22.9.2007 | 16:33
ÓLYMPÍULEIKAR O.FL.
Í dag tók Sesselja þátt í Ólympíuleikunum í Växjö. Þetta er árlegt frjálsíþróttamót fyrir krakka og unglinga og ekkert skilyrði að vera félagi í einhverju íþróttafélagi - allir mega taka þátt. Sesselja mætti á svæðið og tók þátt í langstökki, 60 m hlaupi og 600 m hlaupi. Hún stóð sig bara vel þó að hún kæmist ekki á verðlaunapall, enda var það ekki aðalatriðið. Henni finnst þetta bara svo rosalega skemmtilegt. Mest kom hún okkur á óvart í 600 m hlaupinu þar sem hún sló hvergi af. Kraftmikil stelpa.
Rebekka var á sundæfingu í morgun. Hún er orðin best í sínum hópi í flugsundi, nokkuð sem ég held að hún hafi ekki átt von á, hún var ekki svo spennt fyrir flugsundinu fyrst þegar hún lærði það. Síðan fór hún í bæinn og hitti þar vini sína, þau Jenny og Gabriel.
Ég komst að því nú í vikunni að hætturnar leynast víða. Ég var að fara á skrifstofuna í vinnunni hans Óla en á lóðinni þar er risastórt tré, eins og reyndar eru hér um allt. Þar sem ég geng undir tréð dettur ekki eitthvað niður úr trénu rétt fyrir framan nefið á mér og annað lendir á lærinu á mér og ég get sagt ykkur að það var ekkert sérlega þægilegt. Þegar betur var að gáð var hér um að ræða litla hnetu. Já, ég gekk semsagt undir hnetutré og það rigndi nánast hnetunum niður úr því. Maður er bara ekki vanur þessari nálægð við náttúruna!
Ekki frekar en kötturinn hennar systur minnar í úthverfi Stokkhólms sem varð dauðhræddur um daginn þegar hann var úti í garði - eins og kettir eru vanir að vera - þegar það kom allt í einu dádýr stökkvandi eftir götunni!
Sniðugt í Stokkhólmi!
p.s. Hvað verður nú um þá drykkjufélagana, Boga og Örvar?? Þetta er eins og að stía í sundur Gög og Gokke!
Athugasemdir
hahaha spurning um að fara að ganga með öryggishjálm..... svona ef þú skyldir þurfa að fara undir tré
Hulda Dagmar Magnúsdóttir, 24.9.2007 kl. 19:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.