Marie, sem heimsótti okkur í mars.  Krakkarnir fara með rútu og ferju og er það um 8-9 tíma ferðalag og heilmikil dagskrá skipulögð fyrir þau.  Hún horfir semsagt á Eurovision í ÞýskalandiWhistling  Hún kemur síðan heim á sunnudagskvöldi þann 13. mars og verður þá heima í heila þrjá daga!  Á uppstigningardag heldur hún síðan til Finnlands, í tónleikaferð með lúðrasveitinni.  Þau fara með rútu til Stokkhólms og taka síðan næturferju þaðan yfir til Finnlands.  Heilmikið ferðalag.  Þau spila í bæ sem heitir Lojo á föstudagskvöldi og gista hjá fjölskyldum þar.  Á laugardeginum eiga þau að spila úti við markaðstorgið í Lojo og á mánudeginum halda þau tvenna skólatónleika um morguninn og taka síðan næturferju til baka og koma heim á þriðjudegi.

Sesselja fer líka að heiman á uppstigningardag.  Í tveggja nátta skátaútilegu - gistir í tjaldi úti í skógi þar sem á að veiða fisk, sigla á kanó og elda við varðeld svo að eitthvað sé nefnt.  Mjög spennandi.  Hún er líka að fara að dansa heilmikið um næstu helgi, þegar Rebekka verður í Þýskalandi.  Það er sameiginleg ,,uppskeruhátíð" dansskólanna, tónlistarskólans og leiklistarskóla.  Það verða 6 sýningar yfir helgina og Rebekka hefði átt að spila þar með lúðrasveitinni (á öllum 6 sýningunum) ef hún hefði ekki verið í Þýskalandi.  Sesselja á að dansa í 5 skipti, tveimur ballettsýningum á laugardag og tveimur á sunnudag og síðan dansar jassballetthópurinn hennar á laugardeginum.  Þá hefur hún bara 6 mínútur milli atriða til að skipta um búninga - sennilega verð ég baksviðs og hjálpa henni.  Svo eru generalprufur á laugardags- og sunnudagsmorgninum.  Þetta eru víst rosalega flottar sýningar, með búningum, förðun og ljósum - gert svolítið alvöru og rosalega gaman fyrir krakkana að taka þátt í þessu.

Diljá fer stöðugt fram í sænskunni, kemur fullt af nýjum orðum hjá henni á hverjum degi.  Hún er búin að fá pláss á leikskólanum hér í hverfinu eftir sumarfrí.  Hann er bara í 5 mínútna göngufæri héðan (Diljá er kannski 10 mínútur að labba samt) og þar eru 37 krakkar í hennar árgangi.

Óli er loksins búinn að finna stráka til að spila með.  Hann er eiginlega kominn í tvær hljómsveitir.  Annars vegar eru strákar á hans aldri sem eru að spila frumsamið efni og hann kom sem himnasending fyrir þá!  Mér skilst að þeir spili alvöru rokk og grúvi flott!  Hin hljómsveitin er svona árshátíðarhljómsveit, hann hefur reyndar aldrei hítt þá en var ráðinn í gegnum vinnufélaga sinn svo að það á allt eftir að skýrast nánar.

Já, það verður frekar tómlegt hjá okkur næstu vikurnar, börnin meira og minna að heiman, við ein í kotinu með örverpið - þetta verður skrítið!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Já, það sýnist mér á öllu að það verði brjálað að gera á ykkar heimili í Maí mánuðinum, þetta er ótrúlega gaman að lesa um öll ævintýrin sem að Rebekka er að upplifa. Gaman fyrir hana að ferðast svona mikið, hún fer til Finnlands, og Þýskalands (keyrir þá í gegnum Danmörku), þannig að þrjú lönd verða á vegi hennar á einum mánuði, en gaman fyrir hana.... Og Sesselja mín, sú verður nú spræk og eflaust mun hún segja bestu draugasögurnar í skátaferðalaginu. Ekki er ég frá því að hún verði sú langflottasta í dansinum (auðvitað verða allir flottir, en hún er bara mitt uppáhald...) þannig að endilega takiði fullt af myndum og setjið hér inn, mig langar svo til þess að sjá...

Þetta er ótrúlegt hversu hratt börnin stækka, og fyndið að við séum með svipaða aldurshópa á okkar heimilum, nema að ég fæ tvöfaldan skammt af unglingaveikinni Annars held ég að Rebekka sé eflaust skemmtilegur unglingur, hún hefur nú alltaf verið svo róleg að ég get ekki ímyndað mér að hún sé að gera útaf við ykkur með unglingastælum...ég tel mig heppna líka með tvíburana, þær eru frekar melló...

Gaman að lesa um ykkur og ykkar hagi, ég fylgist spennt með á hverjum degi hvernig gullmola þú hefur töfrað fram Heiða mín, þú ert með svo fallegan penna Svo bíð ég bara spennt eftir að næstu þrír mánuðir líði hratt, get ekki beðið eftir að knúsa ykkur og bara fá að tala við ykkur í sama herbergi. Bið að heilsa öllum stelpunum, og bið Rebekku góðrar ferðar

Bertha Sigmundsdóttir, 3.5.2007 kl. 14:45

2 Smámynd: Guðlaug Úlfarsdóttir

Gaman að sjá blogg frá ykkur var farin að þjást af fráhvarfseinkennum.  Gaman að sjá hvað mikið er um að vera hjá stelpunum.  Agnes hefur nú reyndar svolítlar áhyggjur af því að Sesselja sé búin að gleyma sér og mér skilst að Stefán sé dálítið farinn að gefa gaum einhverjum stelpum sem elta hann á röndum þó hann telji sig nú enn eiga kærustu.

Hafið það gott og við hlökkum öll til að sjá ykkur.

Guðlaug Úlfarsdóttir, 7.5.2007 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband