20.9.2006 | 19:29
FAME! (Remember my name)
Það er nóg að gera þessa dagana. Diljá er byrjuð í aðlögun á leikskólanum og það lofar allt góðu. Rebekka er á sundæfingum 3 daga í viku, alls 5 klst. og syndir fleiri kílómetra í hvert skipti, þannig að hún verður komin í gott form á landsmótinu á Hornafirði næsta sumar. Hún var líka að fá inni í tónlistarskólanum hér eða ,,Kulturskolan" eins og hann heitir. Þar er kennd tónlist, leiklist, dans, og myndlist - svona ,,Fame"-fílingur.
Kulturskolan og fleiri skólar hér bjóða einmitt upp á "Fame"-námskeið fyrir börn og unglinga þar sem þau læra dans, söng og sviðsframkomu og setja síðan upp atriði úr söngleikjum. Afar spennandi.
Sesselja er í kór og byrjar í dansskóla á sunnudaginn. Hún fer í jassdans og hlakkar mikið til. Ég fór með henni á skátafund í gær. Krakkahópurinn labbaði sér inn í skóg með lukt, fann þar skógarrjóður og þar fóru þau í leiki, lærðu að hnýta skátahnút og setja upp vindskýli. Þeir sem ekki nenntu að fylgjast með tíndu bláber og títuber og æfðu skylmingar með trjágreinum.
Það var dálítið sérstök tilfinning að standa þarna inni í skóginum og sjá ekkert nema himinhá tré hvert sem litið var. Þetta var svosem í alfaraleið, annað slagið birtust skokkarar og maður heyrði allan tímann í bílaumferðinni, en ég þyrfti endilega að komast einhverja helgina út að sjó og geta horft aðeins í kringum mig. Séð lengra en að næsta tré. Það tekur smátíma fyrir Íslendinginn að venjast því.
Næsta þriðjudag byrja ég á sænskunámskeiði, á miðvikudaginn byrja ég að kenna á íslenskunámskeiði og á fimmtudaginn byrjar Óli síðan á sænskunámskeiði þannig að fjölskyldan hefur svo sannarlega nóg að gera.
Athugasemdir
Frábært! Það er gott að allir hafa nóg að gera og finna eitthvað við sitt hæfi. Gangi ykkur vel í sænskunáminu og þér að kenna íslenskuna (ætti svosem ekki að vefjast fyrir þér). Bestu kveðjur, Unnur og félagar.
Unnur (IP-tala skráð) 20.9.2006 kl. 22:52
Og nú er ég komin með titillagið úr Fame á heilann!!!!
Unnur (IP-tala skráð) 20.9.2006 kl. 22:55
Æðislegt að heyra að það sé nóg að gera hjá öllum. Heiða mín, ég þarf að fá þig í íslensku kennslu fyrir mín litlu kríli, sem að skilja fullt, en eiga erfitt með að tala. Gangi ykkur öllum vel með það sem er framundan. Ég skil alveg hvað þú meinar þegar þú talar um sjóinn, mér líður svona líka sjálfri, en get keyrt í 40 mínútur og er þá kominn niður að sjó, sakna alltaf að horfa á hafið fagra!!!Ástarkveðjur frá Kali
Bertha Sigmundsdóttir, 21.9.2006 kl. 16:48
Gaman að sjá hvað allt gengur vel hjá ykkur, og fínt að sjá að stelpurnar hafi nóg fyrir stafni. Það væri nú gaman ef við gætum hist einhvern tímann; við skulum endilega gera það við tækifæri.
Bestu kveðjur frá Köben
Ragnhildur og Hjörtur
Ragnhildur (IP-tala skráð) 28.9.2006 kl. 10:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.