23.6.2007 | 19:43
MIDSOMMAR
Svíar halda upp á miðsumarhátið nú um helgina en það er stærsta hátíðin hér fyrir utan jólin. Föstudagurinn var almennur frídagur og þann dag borða menn síld með nýuppteknum kartöflum og síðan jarðarber eða jarðarberjatertu. Við létum nú síldina eiga sig (nema Óli sem fékk síld í vinnunni á fimmtudeginum) en klikkuðum sko ekki á jarðarberjatertunni
Það rigndi töluvert hér í Växjö í gær og setti það svip sinn á hátíðahöldin - minnti bara á 17. júní heima! Við skruppum aðeins með stelpurnar upp í Evedal (ströndina okkar) þar sem menn dönsuðu í kringum majstöng (blómastöng) og sungu - ekki á ósvipaðan hátt og við dönsum í kringum jólatréð. Menn tóku meira að segja jólalögin og breyttu þeim í sumarlög - sungu ,,Göngum við í kringum miðsumarstöng" og fleira í þeim dúr. Það var leikið undir á fiðlu og harmonikku og alls staðar voru litlar stelpur með blómakransa í hárinu og margar konur voru í þjóðbúningum. Þó að miðsumarhátíðin hafi ekki sömu merkingu fyrir okkur og Svía, fannst okkur stemningin mjög hátíðleg og glaðleg.
Við tókum því svo bara rólega í dag, fórum með nestiskörfu í garðinn þar sem stelpurnar gátu leikið sér í blíðunni. Á morgun er meiningin að fara og tína jarðarber ef veðrið verður gott og kannski sitthvað fleira.
(Ath. myndirnar á síðunni eru teknar af netinu).
Athugasemdir
Kveðja til ykkar í Svíþjóð frá mér og ég vildi alveg fara í jarðarberjatínslu
Margrét St Hafsteinsdóttir, 25.6.2007 kl. 22:51
Hæ var ad byrja að skoða blogg aftur eftir að koma heim úr sumarbústaðarviku, útlöndum og fótboltamóti. Ef þú vilt get ég athugað hvort Ella systir er ekki til í að greiða Rebekku fyrir ferminguna. Hún er eins og þú veist afar klár í öllu svona þó hún sé ekki lærð.
Kv. Gulla
Guðlaug Úlfarsdóttir, 27.6.2007 kl. 14:55
MMM hljómar vel.... annaðhvort verð ég að fá svona midsommar, eða fara í svona midsommar
Hulda Dagmar Magnúsdóttir, 30.6.2007 kl. 02:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.