9.8.2007 | 08:56
YNDISLEGUR FERMINGARDAGUR
Rebekka Dröfn fermdist í Seljakirkju þann 29. júlí. Þetta var fullkominn dagur þrátt fyrir að sólin léti sig hverfa og hann skvetti nokkuð hressilega úr sér. Sólin skein í hjörtum okkar allra fyrir það!
Athöfnin var yndisleg. Ættingjar og vinir áttu með okkur ógleymanlega stund. Elli, fyrrum samkennari minn í Heppuskóla og fyrsti dönskukennarinn hennar Rebekku en núverandi prestur, fermdi stúlkuna og fórst það afar vel úr hendi. Hann er greinilega alveg kominn á rétta hillu í lífinu! Ræða hans var falleg og sönn og orð hans hittu mig a.m.k. beint í hjartastað, það var eins og hann hefði lesið hugsanir mínar. Þar sem Rebekka fermdist ein og hann þekkir hana svolítið, eins og hann sagði, gat hann beint orðum sínum persónulega til hennar, hennar sem er alveg einstök. Og Elli er þeim hæfileika gæddur að ná vel til barna og unglinga og geta talað þeirra mál. Það gerði hann líka þarna. Ég veit að fæstir munu gleyma tilvitnun hans í Megas: ,,Smælaðu framan í heiminn og þá smælar heimurinn framan í þig." Ekki verra veganesti út í lífið en hvað annað!
Það var líka gaman að því hvað Rebekka tók mikinn þátt í athöfninni, las ritningarlestur og aðstoðaði við altarisgönguna. Hún stóð sig afar vel þrátt fyrir að vera auðvitað stressuð. Henni fannst dálítið skrítið að allt þetta fólk skyldi leggja svona mikið á sig hennar vegna, hún er svo hógvær hún Rebekka mín.
Það var líka gaman að því að við gátum fengið að velja sálmana og tónlistina í kirkjunni. Við höfum kynnst því hér í Svíþjóð að það er miklu léttara yfir messum hér og við vildum að þessi athöfn yrði falleg en líka skemmtileg. Þess vegna völdum við lög sem eru einmitt falleg og skemmtileg. Organistinn í Seljakirkju, tengdasonur Hornafjarðar (nánar tiltekið Akurnessfólksins) var til í að verða við öllum okkar óskum með bros á vör! Við erum honum og söngvurunum úr kirkjukór Seljakirkju sérstaklega þakklát. Við völdum m.a. fallegt gospellag sem heitir ,,Ég trúi á þig" sem var sérstaklega fallega sungið af einni stúlku í kórnum sem ég veit því miður ekki hvað heitir. Við völdum líka íslenska útgáfu lagsins Amasing grace (Ég trúi á ljós), sem allir þekkja auðvitað. Og athöfninni lauk með glaðlegum sálmi, Stjörnur og sól.
Sesselja Mist gaf systur sinni gjöf með því að syngja fyrir hana í kirkjunni Hún söng Í bljúgri bæn og gerði það ofsalega vel. Henni finnst mjög gaman að syngja og fannst ekkert mikið mál að standa upp í kirkjunni og syngja fyrir 50-60 manns þó að hún sé bara rétt að verða 9 ára. Elli leyfði fólki að klappa í kirkjunni, enda átti hún skilið lófatak, búin að æfa sig síðan í febrúar. En hún Diljá Fönn, litla skottið mitt, er ennþá voða svekkt fyfir því að hún skyldi ekki hafa fengið að syngja líka. ,,Af hverju mátti ég ekki syngja eins og Sesselja?" Svo að þið eigið örugglega eftir að fá að heyra í henni seinna.
Svo var komið að veislunni sem var haldin í safnaðarheimili kirkjunnar. Hún hófst á því að frænkurnar Rebekka og Bríet spiluðu saman, Rebekka á þverflautuna sína og Bríet lék undir á píanó. Þær voru búnar að vera að æfa sig í allt sumar og samspil þeirra var alveg frábært! Síðan var framreidd humarsúpa með hornfirskum humri (nema hvað), grillað íslenskt lambalæri með fullt af meðlæti og síðan kaffi, kökur og konfekt á eftir. Vona ég að allir hafi notið veitinganna sem systur mínar og ég sáum um að útbúa. Það er jú fátt skemmtilegra en að borða góðan mat í góðum félagsskap ættingja og vina.
Ég er svo heppin að eiga margar systur sem finnst gaman að halda veislur. Ragga ráðagóða systir mín lagði línurnar með mér og bar hitann og þungan af undirbúningnum, ákvað hver ætti að baka hvað, reddaði grillum o.fl. Systur mínar Dóra, Birna og Jónína bökuðu æðislegar kökur til að hafa með kaffinu og Ella frænka - fyrirgefið Stórfrænka og listamanneskja - sá um kökuskreytingar. Ella og Birna systir, sem líka er frábær listakona, voru síðan fengnar til að skreyta salinn. Okkur Rebekku langaði að hafa hafið sem þema og Birna systir, sem er líka mikil áhugamanneskja um náttúruna og safnari mikill, kom með hálfa skagfirsku fjöruna með sér suður. Rekavið sem hún hafði tínt og borað í göt fyrir sprittkerti og steina í öllum regnbogans litum. Þetta og fleira var tínt til og þær Ella gerðu salinn síðan alveg ótrúlega flottan.
Systur mínar og Ella Stórfrænka sáu svo um allt í eldhúsinu á sjálfan fermingardaginn frá A til Ö og sáu til þess að við Óli gátum notið dagsins með stelpunum okkar og sinnt gestunum. Fleiri lögðu okkur lið. Börn systra minna hjálpuðu til í eldhúsinu og við grillið og að öðrum ólöstuðum vil ég sérstaklega minnast á Val, tengdason Dóru systur, sem stimplaði sig inn í fjölskylduna með bros á vör, ljúfri og fallegri framkomu og einstökum dugnaði og fagmennsku við framreiðslu í salnum! Greinilega algjör perla eins og kærastan hans, hún Júlía. Geiri, vinur okkar, hjálpaði okkur að útbúa myndasýningu af fermingarbarninu og lánaði okkur fartölvu sem við höfðum á borði í veislunni og þar rúlluðu myndir af Rebekku allan tímann. Hann tók líka alla athöfnina upp á videó fyrir okkur, þannig að þeir sem ekki gátu verið með okkur þennan dag geta fengið að sjá athöfnina á DVD. Heiðar, vinur okkar og fyrrum spilafélagi og nágranni, lék undir með Sesselju og aðstoðaði hana við söngatriðið sitt. Bríet, bróðurdóttir Óla og stórvinkona Rebekku, var líka búin að æfa lengi með Rebekku þeirra tónlistaratriði. Og ekki má svo gleyma Jóhanni Inga, fyrrverandi starfsmanni Óla, en hann var svo yndislegur að færa okkur vinnubílinn sinn að láni allan tímann sem við vorum í Reykjavík.
Elsku ættingjar og vinir. Enn og aftur ástarþakkir fyrir alla aðstoðina og fyrir að hjálpa okkur að gera þennan dag ógleymanlegan. Hún Rebekka mín er nú ekki vön að segja margt eða flíka tilfinningum sínum en ég get sagt ykkur að hún sveif um á hamingjuskýi!
Þegar þetta var nú allt afstaðið skellti fermingarbarnið sér síðan í keilu! Jú, þetta var jú síðasti dagurinn sem hún hafði með vinkonum sínum á Íslandi og Bragi, Valdís og börnin þeirra fóru í keilu ásamt Óla, Rebekku og Sesselju og síðan vinkonunum Önnu Regínu og Guðlaugu. Á meðan fórum við Diljá aftur í kennaraíbúðina og gerðum huggulegt þar, dúkuðum með dúkum úr veislunni, stilltum upp fermingarkertinu og fleira skrauti, kveiktum á kertum og settum konfekt í skál. Diljá var auðvitað orðin dauðþreytt en hékk uppi og beið eftir Rebekku sem átti eftir að opna gjafirnar sínar. Það gerði hún síðan þegar hún kom heim en Diljá gafst upp áður en því lauk og bað um að fá að fara inn í rúm að sofa. Um miðnætti var búið að kíkja í alla pakkana og kortin og fékk Rebekka margar góðar gjafir og var yfir sig ánægð með allt sem hún fékk. Hún hafði reyndar á orði að hún fengi bara samviskubit yfir þessu öllu og því hvað fólk gæfi henni mikinn pening. Ég sagði henni að líta svo á að allt þetta fólk, sem þekkti hana og þætti vænt um hana, vildi gleðja hana og gefa henni start inn í framtíðina. Og þannig verður það. Hún ætlaði að kaupa sér myndavél en fékk hana síðan í fermingargjöf og ætlar að taka pening til að kaupa sér dálítið af fötum en síðan verður þetta lagt fyrir og ávaxtað til framtíðar. Sumarlaununum sínum fær hún síðan að eyða í það sem hana langar í en Rebekka hefur alltaf farið vel með peninga. Það sást strax hvert stefndi þegar ég var að versla inn fyrir jólin í gamla kaupfélaginu á Höfn, Rebekka hefur verið tæplega 5 ára og örvæntingarsvipurinn á andliti hennar jókst eftir því sem hækkaði í körfunni. Loks hrópaði hún upp yfir sig þegar ég ætlaði að fara að setja ostaköku í troðfulla körfuna: ,,Nei, nei, ekki meira. Þetta kostar svo mikið!!" Já, hún hefur aldrei verið kröfuhörð hún Rebekka.
Nú erum við komin aftur til Svíþjóðar, Óli byrjaður að vinna og við njótum síðustu daganna áður en skólarnir byrja aftur. Svo erum við farin að spá í næstu veislu - tvöfalt fertugsafmæli okkar Óla á næsta ári. Nú skella sér allir í sænsku Smálöndin næsta sumar!! Hlökkum til að sjá ykkur aftur!
Athugasemdir
Til hamingju með fermingarskvísuna. Ég fermdist líka í Seljakirkju og ég man alltaf hvað mér fannst ég orðin svakalega stór þegar ég gekk út úr kirkjunni eftir athöfnina
Hulda Dagmar Magnúsdóttir, 10.8.2007 kl. 21:18
Þetta er eitt skemmtilegasta og fallegasta blog sem ég hef lesið virkilega ég bara sá þetta allt ljóslifandi fyrir mér :o) Innilega til hamingju með fermingarstúlkuna og greinilega frábæra dvöl á íslandinu.
Áslaug í Nesk (IP-tala skráð) 11.8.2007 kl. 11:57
Kæru vinir og ættingjar, mikið var nú yndislegt að lesa um fermingardaginn, ég sé þetta allt fyrir mér í anda, og mikið var nú gaman að lesa um daginn. Mikið er ég nú spæld að hafa misst af öllu stuðinu, en ég er himinlifandi að hafa getað eytt tíma með ykkur fyrir austan, og að hafa getað unnið Óla Kalla í Yahtzee Ég sakna ykkar hræðilega mikið, en lifi ennþá fyrir minningarnar, þær gleymast aldrei, mig hlakkar til þess að sjá ykkur á næsta ári, og mikið væri nú gaman ef ég gæti svo skellt mér til Svíþjóðar líka, en það er kannski fullmikið, en alltaf má láta sig dreyma... Kossar og knús, til ykkar allra...
Bertha Sigmundsdóttir, 15.8.2007 kl. 05:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.