NÓG AÐ GERA...

Jæja, kæru ættingjar og vinir.  Tíminn líður svo hratt alltaf í desember að ma-ma-ma maður bara áttar sig ekki á þessu!

Diljá varð 4 ára (loksins!!) þann 2. desember en við héldum upp á afmælið þann fyrsta af því að ég var að fara í skólann á afmælisdeginum hennar.  Fjölskyldan mætti auðvitað og svo ein íslensk stelpa sem er í íslenskutímum hjá mér og svo ein sænsk vinkona þeirra Diljár og Sesselju.  Hér er fyrsta helgin í aðventu mikil hátíð með jólaglögg, piparkökum og kirkjusókn svo að það gátu ekki allri komið sem við buðum í afmælið, en veislan var fín og Diljá var hæstánægð.  Við gáfum henni geislaspilara með tveimur míkrafónum svo að nú þarf hún ekki að fá lánað tækið hennar Sesselju og getur auk þess sungið með af hjartans lyst.  Hún er stundum í Singstar og þar er uppáhaldslagið hennar ,,The final countdown" með tilheyrandi höfuðhnykkjum!  Þannig að nú getur hún notið sín í botn.

Hún fékk litabók, liti, leirdót, spil, föt og bæði ryksugu og hrærivél, en heimilisstörf eru hennar líf og yndi!  Hún var semsagt hæstánægð með daginn og sofnaði með bros á vör!  Svo var nú ekki verra að pabbi hennar skyldi fara með þær systur í bíó á sjálfum afmælisdeginum!

3.-4. desember var ég síðan í skólanum í Eskilstuna og tók lestina þangað á sunnudeginum.  Það voru tveir stífir dagar og gott að komast heim aftur.  Nú er ég að æfa mig í bókunarkerfinu Amadeus (sem flestallar ferðaskrifstofur og flugfélög nota).  Sit við tölvuna daglega og pikka inn ímyndaða farþega og áfangastaði - bara gaman!  Ég er einmitt að fara að taka stöðupróf núna þegar ég er búin að skrifa þetta blogg.

Það er líka nóg að gera hjá eldri stelpunum.  Sesselja var að syngja í barnakórnum í kirkjunni á sunnudaginn í Lúsíumessu.  Við erum auðvitað búin að koma okkur upp Lúsíukyrtli, rauðum borða og ljósakórónu fyrir hana.  Á sjálfan Lúsíudaginn þann 13. desember á hún síðan að mæta í kirkjuna fyrir klukkan 7 um morguninn en þá er Lúsíuhátíð skólans.  14 desember á hún svo að spila á franska hornið sitt á nemendatónleikum.

Teleborg kastaliSesselja tók líka þátt í skemmtilegri sýningu um daginn.  Danskennarinn hennar er í listahópi sem fremur ýmsa gjörninga með eldi og hún bað nokkra krakka um að taka þátt í sýningu við Teleborg kastalann hér.  Þetta var eiginlega smá leiksýning tengd sögu kastalans og voru krakkarnir kyndilberar í upphafi sýningarinnar sem fór fram framan við kastalann, auðvitað í niðamyrkri.  Síðan var dansað við undileik miðaldatónlistar og léku dansararnir ýmsar kúnstir með kyndla og eldkúlur.  Mjög flott sýning, ekki síst í þessu ævintýralega umhverfi.

 

Rebekka er að spila 13 sinnum fram að jólum með lúðrasveitinni!  Þau voru ráðin til að spila fyrir utan stórmarkað í bænum.  Hún er líka búin að taka þátt í ,,Luciatåg" - eins og það er kallað.  Krakkar eru gjarnan fengin til að fara með Lúsíuskrúðgöngu um vinnustaði og elliheimili t.d. og fá í staðinn aur í ferðasjóð bekkjarins.  Rebekka fór ásamt nokkrum bekkjarfélögum sínum á elliheimili og sá um undirleik ásamt bekkjarbróður sínum - hún á flautu og hann á píanó.  Svo fer  hún orðið reglulega á unglingamessur á föstudagskvöldum þar sem er talað mál sem unglingarnir skilja og leikin skemmtileg tónlist.  Þessar messur taka yfirleitt um 3 klukkutíma og það koma 80-100 unglingar.  Hún er líka í kristilegum hóp í skólanum.  Þau hittast einu sinni í viku og ræða allt milli himins og jarðar.  Á morgun eru þau að fara að pakka inn biblíum sem þau dreifa til allra 7. bekkinga.  Það er ekki hefðbundin biblía heldur er hún líka á máli sem krakkarnir skilja, boðskapurinn er auðvitað hinn sami.  Svo að það má segja að hún hafi tekið fermingarheitið sitt í sumar hátíðlega - enda á það líka að vera þannig.

Nú, svo bíðum við bara eftir jólunum.  Búin að fá bæði malt og kæsta skötu í hús og erum að fara að baka laufabrauð í Målilla um næstu helgi.  Rebekka er búin að baka spesíur og ég er að fara að hella mér í smákökubakstur í vikunni.  Set bara íslensku jólaplöturnar undir geislann enda ekki mikið spilað af jólalögum í útvarpinu hér.

Það sem ég sakna helst, eins og í fyrra, eru skreytingarnar.  Það er jú fallega skreytt í miðbænum og jólatré út um allt enda hæg heimatökin.  En fólk skreytir eiginlega ekkert utanhúss heima hjá sér eins og á Íslandi.  Stöku runni er jú með hvítri seríu og örfáar svalir.  Annars ekkert.  Ég er alvarlega að spá í að spyrja hann Ödda Tobba á Jólabrautinni á Hornafirði hvort hann geti ekki komið hingað og haldið námskeið í utanhússjólaskreytingum - það er of dimmt hérna fyrir minn smekk!  En við bætum okkur það bara upp með því að skella seríum í alla glugga hjá okkur og höfum það notalegt.

Jæja, elskurnar.  Hafið það notalegt á aðventunni og ekki tapa ykkur í stressi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Greinilega frábært unglingastarfið hjá ykkur. Til hamingju með þá 4 ára.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 02:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband