18.6.2007 | 13:17
17. JÚNÍ Í KÖBEN OG MARGT, MARGT FLEIRA
FÖSTUDAGUR 15. JÚNÍ - SKÓLASLIT OG ÓVÆNTUR PAKKI!
Það hefur verið í nógu að snúast hjá fjölskyldunni síðustu daga. Föstudaginn 15. júní voru skólaslit hjá stelpunum. Ég mætti á skólaslitin hjá Sesselju ásamt fjöldanum öllum af foreldrum nemenda í 6 ára bekk upp i 6. bekk. Skólaslitin voru haldin úti við í yndislegu veðri, börnin sungu, sjötti bekkur fékk útskriftargjafir frá skólanum (það eru engar einkunnir gefnar) og skólastjórinn hélt stutta ræðu í þetta sinn (hún var víst mjöööög löööööng í fyrra) sem hljóðaði á þessa leið: Strákur í 6 ára bekk kom til skólastjórans daginn fyrir skólaslitin og sagði: ,,Hurru, rektor. Er skólinn þá virkilega búinn núna?" Skólastjórinn játti því. Þá rétti piltur upp höndina og hrópaði: ,,Yeah - Gimme five!!!"
Að því loknu héldu börnin hvert í sína skólastofu þar sem þau kvöddu kennarana. Það var mjög hjartnæmt því að aðalkennarinn þeirra, Mia, verður ekki með þau næsta vetur og hún grét fögrum tárum yfir að vera að kveðja þau. Sömuleiðis skólaliðinn Monica, hún veit ekki hvort hún verður með þau áfram næsta vetur og hún var nánast með ekka þegar ég fór og kvaddi hana. Það er naumast að börnin okkar eiga stórt pláss í hjörtum þessara yndislegu kvenna. Lisa og Pia verða hins vegar áfram með krökkunum næsta vetur og þar eru þau í góðum höndum. Að lokum fórum við aftur út þar sem beið kaffi, djús og kanilbollur handa öllum og því næst héldum við heim í sumarfrí.
Það var svipað uppi á teningnum hjá Rebekku en þar mæta foreldrar ekki á skólaslit, ekki alveg eins hátíðlegt og heima á Hornafirði a.m.k. Það var sungið og haldnar ræður og síðan kvöddu kennarar nemendurnar í stofum sínum og allir fengu ís! Svo var bara komið að því fyrir Rebekku að pakka niður fyrir Íslandsferðina.
Um kvöldmatarleytið á föstudeginum sögðum við Sesselju að við þyrftum að fara út á flugvöll og sækja pakka frá Beggu frænku. Það sem hún vissi ekki að pakkinn var Hulda Steinunn frænka hennar og stórvinkona!! Það urðu aldeilis fagnaðarfundir, en Hulda ætlar að vera hjá okkur í einhverja daga.
LAUGARDAGUR 16. JÚNÍ - MÅLILLA OG MERKINGARLAUSA DANMÖRK
Við vöknuðum síðan öll snemma á laugardagsmorgni og fyrst lá leiðin til pabba og Irene í Målilla, ásamt Mariu systur. Þangað er alltaf svo gott að koma og við vildum að Rebekka kveddi þau fyrir Íslandsferðina. Að lokinni afslöppun og hádegisverði þar, skiluðum við Mariu aftur til Växjö og héldum síðan áleiðis til Danmerkur. Tókum ferjuna frá Helsingborg til Helsingör í öskrandi rigningu, sem reyndar var kærkomin eftir margra vikna þurrka. Sesselja og Hulda héldu reyndar að við værum að ljúga að þeim þegar við sögðumst ætla að taka bílinn og allt dótið með um borð í bátinn. Þetta var heilmikil upplifun fyrir þær! Þegar til Danmerkur kom reyndist ekki þrautalaust að finna íslenska gistiheimilið á Amager, þrátt fyrir útprentaða leiðarlýsingu. Danir merkja bara ekki eins vel og Svíar!! Að lokum stökk ég inn á hótel við Nýtorgið og viti menn, var þá ekki Íslendingur að vinna þar. Með hans aðstoð og miklu betra korti komumst við loksins á áfangastað mátulega til að fara að hátta og svæfa liðið.
SUNNUDAGUR 17. JÚNÍ - ALLS STAÐAR ERU ÞESSIR ÍSLENDINGAR AÐ ÞVÆLAST!
Vöknuðum aftur snemma, úthvíld og hress og tókum saman föggur okkar. Röltum svo í bakaríið á horninu, ekta danskt bakarí með vínarbrauðum og girnilegum brauðum og kökum, en hraðbankinn við bakaríið var tómur svo að við ákváðum að fara bara strax upp á flugvöll og fá okkur morgunmat þar. Sem við og gerðum, tókum því bara rólega. Mér fannst það nú svolítið skrítin tilfinning að vera að senda barnið mitt aleitt í flugvél til Íslands, þó að hún sé nú orðin ansi vanur heimshornaflakkari. Sagði henni að hún yrði að senda mér SMS þegar hún væri búin að finna hliðið sitt og síðan þegar hún væri komin út í vél. Í biðröðinni spurði ég Óla hvort hann gæti ekki fundið einhverja Íslendinga til að hengja hana við en hann sagðist ekki sjá neinn álitlegan. Fór svo að horfa betur í kringum sig og sagði: ,,Er þetta ekki Gulli rammi?" (Eldhress náungi og heimsfrægur á Hornafirði, giftur frænku hans Óla). ,,Nei, það getur ekki verið, þessi er með gítar á bakinu og Gulli kann örugglega ekki eitt einast gítargrip." ,,Það væri nú eftir öllu", hugsaði ég með mér, ,,að við myndum rekast á Hornfirðinga hér." Og viti menn! Kemur Óli ekki auga á Fúsa og Nónu, bestu vinkonu Beggu systur. Þau voru semsagt á heimleið ásamt Gulla, sem var reyndar með fiðlu en ekki gítar á bakinu (maðurinn kann sjálfsagt ekkert frekar á fiðlu en gítar ) Það skipti auðvitað engum togum að Rebekka var hnýtt aftan í þessa ágætu Hornfirðinga og allar áhyggjur mínar voru á bak og burt - HAKUNA MATATA!! ,,Nei, nei, elskan mín, þú þarft ekkert að senda mér SMS fyrr en þú ert komin til Íslands! Kyss - kyss og knús - knús og góða ferð heim og ég á eftir að sakna þín" Og síðan héldum við okkar leið niður í miðbæ Kaupmannahafnar þar sem við ætluðum að hitta Ragnhildi, bróðurdóttur hans Óla og hennar fjölskyldu.
Það er tvennt sem er hægt að finna þegar maður keyrir um í Köben, miðbærinn og flugvöllurinn, svona nokkurn veginn a.m.k. Við lögðum við Ráðhúsið en það er voðalega mikið allt lokað á sunnudögum í júní í Köben Mæltum okkur mót við Ragnhildi & co. við innganginn í Tívolí en þar sem litla frænkan, sem við komum m.a. til að skoða, var að fá blundinn sinn og 2 tímar í að við ætluðum að hittast, ákváðum við að leyfa stelpunum að kíkja aðeins inn í Tívolí. Það var nú einu sinni 17. júní og við búin að þvæla þeim í þessa ferð, þær yrðu nú að fá að gera eitthvað skemmtilegt. Svo að þær fengu að keyra aðeins bíl, fara í kolkrabbann og svo fóru Óli og Diljá fóru í útsýnisferð með Parísarhjólinu meðan ég fór með Sesselju og Huldu Steinunni í rússíbanann (ekki þennan stóra sko!). Þeim fannst það sko EKKI leiðinlegt og öskruðu hástöfum og af hjartans lyst þegar hann tók dýfur! Þetta var rosalega mikil upplifun fyrir þær og bara skemmtilegur þjóðhátíðardagur hjá okkur! Síðan komu Ragnhildur og Hjörtur með litlu Dúfuna sína sem er náttúrulega bara yndisleg og falleg! Sesselja og Hulda voru ekki seinar á sér að taka að sér barnapíuhlutverkið og keyra hana um Tívolíið í barnavagninum. Ragnhildur passaði einmitt Rebekku þegar hún var um 2ja ára gömul og ég í Háskólanum þannig að kannski þetta víxlist svona á milli kynslóða.
Nú, þá var komið að því að halda heim á leið. Við villtumst að sjálfsögðu nokkrum sinnum, þrátt fyrir að vera nánast með stækkunargler á götukortinu og fylgja því eftir bestu getu. Óli hafði á orði að þeir dönsku ættu að fara aðeins rólegar í Tuborginum þegar þeir væru að merkja göturnar. Það er t.d. engin almennileg merking úr miðbænum í áttina að Helsingör! Dálítil viðbrigði þar sem Svíar merkja allt við nánast hverja einustu beygju og á nokkurra metra fresti þar að auki! Þetta hafðist þó allt að lokum og mikið var gott að koma heim í skipulagið í Svíþjóð!
Rebekka lenti svo á Íslandi um það bil sem við vorum að fara í ferjuna yfir sundið (eftir næstum því 3ja tíma töf hjá Iceland Express) og var afar hamingjusöm að hitta aftur hana Önnu Regínu vinkonu sína. Hún fer svo heim til Hornafjarðar í dag og á eflaust eftir að vera vel fagnað þar. Hér er hinsvegar voða tómlegt og skrítið án hennar. En það er víst best að fara að venjast því. Ætli hún komi ekki til með að eyða flestum sumrum á Íslandi hér eftir! Stóra stelpan mín - öll að verða fullorðin!
Athugasemdir
Æi, ég varð bara soldið sár að lesa þetta, kennararnir grátandi, Rebekka farin heim, danska tívolíið, ég get bara ekki beðið eftir að hitta ykkur. Mikið hlýtur það að vera skrítið að hún Rebekka sé ekki heima, litla barnið þitt að verða fullorðin, og þú sem lítur ekki út fyrir að eiga unglingastelpu En, það eru nú bara þrjár vikur og tveir dagar þangað til að þið sjáið hana á ný, og þá fæ ég meira að segja að sjá hana...get ekki beðið. Veistu nokkuð hvort að hún Ragnhildur fari heim á sama tíma og ég verð þar? Ég sendi henni upplýsingarnar um tímann minn heima, en hef ekkert heyrt frá henni. Mikið væri nú gaman að sjá hana líka.
Jæja, ég er farin að verða rosalega spennt, og það er alltaf svo gaman að lesa það sem þú skrifar, sérstaklega þegar þið farið til Danmerkur, fyrrverandi heimili mitt, mikið er nú komið langt síðan að ég fór þangað, svei mér þá, 1992, 15 ár, jedúdda mía, ég er að verða gömul Ókei, núna er ég orðin þunglynd, og ætla að skella mér í eitt stykki botox áður en ég kem heim (hahahha, no way). Sjáumst eftir 23 daga, get ekki beðið. Kossar og knús
Bertha Sigmundsdóttir, 18.6.2007 kl. 15:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.