9.5.2007 | 11:34
JÁ, ÞAÐ ER BETRA AÐ VARA SIG Á NAMMINU!
Fengum glaðning frá Ameríku áðan. Vikuna, með viðtalinu við Berthu (hún gleymdi að árita blaðið fyrir okkur) og svo lét hún fljóta með Cheerios og Cocoa Puffs fyrir stelpurnar og þá allra stærstu poka af M&M´s sem ég hef séð, eitt og hálft kíló hvor - takk fyrir. Diljá fékk að gæða sér á Cocoa Puffsinu, en síðan verður þetta bara tekið fram um helgar. Alveg spari. Á meðan fór ég að koma namminu fyrir í nammiskápnum sem var orðinn alveg galtómur. Eiginlega er þetta nú bara ein hilla í pínulitlum eldhússkáp svo að nú er ,,nammiskápurinn" alveg troðfullur. En það verður nú bara þangað til Óli kemur heim úr vinnunni. Sá verður glaður En svo vildi nú ekki betur til en svo þegar ég var að stíga niður af stólnum, að ég rak mig allhressilega í brauðbrettið sem var aðeins útdregið. Það var sárt. Svo sárt að mig svimaði og varð flökurt og æjaði og óaði og hnipraði mig svo á gólfinu svo að það myndi ekki líða yfir mig. Diljá greyið kom strax hlaupandi með læknistöskuna sína og gaf mér þykjustuplástur, rétti mér ávaxtasafa að drekka, sem ég hafði haft á eldhúsborðinu og sagði svo ábúðarfull: ,,Þú verður að fara varlega." Ég dróst inn í sófa og lá þar í smástund á meðan ég var að jafna mig og Diljá stóð sig með afbrigðum vel í hjúkrunarhlutverkinu. Bauð mér meira að segja að fá Mjallhvítarplástur frá henni og það er rausnarlegt skal ég segja ykkur. Síðan færði hún mér Vikuna og í þessu ásigkomulagi las ég síðan viðtalið við hana Berthu, stórvinkonu mína með meiru, með tárin rétt handan við hornið (það var út af viðtalinu, ekki meiddinu). Við höfum trúað hvor annarri fyrir ýmsu og ég vildi óska þess að ég hefði vitað þetta á meðan á því stóð, en það þýðir ekki að tala um það núna. Vonandi verður þetta viðtal bara hvatning öðrum sem hugsanlega eru í svipuðum sporum og hún.
Jæja, ég sit hér semsagt á annarri rasskinninni, með marblett sem svipar til Grænlands að lögun á aftanverðu lærinu. Óli er alltaf að gera grín að mér fyrir hrakfarir mínar við heimilisstörfin. Ég meina - hver hefur ekki misst pott (tóman) ofan á tærnar á sér, rekið sig í skáphurðarnar eða brennt sig lítillega - ha? Að minnsta kosti vikulega?
Athugasemdir
GAman að heyra að þetta hafi skilað sér, en leiðinlegt að heyra að þú hafir meitt þig, elskan. Þú verður nú að passa þig á eldhúsinu, það er sko algjör slysastaður. Ég vona að M&M´s hafi hjálpað til með verkina, súkkulaðið á að vera einhvers konar meðal fyrir kvenfólk, kannski virkar það líka á marbletti og svima Ég vona að stelpurnar eigi eftir að njóta glaðningsins, og vonandi verður eitthvað eftir fyrir Rebekku...heyrirðu það Óli Kalli??????
Sjáumst eftir rúma tvo mánuði, þetta er allt að koma, ég get ekki beðið...
Bertha Sigmundsdóttir, 9.5.2007 kl. 17:00
Takk, takk - jú, súkkulaði er sko allra meina bót, stend og fell með því! Ég gæti þess að stinga smá undan fyrir Rebekku, ég veit sko um leynistaðinn sem pabbi hennar veit ekki um Óli er búinn að lesa viðtalið líka og hann var mjög ánægður með útkomuna Svo hlakka ég bara til að sjá þig í Júróvisjonpartíinu okkar annað kvöld - hahaha!! Það verður sko FJÖR HJÁ OKKUR!!
Aðalheiður Haraldsdóttir, 9.5.2007 kl. 17:14
Já, ég þekki þetta sko með slysin í heimahúsunum. Hef stundum þakkað fyrir að vera slysatryggð vegna heimilisstarfa. Ófáir marblettirnir hafa myndast vegna slíkra óhappa. Óli er þó ekki alveg að ná þessu,enda lendir hann sjaldan í svona hlutum.
Unnur (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.