HVENÆR ERU TANNRÉTTINGAR NAUÐSYNLEGAR?

cartoonFyrir u.þ.b. ári síðan átti dóttir mín að mæta í tannréttingar þar sem hún átti að fá spangir.  Áður var hún búin að vera með mismunandi gerðir af gómum til að víkka út góminn sinn vegna þrengsla - gott og vel með það!  Við afpöntuðum hins vegar tímann hennar af tveimur ástæðum:  1) Á þeim tímapunkti höfðum við ekki efni á að halda þessari tannréttingar- meðferð áfram.  2) Það var í burðarliðnum að flytja hingað til Svíþjóðar þar sem við vissum að tannréttingar væru ,,ókeypis" fyrir 18 ára og yngri (maður borgar semsagt fyrir þær með sköttunum sínum).

Nú er búið að taka mót og myndir af henni hjá tannréttingasérfræðingi hér og við vorum í viðtali í morgun til að fá niðurstöðurnar:  Hún þarf EKKI á tannréttingum að halda!  Ég varð auðvitað alveg undrandi.  Nei, nei, bitið er fínt og tennurnar jafnar og fínar.  Það er augntönn sem ekki er komin niður og ekki er pláss fyrir.  Það á bara að fjarlægja hana með smáskurðaðgerð eftir nokkra mánuði.  Málið dautt!

Heima var meiningin að búa til pláss fyrir þessa blessuðu tönn, víkka góminn meira og draga hana niður auk þess sem bitið væri skakkt.  Guð má vita hvað þetta hefði tekið langan tíma, að ekki sé minnst á kostnaðinn!

2Ég hef nú nokkrum sinnum gengið um ganga gagnfræðaskóla hér og veitt því eftirtekt hvað það eru miklu færri krakkar hér með spangir en heima.  Tannlæknirinn hér sagði mér að hér þyrftu ekki allir að vera með amerískt Hollywood-bros.  Smáfrávik og skekkjur væru í lagi svo framarlega sem ekki væri hætta á skemmdum og menn gætu tuggið eðlilega.  Hér væri áherslan á að halda sínu persónulega útliti.  Ég hafði líka oft spáð í það heima að það væru nú bara allir unglingar orðið með eins tennur.

Sjálf var ég í tannréttingum í rúm tvö ár, frá 14-16 ára aldurs.  Vildi alls ekki brosa á fermingarmyndunum.  Við bjuggum á Höfn og á 5 vikna fresti keyrði pabbi mig suður - lögðum af stað kl. 5 að morgni, áttum tíma eftir hádegi og síðan var brunað aftur austur.  Já, það var mikið á sig lagt.  Ég var ekkert sátt við að þurfa tannréttingar, vildi bara fá að vera ég sjálf, en tannlæknirinn sagði að það væri alveg nauðsynlegt til að koma í veg fyrir tannskemmdir í framtíðinni.  Aumingja pabbi og mamma höfðu heldur ekkert allt of vel efni á þessu, en gerðu það sem var ,,nauðsynlegt?" fyrir barnið.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við áttum bókaða tvo tíma sama daginn.  Ég mætti fyrst eldsnemma á mánudagsmorgni, þá var búið að taka mót og myndir o.þ.h.  Þetta var algjör færibandavinna.  Ég lá á bekknum og svo kom tannsi, kíkti á mig og sagði já og humm og jamm og jæja.  Svo átti ég bara að koma aftur eftir hádegi án nánari útskýringa. Þegar við pabbi gamli mætum svo aftur og hann ætlar að fara að fá sér sæti í biðstofunni, er honum sagt að hann skuli ekkert vera að biða eftir mér.  Það eigi að fara að setja á mig spangir og það taki svona 2 tíma.  hann varð eitt spurningamerki og spurði hvað það myndi þá kosta.  Talan sem nefnd var nálgaðist mánaðarlaunin hans - ég man að ég var alveg miður mín.  Svo að á meðan ég var í stólnum, fór hann í bankann til að redda peningamálunum!  Hann var auðvitað öskureiður yfir því að hafa ekki verið upplýstur um þetta fyrirfram en menn ypptu bara öxlum á tannlæknastofunni.  Það var kannski svipað þegar Rebekka átti að mæta, okkur var gefinn tími en ekkert sagt hvað ætti að gera né hvað það myndi kosta.  Það var ekki fyrr en ég hringdi suður til að breyta tímanum sem það var gert og ég þurfti meira að segja að kreista áætlaða upphæð út úr áfgreiðsludömunni.  Þá ákváðum við að hætta bara við.

Hér er allt öðruvísi staðið að málum.  Í fyrsta lagi er allan tímann lögð mikil áhersla á að ákvörðunin sé barnsins sjálfs fyrst og fremst og síðan foreldranna.  Og hér er þetta ekki spurning um peninga því maður borgar jú ekkert.  Þegar Rebekka mætti í mynda- og mótatöku fengum við með okkur heim lista með algengum spurningum og svörum til að lesa yfir.  Síðan fengum við líka eyðublað í tvíriti sem bæði barnið og forráðamaður áttu að skrifa undir eftir að hafa lesið það.  cat2Þar er gerð grein fyrir því sem felst í tannréttingameðferð, ábyrgð barnsins varðandi tannhirðu og að fara eftir fyrirmælum tannlæknisins til að ná sem bestum árangri, jafnframt því sem barninu er gerð grein fyrir því að þetta geti stundum verið óþægilegt og sársaukafullt og hvernig best sé að bregðast við því.  Það á semsagt ekkert að koma á óvart.  Þetta mættu íslenskir tannlæknar svo sannarlega taka sér til fyrirmyndar.  Reyndar fengum við oftast góðar upplýsingar hjá hennar tannlækni á Íslandi en þó var sumt sem hefði mátt bæta eins og ég hef nefnt.

 

baksSpurningin sem eftir stendur er hvort allar þessar tannréttingar séu alltaf nauðsynlegar.  Þeir sem sjá um tannréttingar hér í Svíþjóð vinna hjá hinu opinbera og eru því ekki að maka krókinn persónulega eins og heima á Íslandi.  Gæti það haft einhver áhrif?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jahá og hana nú þetta er með betri bloggum sem ég hef lesið ! Fyrir konu eins og mig sem á 4 börn sjálf þá get ég vel sagt að maður bíður með krosslagða fingur og vona að heyra aldrei minnst á það frá tannlækni að þörf sé á tannréttingum.....Frábært blogg og vekur mann til umhugsunar virkilega um nákvæmlega þetta " þurfa allir Hollywood brosið " og  " Persónulegt útlit "
takk fyrir pistilinn.

Áslaug ( einu sinni Hornfirðingur) (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 18:51

2 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Ég fékk leiðréttingu frá góðri vinkonu minni sem hefur búið í Svíþjóð miklu lengur en ég.  Það þarf semsagt ekki að borga fyrir tannlæknaþjónustu TIL OG MEÐ 19 ÁRA ALDURS hér í Svíþjóð.

Aðalheiður Haraldsdóttir, 14.6.2007 kl. 19:00

3 identicon

Smá viðbót....börn sem eru 3ja ára og 12 ára fá frá og með 1.júní síðastliðinn frítt til tannlæknis hérna amk í skoðun veit ekki hvernig er með ef þarf að gera e-h við hjá þeim en ég fór með 12 ára dóttur mína í ókeypis skoðun og myndatöku akkúrat 1.júní og var þá tjáð að það væri frítt :o) auðvitað brosir maður þá út að eyrum maður  er ekki vanur að fá  frítt hjá tannlækni á Íslandi !

Áslaug (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 18:55

4 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Ansi margir sem fara í tannréttingar nú á dögum, en það þekktist varla hér áður fyrr og var frekar undantekning -  Þetta er allavega hörkubusiness í dag hvernig sem á því stendur.

Annars.........Gleðilegan þjóðhátíðardag

Margrét St Hafsteinsdóttir, 17.6.2007 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband