HVERSU LENGI ÆTLA ÍSLENDINGAR AÐ LÁTA OKRA Á SÉR?

Þetta er auðvitað langt frá því að vera í lagi og hreinlega til háborinnar skammar.  Getið þið ímyndað ykkur hversu mikið blóð, sviti og tár, áhyggjur og vanlíðan liggja að baki hjá þessum fjölskyldum áður en til svona aðgerðar kemur?  Það hlýtur auðvitað að vera eitthvað mikið að í kerfinu þegar um svona háa tíðni nauðungaruppboða er að ræða.  Það þarf ekkert að segja mér það að allur þessi fjöldi fólks sé svona svakalega kærulaus í fjámálum.

Fyrir u.þ.b. þremur árum settist ég niður og gerði útreikninga á mínum lánum og brá mér heldur betur í brún.  Ég komst að því að á 5 árum var ég búin að borga 4 milljónir af 11 milljónum en þrátt fyrir það skuldaði ég ennþá 12 milljónir!  Þetta fannst mér auðvitað ekki ásættanlegt, búin að kasta 4 milljónum út um gluggann og ég ákvað að taka ekki þátt í þessari glæpastarfsemi íslenskra banka lengur, seldi allt mitt hafurtask, pakkaði niður og flutti af landi brott!

Vitið þið að það er ekki hægt að fá óverðtryggð lán á Íslandi til lengri tíma en 5 ára?

Vitið þið að vextirnir sem þið borgið af lánunum ykkar eru líka verðtryggðir en ekki bara höfuðstóllinn?  Skoðið bara greiðsluseðilinn ykkar, þá sjáið þið þetta með eigin augum.

Vitið þið að höfuðstóll húsnæðisláns til 40 ára byrjar ekki að lækka fyrr en eftir 22 ár!!  Sé lánið til 25 ára byrjar höfuðstóllinn að lækka eftir 12 ár!

Við skulum ekki einu sinni fara út í lántökukostnaðinn.  Það er bara engan veginn hægt að réttlæta hann.

Hér eru lán ekki verðtryggð heldur er reiknað með verðbólgunni í vöxtunum.  Þegar þú tekur lán hér veistu því nákvæmlega hversu mikið þú kemur til með að borga á mánuði, og sú tala stendur!  Hvernig eiga íslenskir lántakendur að geta gert greiðsluáætlanir þegar lánin þeirra hækka í hverjum mánuði?

Sjálf er ég ekki með húsnæðislán hér í Svíþjóð heldur leigi ég 5 herbergja íbúð á 75.000 íslenskar á mánuði og þykir það mjög dýr leiga.  Innifalið í leigunni er hiti, vatn, kapalkerfi, ísskápur, frystiskápur, uppþvottavél, þvottavél og þurrkari.  Semsagt allt nema rafmagn.

Gerum að gamni smá samanburð á lántökukostnaði á Íslandi og í Svíþjóð.  Segjum að ég taki skuldabréf að upphæð 1 milljón íslenskra króna sem ég ætla að greiða tilbaka á 10 árum.  Reiknum með sömu vaxtaprósentu 8,5%.  Í Svíþjóð er verðbólgan reiknuð inn í ársvextina en á Íslandi reiknast hún ofan á lánið, miðum við 3% verðbólgu.

Á Íslandi er lántökukostnaðurinn 37.800 sem er dreginn af því sem þú færð greitt, þannig að þú færð 962.200 kr.  Hluti lánökukostnaðar er hlutfall af lánsupphæðinni.  Í Svíþjóð er lántökukostnaðurinn 7.000 kr. óháð lánsupphæð og leggst hann við lánsupphæðina.  Þú færð milljónina því óskerta.

Mánaðarleg afborgun á Íslandi með vöxtum og verðbótum er 16.050 fyrsta mánuðinn en endar í 11.873 síðasta mánuðinn.  Miðað er við jafnar afborganir.  Í Svíþjóð er fyrsta afborgunin 15.210 krónur en  síðasta 8.390 kr.  Í Svíþjóð getur maður verið viss um að þessar áætlanir standist ólíkt því sem gerist á Íslandi.  Um leið og verðbólgan fer yfir þau viðmið sem reiknað er með hækka allar afborganir enn frekar.

Þegar þú ert búinn að borga íslenska lánið þitt upp, ertu búinn að greiða 1.711.195 krónur.  Lánið hefur semsagt kostað þig 748.995 með lántökukostnaði.  Í Svíþjóð greiðir þú til baka 1.416.030, lántökukostnaðurinn er því 423.030 eða rúmlega 43,5% lægri en á Íslandi.

Athugið líka að 8,5% ársvextir eru með því hæsta sem gerist í Svíþjóð en því lægsta á Íslandi.  Ef við miðum við 6% sem er algengt í Svíþjóð verður lántökukostnaðurinn í kringum 310.000.  Það er ekki óalgengt að skuldabréfavextir séu í kringum 13% á Íslandi, en þá borgar þú orðið 930.000 fyrir lánið og munurinn orðinn 67%.  (Allt þetta byggir á útreikningum á heimasíðum Landsbankans og Nordea Bank).

Við þetta bætist að 30% af öllum vöxtum sem menn greiða eru frádráttarbærir frá skatti í Svíþjóð, alveg sama hvort um er að ræða af húsnæðislánum, bílalánum, raðgreiðslum eða bara hverju sem er.  Þá summu fá menn síðan endurgreidda við skattauppgjör ár hvert.

Nú er ég enginn fræðingur á þessu sviði, eins og fyrr greinir, en tala út frá minni eigin reynslu.  Ég er viss um að margir geta tekið undir með mér um það að ef ekki væri fyrir verðtryggingu á lánum á Íslandi, væru menn miklu betur settir fjárhagslega.  Húsnæðiskaup eru stærsta fjárfestingin sem flestir einstaklingar gera og ef engar forsendur fólks halda þegar verðbólgan æðir upp úr öllu valdi, hvað á fólk þá að gera?

Hvernig stendur á því að Ísland er eina landið í heiminum (skv. því sem maður hefur oft heyrt í fjölmiðlum) sem er með verðtryggingu á lánum með þessum hætti?  Hvað gerir okkur svo sérstök að hægt sé að réttlæta að bankakerfið fari svona með okkur?  Hafið þið leitt hugann að öllum þeim sem eiga innistæður í bönkunum á verðtryggðum reikningum?  Hverjir haldið þið að það séu?  Það er ekki verkafólkið eða einstæðu foreldrarnir, öryrkjarnir eða þeir sem eiga langveik börn.  Haldið þið að þeir sem stjórna þessu öllu saman sjái sér ekki persónulegan hag í að viðhalda þessu kerfi og sé slétt sama um almenning?  Það held ég að minnsta kosti og það er kominn tími til að gera eitthvað í málunum!


mbl.is Heimili þriggja fjölskyldna á uppboð í hverri viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Heiða. Gat ekki annað en kommentað á þessa færslu hjá þér þó ég þekki þig ekki neitt, sá færsluna í gegnum vef moggans  Ég er svo innilega sammála þér, það þarf svo að taka kerfið á Íslandi í gegn og þá í sambandi við allt sem viðkemur fjölskyldum og okkur "minna fólkinu", verkamönnum, einstæðum mæðrum, öryrkjum, atvinnulausum o.s.frv. Ég er til dæmis einstæð móðir með 2 litla og ákvað í vor að flytja af landi brott og til Danmerkur þar sem ég ætla í skóla í janúar. Ég flutti í júlí og er strax farin að sjá hvað þetta er miklu auðveldara. Ég borga ekki krónu fyrir leikskóla og vöggustofu fyrir strákana þar sem ég er einstæð og verð námsmaður. Leigan er MUN lægri, er að borga 5000 dkr fyrir 130 fm raðhús. Reyndar er ekki innifalið í því allt sem þú taldir upp, bara leigan. En mér er sama, ég var að leigja 77 fm í Hafnarfirði á 95000 og borgaði líka leikskólagjöld fyrir strákinn, einstæð og í fæðingarorlofi...enda var ekkert eftir. Þetta er hræðilega sorglegt að lesa að 3 fjölskyldur séu að missa eignir sínar í nauðungaruppboð og það þarf einmitt enginn að segja okkur að allt þetta sé fólk með fjármálakæruleysi. Finnst þetta frekar kæruleysi hjá yfirvöldum að gera ekki neitt í málunum þegar þeir horfa upp á svona fréttir! En þeim er sjálfsagt sama því þeir hafa nóg af launum og eru sjálfsagt ekki að missa sínar eignir

Hafið það annars gott í Svíþjóð,

Kveðja frá Herning í Danmörku, Guðrún H

Guðrún í Danmörku (ókunnug) (IP-tala skráð) 6.10.2007 kl. 20:46

2 identicon

glæsilegt hjá þér endilega skrifa þeim þetta beint eða ég vil nú bara fá þetta dæmi hjá þér á forsíður blaðana takk fyrir..

bestu kveðjur

Ásta

p.s á eftir að flytja sem fyrst úr landi..

Ásta Salný Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 00:26

3 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Þetta er frábær samantekt hjá þér og þessi pistill þyrfti að komast í blöðin.  Það er blóðugt hvernig bankar og lánastofnanir fara með okkur hérna og enginn gerir neitt eða virðist geta gert neitt.

Það væri langbest kannski að allir hættu að skipta við bankana en fæstir gætu það vegna þess að langflestir hérna skulda þeim slatta. 

Margrét St Hafsteinsdóttir, 7.10.2007 kl. 14:30

4 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Takk fyrir athugasemdirnar. 

Það sem mér þykir verst af öllu er hvað fólk er almennt blint á þetta ástand.  Ég hef oft reynt að ræða þetta við fólk heima á Íslandi en það ypptir bara öxlum, segir: ,,svona er þetta bara - hverju get ég breytt?" og málið er dautt.  Þeir sem minnst mega sín (og eru þarmeð með hæstu greiðslubyrðina) hafa ekki trú á því að þeir geti breytt einhverju.

Það breytist auðvitað ekkert á meðan almenningur þegir þunnu hljóði og lætur þetta bara yfir sig ganga.  Við - fólkið í landinu - verðum að minna þá sem stjórna landinu á það að þeir vinna FYRIR OKKUR!  Eru kosnir af okkur og eiga að gæta hagsmuna ALLRA landsmanna, ekki bara fjármagnseigenda og auðmanna.

Hætta að skipta við bankana segir þú, Margrét.  Já, af hverju ekki!  Af hverju ætti banki í Skandinavíu ekki að sjá sér hag í því að fá alla íslensku þjóðina í viðskipti!  Danir eru svolítið móðgaðir út í okkur af því að íslenskir auðhringir eru að kaupa upp hálfa Danmörku.  Þeir vilja kannski hefna sín?   Hvað myndu íslensku bankarnir gera ef allir sameinuðust um að hætta að borga af glæpalánunum sínum samtímis?  Hvernig stendur á því að íslensk húsnæðislán Kaupþings banka eru verðtryggð með minnst 5,95% vöxtum en í Svíþjóð býður sami banki óverðtryggð lán með 5,15% vöxtum!

Nei, það þarf vakningu meðal almennings og fá fólk til að bregðast við og knýja á um breytingar.  Talið um þetta við vini og vandamenn, látið fólk gera sína eigin útreikninga og sjáið með eigin augum hvað verið er að fara illa með ykkur!

Aðalheiður Haraldsdóttir, 10.10.2007 kl. 08:12

5 identicon

Hæ Heiða mín,

 þetta er FRÁBÆR færsla hjá þér! Ég hvet þig til að senda þetta til t.d. morgunblaðsins sem lesendabréf t.d. Ég er handviss um að meiri hluti íslensku þjóðarinnar myndi sitja og æpa "heyr heyr! Loksins einhver manneskja með viti!" við lestur greinarinnar.

 Kveðjur frá Köben, RG og co.

Ragnhildur (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband