13.7.2007 | 12:09
MÆTT Á SVÆÐIÐ!
Jæja, þá er maður lentur á skerinu góða. Lentum miðvikudaginn 11. júlí eftir hádegi og fórum beint austur til Hornafjarðar. Bertha Jónína tók á móti okkur og var með ýmsar kræsingar í farteskinu: snúða, kleinur, flatbrauð með hangikjöti, kókómjólk, Svala og allar sortir af íslensku nammi og snakki sem fást í Bónus!! Ferðin austur gekk vel og vorum við komin hingað um klukkan 1 eftir miðnætti. Nú erum við bara að njóta þess að hitta ættingja, vini, gamla vinnufélaga og alla hina sem maður rekst á á ferð um bæinn.
Sesselja fór strax í gærmorgun á leikjanámskeið Sindra þar sem hún hitti auðvitað gömlu skólafélagana. Hún kemur til með að vera með þeim á leikjanámskeiði meðan við verðum hér fyrir austan, fór í fjöruferð í gær og var að koma úr hestaferð. Rosalega gaman. Diljá finnst æðislegt að geta talað við alla og að krakkarnir skilji hana. Hún var úti að skottast í allan gærdag og naut þess í botn, þó að hún þyrfti að vera í síðbuxum og jakka. Rebekka er alltaf að vinna og nýtur þess líka að vera með vinum sínum þessa síðustu viku hennar hér á Hornafirði.
Óli vaknaði eldsnemma í morgun og fór á silungaveiðar með pabba sínum út í fjörð. Aldrei að vita nema hann færi mér fisk í soðið!
Mér finnst dálítið skrítið að vera komin hingað. Það kemur mér á óvart hvað mér finnst kalt - ekki hélt ég að ég myndi venjast sænsku veðráttunni svona fljótt. En mér finnst bara vera skítakuldi. Ég hitti fyrrverandi vinnufélaga í ,,kaupfélaginu" og hún sagði að þetta væri bara ímyndun í mér. Það væri sko ekkert kalt! Þó að hún sé greind kona og margfróð trúi ég henni samt ekki í þetta sinn.
Við erum búin að vera hjá Valdísi og Braga en í dag flytjum við í kennaraíbúð og verðum þar í eina viku. Þá getur fólk líka heimsótt okkur. Síðan troðum við okkur aftur inn hjá vinum eða ættingjum síðustu tvær næturnar áður en við förum suður þann 22. júlí. Þá höfum við viku í bænum til að klára fermingarundirbúninginn en Rebekka fermist í Seljakirkju sunnudaginn 29. júlí.
Við ætlum bara að njóta dvalarinnar hér í botn og reyna að hitta ALLA!! Vonandi tekst það og ef ekki, þá vona ég að enginn verði sár. Þá er bara að skella sér í Smálöndin í Svíþjóð næsta sumar - aldrei að vita nema það verði eitthvert húllumhæ og gaman þar sem við Óli verðum bæði fertug á næsta ári. Höldum kannski bara upp á áttræðisafmæli næsta sumar og þá eru auðvitað allir ættingjar og vinir meira en velkomnir.
Hlakka til að sjá ykkur öll!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.