ÝSA VAR ÞAÐ HEILLIN...

Það er sól og blíða í dag, a.m.k. 20 stiga hiti og bærist ekki hár á höfði.  Við Diljá vorum að koma heim eftir að hafa heimsótt nýja leikskólann hennar sem er bara spölkorn frá skólanum hennar Rebekku.  Deildin hennar heitir Humlan og þar eru 18 börn á aldrinum 2-5 ára, þar af 3 önnur erlend börn.  Deildin er rúmgóð með risastóru samveruherbergi, litlu bílaherbergi, stóru dúkkuherbergi og einnig föndurherbergi fyrir utan matsal.  Á leikskólanum eru síðan 4 aðrar deildir svo að þarna myndu rúmast öll leikskólabörn á Hornafirði!  Á bakvið leikskólann er síðan skógurinn og þangað er farið í gönguferð með nesti í bakpoka einu sinni í viku.  Diljá ætlaði ekki að vilja koma heim aftur svo að þetta lofar allt mjög góðu og starfsfólkið er mjög indælt.

Eftir leikskólaheimsóknina skruppum við niður í bæ og vorum staddar í skóbúð þegar ég heyrði allt í einu talaða íslensku.  Þar var komin íslensk kona sem hefur búið hér í Växjö í 30 ár og sagði mér að íslenskar konur í Växjö héldu annað slagið konukvöld.  Þær hafa verið allt upp í 13 að hittast og stendur til að hafa eitt fljótlega svo að ég get farið að láta mér hlakka til.

Í kvöld verður síðan íslensk ýsa í kvöldmatinn sem við keyptum í gær af Íslendingum hér sem eru með fyrirtæki og fara um Danmörku og Svíþjóð og selja fisk, lambakjöt, sælgæti og lýsi!  Svo að það verður herleg veisla hjá okkur í kvöld!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband