21.8.2007 | 09:18
PÖDDULÍF!
ÓKEI!!
Ég viðurkenni að það er EITT pirrandi við að búa hér. Það er hið afar fjölskrúðuga PÖDDULÍF! Og ágúst virðist einmitt vera þeirra uppáhalds-mánuður! Reyndar hefur verið mjög lítið af flugum og alls kyns kvikindum í sumar. Geitungar hafa t.d. bara varla sést (7-9-13) eins og ég var nú orðin lagin við að taka þá á yppon með flugnaspaðanum í fyrrasumar - sýndi afar tilþrifamikla ,,Björn Borg" takta ef þeir dirfðust að láta sjá sig hér innandyra. Mýflugunum er maður líka búinn að venjast sem og litlu köngulónum sem eru snöggar að spinna þræði sína um allt - úti sem inni. Svo eru alls kyns pöddur sem skríða stundum um og maður kann engin heiti á, en maður kippir sér lítið upp við það - yfirleitt sæki ég bara ryksuguna og ...svússsj...vandamálið er úr sögunni. Maurar hafa aldrei hrætt mig, mér finnst þeir vera svo stórkostleg dýr og það er afar sjaldgæft að maður sjái þá innandyra. Svo eru fleiri skordýr sem vekja bara hrifningu manns, t.d. maríubjöllurnar, þið vitið þessar rauðu með svörtu doppunum á bakinu. Voða sætar. Reyndar hef ég séð þær bæði gular og appelsínugular líka. Drekaflugur eru líka svakalega flottar og það er engu líkara en þyrla sé á ferðinni, slíkur er hávaðinn þegar þær fljúga hjá. Þær hefur maður líka séð í öllum regnbogans litum.
Já, maður hefur sjóast aðeins í umgengni sinni við þessi litlu dýr en þó er það ennþá ein tegund af flugum sem ég þoli alls ekki. HROSSAFLUGUR!! Mér finnst þær bara eitthvað svo ógeðslegar þar sem þær hoppa upp og niður í loftinu og lappirnar á þeim vingsast til og frá. Maður veit aldrei í hvaða átt þær ætla og þær eru eitthvað svo óútreikanlegar. Svo eru hrossaflugurnar hér stærri en þær íslensku, sem bætir auðvitað ekki úr skák.
Í gærkvöldi var ég nýbyrjuð að lesa spennusögu eftir John Grisham og Óli rétt byrjaður að hrjóta við hliðina á mér þegar ein svona ofvaxin hrossafluga birtist allt í einu yfir náttlampanum mínum. Ég stökk auðvitað framúr og kallaði í Óla að vakna og losa mig við óværuna. Aumingja Óli vaknaði alveg ringlaður og náði ekki alveg áttum. ,,Fylgstu með henni meðan ég sæki flugnaspaðann" sagði ég og hljóp fram. En þegar ég kom tilbaka með flugnaspaðann var Óli búinn að týna flugunni. ,,Ætli hún sé ekki bara dauð?", sagði hann. Hann segir það nú alltaf Ég hugsaði mig um nokkra stund og reyndi að vera skynsöm. ,,Ég bý hérna. Þessar flugur búa hér líka. Þær eru algjörlega meinlausar. Það gerist ekkert þó að ég leggist bara upp í rúmið mitt, slökkvi ljósið og fari að sofa. Hmmm..." Svo tók ég koddann minn, fór fram í stofu, breiddi ofan á mig teppi og fór að sofa. Óli var hvort eð er sofnaður vært aftur...með flugnaspaðann við hlið sér
Athugasemdir
Skemmtileg færsla hjá þér, elsku Heiða mín, ég hló nú mikið, ég sé nú bara Óla frænda fyrir mér, með flugnaspaðann við hlið sér... Alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt, ég verð nú að fara að verða duglegari að skrifa, búin að vera soldið veik uppá síðkastið...en þetta kemur allt saman... Sakna ykkar, ástarkveðjur, frá pöddulífinu hér í Kaliforníu, ég skil þig sko alveg, I feel you!!!!!!
Bertha Sigmundsdóttir, 21.8.2007 kl. 23:16
Hæ, elsku snúlla! Leitt að heyra að þú hefur verið veik. Mig grunaði það svosem þar sem ég hef ekkert heyrt af þér og þú ekkert verið á msn. Ég bjalla kannski í þig fljótlega. Kossar og knús og vona að heilsan lagist.
Aðalheiður Haraldsdóttir, 22.8.2007 kl. 07:49
hehe æ hvað ég er sammála þér með hrossaflugurnar.... þær eru eitthvað svo ljótar og heimskulegar.
Annars sá ég stærstu drekaflugu sem ég hef séð í sumar. Mér brá svo skelfilega að ég hljóp öskrandi inn, lokaði á eftir mér og gat ekki hætt að horfa á hana í glugganum. Hún var eins og fugl, kolsvört en samt gyllti einhvernveginn á hana. Ótrúlega flott. Drekaflugur stinga ekkert, er það?
Hulda Dagmar Magnúsdóttir, 28.8.2007 kl. 08:02
Hæhæ já og takk fyrir póstinn. Það hefði nú bara verið flott að fá blúsbandið hingað yfir í afmælið hans Sigga. Og það er rétt hjá þér með skordýrin maður lærir á þau með tímanum. Er samt með fóbíu fyrir muggi (mýi) því að það er svo vont að vera stunginn eða uppétinn eins og við hérna megin... Gangi ykkur allt í haginn kveðja Svava í Danmörku
Svava (IP-tala skráð) 28.8.2007 kl. 10:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.