RIGNINGARDAGUR

Það var yndislegt veður í morgun og ég sagði Sesselju að taka bara regngallann og stígvélin með sér í skólann á morgun, til að hafa það þar til öryggis.  Hún var nefnilega svo klyfjuð af skólatösku og sunddóti að hún hefði hreinlega sligast.

Um hálfellefuleytið byrjað svo að rigna.  Fyrst var bara léttur úði en síðan skall á úrhellisrigning.  Eins og hellt væri úr fötu.  Alveg ausandi!!  Skömmu síðar hringdi Rebekka og bað mig að koma með þurr föt fyrir hana og Jenny.  Bekkurinn hafði nefnilega verið úti í líffræði og af því að Rebekka er nú einu sinni unglingur, vill hún aldrei taka með sér vatnshelda yfirhöfn í skólann og ég er hætt að skipta mér af því.

Svo að ég skutlaði fötum til Rebekku og fór síðan með regnfötin hennar Sesselju og stígvélin í skólann hennar í leiðinni.  Næst hringdi Óli.  Hann var auðvitað eins og hundur af sundi dreginn.  Ég fann til þurr vinnuföt á hann og skutlaði þeim til hans í vinnuna.  Verkstjórinn var þá líka búinn að redda honum regngalla.

Því næst sótti ég Diljá á leikskólann.  Hún var holdvot og yfir sig hamingjusöm úti að leika sér.  Það hafði komið svakaleg þruma skömmu áður og allir krakkarnir hlaupið í skjól undir þakskyggni.  Sem betur fer varð ekki meira úr þrumuveðrinu í þetta sinn.  Ég fór með Diljá inn, tók hana úr pollagallanum, hellti nokkrum desilítrum af vatni úr stígvélunum hennar og svo drifum við okkur hingað heim í þurr föt.

Nú ætla ég að fara að hita súkkulaði.  Það er það besta sem hægt er að fá á svona dögum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband