20.10.2007 | 10:43
ÞAÐ ER LEIKUR AÐ LÆRA!
Héðan úr Svíaríki er allt gott að frétta. Nú er annarri vikunni minni í fjarnáminu að ljúka og gengur bara vel. Ég ætla að taka smátíma í dag til að klára verkefni vikunnar sem ég á að skila á morgun.
Óli er að vinna, aldregi þessu vant á laugardegi! Húsin sem þeir hjá Ottosson Bygg hafa verið að byggja í vetur eiga að skilast 1. nóvember svo að það er verið að leggja lokahönd á verkið. Svo er hann nú kominn í þriðju hljómsveitina þannig að það er engin hætta á að honum leiðist!
Allt gengur vel hjá stelpunum. Diljá er hæstánægð á leikskólanum og fékk meira að segja að fara heim með vinkonu sinni, sem heitir Kajsa, um daginn. Það var mikið fjör!
Sesselja er auðvitað alltaf á fullu með krakkaskarann á eftir sér og gengur vel í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Blæs í horn, dansar og syngur.
Og Rebekka bara blómstrar! Nú um daginn fluttu hún og vinkonur hennar ljóð, sem Rebekka hafði samið um alla krakkana í bekknum sínum. Á sænsku!!! Það vakti mikla lukku á bekkjarkvöldinu. Sjá: http://www.blog.central.is/rebekka_d/index.php
Og kennararnir eru nú loksins búnir að átta sig á að Rebekka á ekkert erindi lengur í SVEN sem eru aukatímar fyrir þá sem gengur illa í sænsku og ensku. Þess í stað kom enskukennarinn hennar með þá tillögu að hún færi hraðar yfir í þýskunni. Hún byrjaði í þýsku í haust en þeir sem völdu sér þýsku sem annað erlenda tungumálið eru nú á þriðja árinu. Nú situr hún tíma með þeim líka og þegar hún verður búin að ná þeim fær hún að hoppa yfir í 3. árs þýskuna.
Haustið er komið í allri sinni dýrð. Skógurinn skartar nú haustlitunum, alls konar gulum, bleikum, rauðum og brúnum litum - ótrúlega fallegt. Veðrið er oftast stillt og milt og það er aðeins farið að vera næturfrost. Annars eru almennt ekki mikil átök í veðrinu hér.
Maður er svona farinn að leiða hugann aðeins að jólunum. Við erum strax farin að hlakka til að fara á jólamarkaðinn í Huseby, sem við fórum á í fyrra. Það verður örugglega ómissandi framvegis fyrir jólastemninguna. Maður fer kannski að huga að jólabakstri bráðum, þá er svona eitt og annað sem vantar að heiman sem ekki fæst hér, t.d. bökunardropar og lakkrískurl. Svo þarf að verða sér úti um hangikjköt og tilheyrandi!
Jæja, nú öskrar Diljá á mig úr baðinu! Best að klára að baða kroppinn og fara svo í nammileiðangur.
Hafið það öll sem allra best!
Athugasemdir
Hejsann.
Þegar þú kemur til stórborgarinnar get ég séð af fáeinum vanilludropum og möndludropum. Lakkrísinn er afturámóti erfiðari.
Begga
Gudrun Helgadottir (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 13:41
Mikið ofboðslega áttu duglegar stelpur ....... haha þó ég skilji reyndar ekki orð í ljóðinu
Ég er einmitt að reyna að peppa mig upp í að rífa mig og krílið upp með rótum og fara í nám í Danmörku svo mér finnst mjög gaman og uppörvandi að lesa bloggið þitt. Hafðu það gott.
Hulda Dagmar Magnúsdóttir, 20.10.2007 kl. 20:49
Dagin..
Var að skoða vefin og fann ekki bara íslendinga heldur hornfirðinga!!
AT LAST einkver sem fattar að maður hefur það ekki best í heminum á klakanum. Ég flutti að heiman fyrir 18 árum síðan og ekki hefur það breist. (Var að lesa færsluna þína "Hversu lengi") Systir mín og maðurinn hennar gávust upp á kerfinu í fyrra og fluttu út till Danmörku. Með fyritæki og þrjú börn. Mín spurning er hefur ísland efni á að allt þetta fólk fer að heiman. Allt um það.
þakir fyrir þorrablótið í stockhólmi
Rúnar Erlinsson Silfur
Runar Silfur (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 21:16
Takk fyrir dropana, stóra systir. Ég verð greinilega að fara að drífa mig til höfuðborgarinnar. Þeir hjá www.nammi.is redda svo bara lakkrísinum og hangikjötinu.
Hulda, það er um að gera að drífa sig! Það er mjög skemmtileg og þroskandi lífsreynsla að vera útlendingur - og það er ekki bara ég sem segi það heldur svo margir íslenskir útlendingar sem ég þekki. Go girl!
Aðalheiður Haraldsdóttir, 21.10.2007 kl. 16:43
Blessaður Rúnar og takk fyrir síðast! Það er væntanlega hún Þóra bekkjarsystir okkar Óla sem þú ert að tala um. Það væri nú gaman að komast í samband við hana. Gefðu henni endilega upp netfangið okkar hornsteinn@gmail.com og biddu hana að senda okkur línu! Það er meiningin að skreppa yfir til Danmerkur í haust einhvern tímann og það eru meira að segja fleiri bekkjarsystkini okkar sem búa þar!
Bestu kveðjur frá Växjö!
Aðalheiður Haraldsdóttir, 22.10.2007 kl. 17:27
Ég er svo stolt af frænkum mínum þremur, monta mig alltaf þegar ég get.... Gaman að sjá að það gengur svona vel hjá ykkur, og enn betra að sjá að þið séuð svona hamingjusöm. Ég held að þið skiljið núna bæði tvö betur af hverju ég er ennþá hér í Bandaríkjunum, þó svo að það er mikið öðruvísi hér en í Svíþjóð, samt sem áður þegar maður flytur frá Íslandi, þá sér maður að Ísland er ekki eina ríka, góða landið í heiminum, það eru aðrir valmöguleikar.
Ég get heldur ekki beðið eftir jólunum, en þarf að komast í gegnum eitt stykki Hrekkjarvöku partý, og eitt stykki Þakkargjörðarhátíð, og þá get ég byrjað á jólaundirbúningi. Svo vonandi eftir jólin, þá get ég leitt hugann aftur að brúðkaupinu mínu, sem er enn planað fyrir lok Júní 2008, ekki gleyma!!!!!
Bestu baráttukveðjur til þín í skólalærdóminn, og til Óla í hljómsveitarvinnuna, ekki þurfa frænkur mínar þrjár á baráttukveðjum að halda, en kannski að þú skellur nokkrum kossum á þær í staðinn, frá Berthu frænku í Ameríku
Bertha Sigmundsdóttir, 25.10.2007 kl. 04:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.