19.5.2007 | 21:55
SKEMMTILEGUR DAGUR!
Við heyrðum í Rebekku í gærkvöldi. Rosalega gaman í Finnlandi. Hún og Jessica (sem er með henni í lúðrasveitinni og sundinu) gista saman hjá fjölskyldu í Lojo, en sonurinn á heimilinu er í lúðrasveit vinaskólans þar og síðan er dóttirin á heimilinu á aldur við þær. Semsagt - allt gott að frétta úr landi Múmínálfanna!
Í dag var síðan komið að danssýningunum hjá Sesselju. Ég mætti með hana kl. 9:30 í Konserthuset og þar var hún meira og minna fram á kvöld. Við horfðum á frumsýninguna ásamt pabba, Irene og Mariu, og hún tókst alveg frábærlega. Reyndar var ég baksviðs þegar Sesselja dansaði því að hún var í tveimur atriðum í röð og ég þurfti að hjálpa henni að skipta um búninga og koma henni á réttan stað. En hún stóð sig rosalega vel - var flott bæði í jassdansinum og ballettinum.
Þetta var stór sýning. Um 300 nemendur sem dönsuðu og margir oftar en einu sinni. Ein mamman var bara í búningaskiptum því að dóttir hennar þurfti að skipta 7 sinnum um búning! En þetta var bara gaman og allt gekk smurt fyrir sig. Eftir fyrri sýninguna hjá Sesselju fórum við Óli og Diljá heim því að við vorum að fara á matarboð hjá Caroline og Pierre, foreldrum Aneu sem er bekkjarsystir Sesselju. Ég stoppaði þar aðeins áður en ég fór að sækja Sesselju, sem var búin á seinni sýningunni kl. 19:30. Þar áttum við síðan æðislega kvöldstund, borðuðum góðan mat, hlustuðum á blús og spjölluðum, Diljá hjálpaði Caroline í eldhúsinu (nema hvað) og síðan sendu þau okkur heim með ilmandi blóm og kryddjurtir úr garðinum hjá sér. Garðurinn þeirra er algjört æði, þar er m.a. lítil tjörn og síðustu tvö sumur hefur lítill froskur búið þar. Þau voru einmitt að velta því fyrir sér hvort hann myndi koma aftur til þeirra í ár.
Á morgun er síðan seinni sýningardagurinn hjá Sesselju. Hún þarf að mæta kl. 9:30 á æfingu og síðan eru sýningar kl. 15 og 18. Á sýningunni er reynt að gefa mynd af vinsælustu dönsum 20. aldarinnar og þar má sjá Can-Can, ballett, stepp, diskódans, suður-ameríska dansa, hipp-hopp, Charlestone og jassdans. Rosalega gaman. Rosalega flott. Og mín stelpa auðvitað flottust!!
Athugasemdir
Halló,
ég vildi bara kvitta fyrir komu mína á síðuna. Ég fylgist alltaf með ykkur hérna og hef gaman af lestrinum. Ástarkveðjur til stúlknanna ykkar efnilegu.
RG og HJ og AD
Ragnhldur (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 16:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.