5.9.2007 | 21:43
AFMÆLISKVEÐJA
Í dag, 5. september, hefði hún mamma (amma) mín átt afmæli og orðið 89 ára gömul. Hún lést úr krabbameini fyrir bráðum 11 árum síðan og þrátt fyrir að allir vissu að hverju stefndi fannst manni einhvern veginn að hún yrði alltaf til staðar. Tilveran hefur svo sannarlega verið tómlegri án hennar því að hún var mjög stór persónuleiki og höfuð ættarinnar.
Þegar hún var 73 ára gömul sagði hún mér frá skrítnum draumi sem hana hafði dreymt. Hún lá á spítala og allt í einu opnuðust dyrnar og talan 74 birtist og kom svífandi í átt að henni. Svo vaknaði hún. Hún var mjög berdreymin og fram að 74 ára afmælinu hennar var ég mjög óróleg út af þessum draumi þar sem hún hafði greinst með krabbamein nokkrum árum áður. En 74 ára afmælið leið og það 75 ára og ég hætti að hugsa um þennan draum. En eftir að hún dó og við fórum að telja saman afkomendur hennar, uppgötvuðum við að aðeins 2-3 dögum áður en hún dó hafði 74. afkomandi hennar fæðst.
Mamma sagði skemmtilega frá, oft sögur af viðburðaríkri ævi sinni sem hafði ekki alltaf verið auðveld. Hún las mikið og las fyrir mig á nánast hverjum degi þar til ég var 9 ára. Hún var líka vandlát á lesefnið. Ég varð sjálf læs 6 ára en þá fór hún að lesa fyrir mig ,,bækur með engum myndum", og einna minnistæðust er Þúsund og ein nótt. Ég man hvað ég var spennt yfir sögunum en mamma var kvöldsvæf og dottaði oft við lesturinn og þá hnippti ég í hana en gafst upp þegar hún var farin að hrjóta.
Hún var líka hnyttin í tilsvörum, talaði bókstaflega í málsháttum og orðtökum og ólíklegustu samlíkingum á hverjum einasta degi og suma frasa hef ég engan heyrt nota nema hana. Þegar óvæntir gestir birtust sagði hún t.d. alltaf: ,,Á dauða mínum átti ég nú von en ekki þessu!" Þegar heilsan var léleg hafði hún á orði að hún væri nú bara eins og kararkerling og svo mætti lengi telja. Hún gat alltaf slegið fram málsháttum við hvaða aðstæður sem var og ég lærði mikið af henni og sakna þess að heyra þetta ekki lengur. Við sem munum eftir þessu ættum eiginlega að safna þessu saman.
Hún hugsaði alltaf fyrst og fremst um aðra. Á köldum vetrum biðu fötin mín hlý og notaleg eftir mér á ofninum á morgnana. Þegar ég kom inn eftir að hafa leikið mér í snjónum, blaut í fætur með kaldar kinnar, beið mín heitt kakó og smurt brauð. Þegar ég var lasin, dekstraði hún við mig á alla lund (svo að sumum þótti reyndar nóg um . Hún lagði sig alltaf alla fram og ég reyni að taka hana mér til fyrirmyndar.
Hún var ofurmamma óg súperhúsmóðir, tilfinningarík, söngelsk, afar trúuð og sannfærð um að Ísland væri besta land í heimi. Ég man eftir laugardagsmorgnum, úr eldhúsinu bárust tónar - Hvítir mávar hljómuðu í óskalögum sjúklinga og mamma söng með. Alltaf var útvarpið í gangi og þegar ég var lítil og sofnaði upp í hjá henni, var hún oft með kanann lágt stilltan og við sofnuðum út frá honum. Tónlist vakti sterkar tilfinningar hjá henni og við munum mörg eftir hennar uppáhaldslögum sem enn þann dag í dag minna okkur á hana. Hún elskaði bæði Björvin Halldórs og óperur og það var ljúfsár stund í jarðarförinni hennar þegar uppáhaldssöngkonan hennar, Diddú sjálf, söng eitt af hennar uppáhaldslögum. Þá hugsaði ég með mér: ,,Af hverju gerðum við þetta ekki fyrir hana meðan hún var ennþá hjá okkur?"
En reyndar var hún hjá okkur þá og er enn. 11 árum síðar er minningin um hana og nærvera hennar ennþá svo sterk að hlátur hennar hljómar í eyrum mér. Enn þann dag í dag hugsum við: ,,Hvað hefði mömmu nú fundist um þetta? Nú hefði mamma sagt... Þessu hefði mamma haft gaman af." Hún er ennþá með okkur jafnt á gleðistundum sem og í erfiðleikum. Á því hafa margir í fjölskyldunni fengið staðfestingu. Svo margir eiga góðar minningar um hana sem þeir deila áfram til barna sinna og barnabarna. Rétt eins og hún sagði okkur sögur af ömmu sinni.
Elsku mamma. Takk fyrir allt sem þú gafst okkur og gerðir fyrir okkur. Þú hefur áhrif á líf mitt enn þann dag í dag og verður alltaf í huga mér.
Ástarkveðja,
Heiða.
(Fyrir þá sem ekki vita, ól móðuramma mín upp frá fæðingu, en ég er svo heppin að eiga aðra mömmu sem er ekki síður yndisleg manneskja).
Athugasemdir
já..... heiða mín
elina (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 00:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.