,,ER EKKI TÍMI TIL KOMINN AÐ TENGJA...??"

Jæja, LOKSINS erum við komin aftur í samband við umheiminn.  Var að stinga nýja módeminu í samband - PLOPPS - og umheimurinn er aðeins sekúntubrot undan!

Það er allt gott að frétta.  Við erum loksins flutt í STÓRU íbúðina og allir komnir með sitt herbergi.  Stelpurnar eru mjög ánægðar í skólunum og Sesselja er farin að koma heim með krakkastrolluna (og stundum mömmurnar líka) á eftir sér.  Skólinn hennar er hérna beint á móti, bara rétt yfir götuna, en Rebekka er svona 20 mín. að labba, þannig að hún tekur yfirleitt strætó.  Hún er líka búin að eignast vinkonur í skólanum og er að fara að heimsækja eina þeirra, Lovísu, í næstu viku.  Hún býr á sveitabæ hér skammt frá og á helling af dýrum.  Annars er allt fullt af krökkum hér í hverfinu svo að þetta er bara eins og á Fákaleirunni!

Rebekka er byrjuð að æfa sundið og Sesselja er byrjuð í kór og ætlar að mæta á skátafund í næstu viku og sjá hvernig henni líst á það.  Hér eru foreldrar mjög virkir þátttakendur í tómstundastarfi barna sinna og í byrjun október fer ég á námskeið hjá sundfélaginu hennar Rebekku til að geta aðstoðað við keppnir hér heima.  Það er búið að vera eitt lítið innanfélagsmót, bara svona sem upphitun, og þar var síðasta keppnisgreinin boðsund - eins og títt er á svona sundmótum - nema þetta var fjölskylduboðsund.  Hvert lið samanstóð semsagt af mömmu og/eða pabba og síðan 1-2 börnum á aldrinum u.þ.b.7-17 ára.  Þetta var afar skemmtilegt og þegar ég tala um að foreldrar séu mjög virkir, þá kepptu hvorki meira né minna en 12 lið í þessari grein og var þetta tvímælalaust hápunktur mótsins.

Diljá er búin að fá pláss á leikskóla og byrjar í aðlögun 18. september.  Hún verður 3 tíma á dag til að byrja með þangað til ég fæ vinnu.  Hún er alveg búin að jafna sig eftir uppskurðinn og er alveg syngjandi kát alla daga.  Uppáhaldið hennar núna eru Mjallhvít og dvergarnir sjö, eða ,,Hæ-hó-arnir" eins og hún kallar þá!

Í dag fengum við alveg frábæra sendingu - Sesselja fékk afmælispakka frá Agnesi og Stefáni Reyni og einhver hafði laumað með íslensku sælgæti og harðfiski!  Það var alveg frábært - kærar þakkir!  Við fengum líka svona sendingu um daginn af Fákaleirunni og hún rann ljúflega niður!

Sem ég sit hér og skrifa er Óli sofnaður yfir sjónvarpinu en þar er verið að sýna íslensku sjónvarpsmyndina ,,Allir litir hafsins eru kaldir", svo að þetta er allt voða heimilislegt.  Ég held ég fylgi fordæmi hans, er dauðþreytt eftir afar langa og erfiða innkaupaferð í dag að kaupa í matinn.  Ég lét nú vera að kaupa krókódílakjötið og kengúrufilé, prófa það kannski seinna.  Geiiiiiisp - þarf líka að taka upp úr fleiri kössum á morgun.

Bestu kveðjur, Heiða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðlaug Úlfarsdóttir

Já, mikið er gaman að sjá að þið eruð aftur komin í samband og að allt gengur svona rosalega vel. Skrifa meira seinna.

kveðja

Gulla og co

Guðlaug Úlfarsdóttir, 9.9.2006 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband