FJÖRUGUR AFMÆLISDAGUR

Þá er hún Sesselja Mist LOOOOKSINS orðin 9 ára en þess hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu í.....ja, eiginlega í 364 dagaGrin  Hér var herleg afmælisveisla í gær - að íslenskum sið, það er að segja FULLT af kökum.  Hér er vaninn að hafa eina afmælisköku og síðan smákökur og bollur með svo að við sögðum fólki að koma svangt og borða mikið!  Og það tóku allir vel í það.  Pabbi, Irene og Maria komu auðvitað og síðan Frida og Susanne, mamma hennar, og Anea og Pierre, pabbi hennar.  Þær eru bekkjarsystur Sesselju sem hún leikur hvað mest við og við erum orðin vel kunnug foreldrum þeirra, indælisfólk allt saman.  Síðan komu Ina og Alma, tvær systur sem búa hér í næstu blokk og Pernilla, mamma þeirra, sem var stundum að vinna í afleysingum á gamla leikskólanum hennar Diljár.  Silana er 5 ára gömul vinkona hennar Sesselju sem býr líka í næstu blokk og hún kom líka með Sussie, mömmu sinni, sem ég spjalla oft við.  Markus og Rebecka eru jafngömul Sesselju en eru í hinum bekknum.  Markus býr hér í næstu blokk, ljúfur strákur en svolítið sérstakur og á ekki marga vini.  Sesselja fer hins vegar ekki í manngreinarálit og kemur fram við hann eins og hvern annan og þau leika sér mikið saman.  Rebecka og Sesselja kynntust hins vegar í kórnum og hafa leikið sér mikið saman.  Marie, mamma hennar Rebecku kom líka, hún er rosalega hress og skemmtileg kona og við hlógum mikið hér.

Krakkarnir átu auðvitað kökur og léku sér saman.  Það þurfti endilega að rigna í gær svo að þau gátu ekki verið úti að leika sér eins og venjulega.  Sesselja var búin að segja öllum að hún óskaði sér að fá eyrnalokka í afmælisgjöf, þar sem hún er búin að fá göt í eyrn, og hún fékk hvorki meira né minna en ferna eyrnalokka!  Hún fékk líka föndurdót, Bratz tölvuleik og geisladiska, geisladisk með Markoolio (sá allra vinsælasti hér núna) og DVD-myndina Liar Liar!  Svo keyptum við gamla hjólið hennar Aneu sem er orðið of lítið fyrir hana (bara ársgamalt hjól) og gáfum Sesselju en Anea gaf henni nýjan lás á það.

Fullorðna fólkið var mjög ánægt með veitingarnar, kökur og heita brauðrétti og við áttum mjög skemmtilega stund saman.  Okkur finnst auðvitað bæði skemmtilegt og nauðsynlegt að kynnast foreldrum barnanna sem okkar krakkar eru orðnir heimagangar hjá og öfugt og þau voru mjög ánægð yfir að vera boðin hingað líka, þó að flest þeirra hafi nú komið hingað áður.

Þegar allir gestirnir voru farnir settumst við síðan niður, öll fjölskyldan, með popp í skál og horfðum á hinn óborganlega Mr. Bean í sumarleyfi.  Svo sannarlega skemmtilegur endir á skemmtilegum afmælisdegi!!

Nú var ég að tína stelpurnar inn, þær eru búnar að vera úti að leika við Inu, Ölmu, Markus og Silönu allan seinnipartinn.  Ég er búin að þvo þeim um tærnar (hér hlaupa allir krakkarnir berfættir um að leika sér) og þær eru að svífa inn í draumalandið, dauðþreyttar eftir daginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Elsku Sesselja mín, ég var sko með þér í anda, og mikið var nú gaman að lesa um afmælið þitt, það er frábært að sjá að þú átt orðið svona marga vini í Svíþjóð!!! Við elskum þig og söknum þín og allrar fjölskyldunnar, skemmtu þér nú vel áður en skólinn byrjar Ástarkveðjur, fjölskyldan þín hér í Ameríkunni

Bertha Sigmundsdóttir, 16.8.2007 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband