17.5.2007 | 19:11
Í RÍKI LORDIS
Þegar þetta er ritað er táningurinn á heimilinu um borð í næturferju á leið til Finnlands. Lúðrasveit Kulturskolans lagði af stað með rútu kl. hálfeitt til Stokkhólms og síðan tekur við næstum 12 tíma ferjusigling. Það var gaman að því að þegar við skutluðum henni í rútuna komu 3 stelpur hlaupandi til hennar til að láta hana sitja hjá sér. Feimna barnið mitt sem alltaf hefur verið svo inní sig og útaf fyrir sig er að blómstra hérna í Svíþjóð, hefur þroskast alveg ótrúlega mikið síðan við fluttum hingað. Hún fíflaðist meira að segja við stjórnandann - ég get svo svarið það! Þau þrættu um það hvort væri flottara - íslenska vegabréfið eða það sænska.
Lúðrasveitin heldur ferna tónleika í Lojo í Finnlandi sem er vinabær Växjö, en það er Skagaströnd reyndar líka! Ég get líka upplýst ykkur um það að það eru 2112 km héðan til Skagastrandar
Sesselja gistir hjá Rebecku vinkonu sinni í nótt svo að við erum bara ein heima með örverpið. Þau feðginin eru að dansa við bestu lög Mannakorns, nokkuð sem hljómar oft hérna heima og færir mann óneitanlega nær Íslandi! Diljá spilar undir á badmingtonspaða og er alveg með taktana á hreinu!
Já, og svo er Óli kominn í blúsband! Hitti í dag gítarleikara/söngvara og tók með sér bassaleikara sem hann hafði frétt af. Þeir smullu allir svona feiknavel saman enda allir þaulvanir tónlistarmenn og stefna að því að spila fyrir einhvern aur svona annað slagið! Svo var Óli að sjá það að Emil & the Estatics, snillingarnir sem heimsóttu Hornafjörð á blúshátíðinni í fyrra, eru að spila á Öland í ágúst. Það er ekki svo langt fyrir okkur að fara þangað - ætlum endilega að reyna að komast!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.