ÞJÓÐHÁTÍÐ - HORNFIRÐINGAR Í KÖBEN - LANDSLEIKUR

Í gær var þjóðhátíðardagur Svía og héldu Svíar nú upp á hann í þriðja eða fjórða skipti.  Þeir hafa auðvitað aldrei verið undir stjórn annarra ríkja eins og við Íslendingar vorum, þó að vissulega hafi þeir oft þurft að verja land sitt og ákveðin landsvæði með kjafti og klóm.  En þjóðhátíðardagur skipar ekki sama sess hjá þeim og okkur Íslendingum.  Rebekka var að spila með lúðrasveitinni bæði hér í Växjö og nágrannabænum Rottne og það var mjög skemmtilegt hjá þeim.  Þau voru búin að æfa að marsera með ,,drillurum" - þið vitið, svona stelpum sem snúa sprotum - voða flott, en erfitt! Smile  Óli var með stelpurnar í bænum að horfa á Rebekku og forða þeim frá að vaða í gosbrunnum o.þ.h. stuð.

Ég hins vegar skellti mér í lestarferð til kóngsins Köben og tók Maríu systur með.  Úr því að það var frídagur í Svíþjóð en ekki í Danmörku var þetta tilvalið tækifæri til að skreppa og endurnýja vegabréfið mitt.  Svo var ég búin að frétta að hornfirskir kennarar ættu einmitt leið um Kaupmannahöfn þennan dag og ætlaði að hitta hana Gullu vinkonu mína, kíkja í kaffihús, rölta Strikið og eiga notalegan dag.

Lestarferðin tók tæpa 3 tíma og síðan tókum við strætó í íslenska sendiráðið.  Erindi mitt þar tók ekki nema 10 mínútur og þá var klukkan orðin rúmlega 12.  Við Maria settumst inn á fyrsta matsölustaðinn sem við sáum, því að við vorum glorhungraðar.  Það hafði ekki verið neinn veitingavagn í lestinni, eins og venjulega er, af því að það var helgidagur.  Síðan tókum við strætó niður á Ráðhústorg til að, að því að ég hélt, hitta Gullu og fara með henni á röltið.  En við hittum ekki bara Gullu, heldur stóran hóp kennara og skólastarfsfólks úr öllum grunnskólunum og tónlistarskólanum á Hornafirði , ásamt nokkrum mökum, og reiknast mér svo til að hvorki meira né minna en 1,5% Hornfirðinga hafi þarna verið saman komin.  Það var auðvitað rosalega gaman að hitta allt þetta fólk að heiman og allt í einu leið manni eins og maður hefði aldrei farið.  Og það fyndna var að þótt ég hefði ekki farið frá Íslandi, hefði ég samt verið stödd þarna ásamt þessum hópi í gær!  Kallið þetta örlög ef þið viljið.

Hópurinn var búinn að bóka skoðunarferð um Íslendingaslóðir ásamt hinum bráðskemmtilega Þorvaldi Fleming Jensen, fréttaritara Bylgjunnar.  Ég hækkaði sko alltaf í útvarpinu þegar þau í morgunútvarpi Bylgjunnar hringdu í hann.  Mig hefur alltaf langað í svona skoðunarferð svo að við Maria skelltum okkur með.

Og Fleming brást ekki frekar en fyrri daginn.  Þetta var bráðskemmtilegt og fróðlegt.  Við skoðuðum m.a. hinar örlagaríku tröppur sem Jónas Hallgrímsson datt í og fótbrotnaði, Hafnarháskóla, Vorrar frúar kirkju og stúdentagarðana (og pöbbana) sem þjóðskáldin okkar og baráttumenn fyrir sjálfstæði Íslendinga dvöldu á.  Ég, Maria og Gulla stungum þó af þegar haldið var niður í Nýhöfn og kíktum í ,,Nonnabúð" eins og Fleming kallaði Magasin du Nord, vöruhús þeirra Bónussfeðga.  Settumst síðan út við kaffihús á Strikinu og nærðum okkur aðeins áður en við Maria röltum aftur upp á Hovedbanegården til að taka lestina heim.

Þegar við komum á lestarstöðina í Växjö, rétt fyrir kl. 22, voru allir strætóar hættir að ganga upp í Högstorp (hverfið mitt).  Óli gat ekki sótt okkur því að það hafði sprungið á bílnum í Rottne, í annað sinn á örfáum dögum og ekkert varadekk því til.  Hann varð að fá far fyrir sig og stelpurnar til Växjö með öðrum úr lúðrasveitinni og við Maria þurftum að bíða í tæpan klukkuktíma eftir leigubíl.  Loksins kom ungur strákur og við stukkum inn í bílinn, Maria frammí og ég afturí.  Þau spjölluðu og hlógu mikið en ég heyrði ekkert af því sem þeim fór á milli því að hann var með útvarpið í botni:  ,,...kisses for me, save all your kisses for me...", og svo þurfti ég að hafa mig alla við að halda mér í í beygjunum.  Ég heyrði hann þó segja að Svíar hefðu unnið landsleikinn í fótbolta 5-0.  Mér var nú auðvitað SLÉTT SAMA um það! LoL  Svo sagðist hann líka hafa smakkað harðfisk um daginn hjá íslenskri vinkonu sinni, og fannst hann svo skelfilega vondur að hann var lengi að ná óbragðinu úr munninum Sick

Við komumst því heim um síðir eftir rosalega skemmtilegan dag enda fátt skemmtilegra til en Hornfirðingar í Köben!  Bestu kveðjur til ykkar og vonandi eigið þið skemmtilega daga eftir í dönskum skólum! Kissing


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Skemmtilegt að heyra um þessa frábæru Hornfirðinga í Köben, ég get sko rétt svo ímyndað mér hversu skemmtilegt þetta var hjá þér, elsku Heiða mín...gaman að lesa til um frídag hjá þér, þú átt sko sannarlega marga frídaga skilið Núna styttist í þetta hjá okkur, elskan, aðeins meira en mánuður þangað til að ég fæ að knúsa ykkur öll, get ekki beðið...hlakka svo mikið til að ég held að ég eigi bara eftir að springa Bið að heilsa í bæinn, og við sjáumst í næsta mánuði

Bertha Sigmundsdóttir, 7.6.2007 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband