HVAÐ VARÐ UM EMIL Í KATTHOLTI ÞEGAR HANN VARÐ FULLORÐINN?

Í gærkvöldi fór ég á kynningarfund í nýja, fína skólanum hennar Sesselju.  Hér mætir a.m.k. annað foreldri ALLRA barnanna ALLTAF á svona fundi, nema þeir hafi mjög góða ástæðu til að koma ekki.  Að þessu sinni voru það foreldrar tveggja barna sem ekki komu.  12 mömmur voru mættar og 11 pabbar - jöfn kynjaskipting þar.  Skólaganga barnanna skiptir feður nefnilega jafnmiklu máli og mæður!

Á hverri önn úthluta kennarar embættinu ,,klassföräldrar" til foreldra 5 barna í senn.  Það er einfaldlega farið eftir stafrófsröð og á þessari önn er komið að okkur Óla.  Bekkjarforeldrar hjálpa til við kynningarfundina með því að mæta með kaffi og meðlæti og skipuleggja og sjá um viðburði eins og t.d. diskótek og því um líkt. Allir taka þátt og enginn skorast undan.  Þetta er jafnsjálfsagt og að bursta tennurnar eða drekka morgunkaffið.

Í haust byrjuðu krakkarnir í fyrsta sin í smíðum og handavinnu - eða textíl eins og það heitir víst á tískuíslensku í dag.  Sesselja er í smíði og þrátt fyrir að aðeins sé liðinn rúmur mánuður síðan skólinn byrjaði, er hún langt komin með þriðja smíðisgripinn sinn.  Við foreldrarnir vorum send niður í nýju, fínu smíðastofuna þar sem smíðakennarinn, Leif, átti að kynna fyrir okkur smíðakennsluna.

Þegar inn í smíðastofuna var komið voru allir látnir taka sér trjágrein og setjast síðan á litla kolla í hálfhring kringum kennarann, sem sat á trjábolsstubbi.  Hann úthlutaði síðan hnífum og sagði öllum að byrja að tálga!  Þarna sátum við svo og tálguðum okkur þennan líka fína snaga á meðan Leif fræddi okkur um undur og dásemdir þess að tálga og smíða.

Það var undarlega róandi og sefandi að sitja þarna með þessa litlu grein og tálga af henni börkinn.  Ég gat ekki annað en hugsað til Emils í Kattholti og allt í einu fannst mér ég skilja hann svo miklu betur.  Strákgreyið, búinn að gera eitthvað af sér alveg óvart, á flótta undan pabba sem er  alveg brjálaður.  Nær að komast inn í smíðakofann og læsa á eftir sér, litla hjartað hamast og svitinn sprettur út.  Svo sest hann niður með spýtukubb og byrjar að tálga og yfir hann færist ró og friður og allar áhyggjur hverfa. 

Leif sjálfur minnti líka á strákpjakkinn og ég hugsaði sem svo að nú væri ég komin í smíðatíma hjá sjálfum Emil í KattholtiLoL  Og allt í einu lá það í augum uppi að auðvitað hefði Emil orðið smíðakennari!!  Hvað annað?  Hver annar kynni tökin á fjörugum strákpjökkum?  Ég var líka alveg sammála Leif um að leyfa krökkunum heldur að tálga en fara í Play Station.  Svei mér þá ef ég skelli mér ekki bara út í skóginn hér á bakvið hús, nái mér í greinar og setjist svo á kvöldin út á svalir og tálgi snaga til að stinga í jólapakka handa ættingjum og vinum.  Made in Småland!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband