ÉG VIL GETA VAXIÐ EINS OG TRÉ...

Jæja, gott fólk.  Það hefur verið nóg að gera.  Það er svo mikið að gera hjá stelpunum og svo námskeiðin hjá okkur Óla þannig að það er heilmikið púsluspil að láta þetta allt saman ganga upp - en það tekst.

Pabbi, Irene og Maria komu í dag og buðu okkur upp á innflutningskaffi.  Það klikkar aldrei heimabaksturinn hjá henni Irene!

Sesselja fer í annan tímann í jassdansinum á morgun - það er alveg rosalega gaman í því hjá henni.  Í fyrramálið á síðan kórinn hennar að syngja við messu í kirkjunni hér og hún er búin að vera dugleg að æfa sig heima til að læra textana.  Hún er orðin mjög dugleg í sænskunni og á margar vinkonur í bekknum sínum.

Rebekka er komin í tónlistarskólann og lúðrasveit sem hún segir að sé ,,ógeðslega flott".  Hún deilir nú flaututíma með annarri stelpu og þannig fá þær helmingi lengri tíma.  Um næstu helgi fer hún í fermingarfræðslu.  Tekur lest á föstudagsmorguninn, alein, til Gautaborgar þar sem presturinn tekur á móti henni.  Síðan eyðir hún helginni í fræðslu og skemmtun rétt utan við Gautaborg, ásamt 13 öðrum krökkum sem búa hér í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.  Helgina eftir ætla síðan stelpurnar í bekknum hennar að hafa stelpukvöld heima hjá einni þeirra, svona til að kynnast betur, og Rebekka hlakkar til þess.  Ég fór á kennarafund í skólanum hennar í vikunni og umsjónarkennarinn hennar segir bara að hún sé ótrúleg!  Mjög dugleg og komin langlengst í stærðfræði.  Hún þarf að fá námsefni næsta bekkjar fyrir ofan í stærðfræði og miklu erfiðara efni í ensku.  Hún á ekki í nokkrum vandræðum með þetta þó að tungumálið sé annað!

Diljá fékk einhverja pest í sig seinnipartinn á þriðjudeginum en var búin að hrista hana af sér á fimmtudeginum.  Þann dag fórum við hins vegar með Sesselju í eftirlit á spítalann hér í Växjö útaf vaxtarhormóninu.  Það gengur mjög vel, stelpan hefur stækkað um rúma 6 sm síðustu 6 mánuði og kúrfan hennar, sem áður fór sífellt lækkandi, tekur nú nánast lóðrétta stefnu upp á við.

Diljá er alltaf spræk og ef hún verður ekki kokkur. matreiðslubókahöfundur eða eitthvað annað sem tengist mat - þá verð ég illa svikin.  Henni finnst alltaf jafn gott að borða og henni þykir ekkert skemmtilegra en að þykjast elda mat.  Á leikskólanum er til eldavél með vaski og öllum græjum og hún getur ekki farið heim af leikskólanum fyrr en hún er búin að vaska upp!!  Hún er líka mjög spennt fyrir öllu í eldhúsinu og tekur virkan þátt í að taka úr uppþvottavélinni og leggja á borð.  Hún þarf líka alltaf að fá að kíkja í pottana og segir þá:  ,,Mmmm, þetta lyktar vel, mamma!"  Rétt í þessu var hún að hjálpa mér að gera Royal-búðing sem við tókum með frá Íslandi.  Stelpurnar elska hann en birgðirnar eru nú rétt að klárast.  Svo er eitt enn - þegar Diljá teiknar - þá teiknar hún mat!  Einkum og sér í lagi hamborgara og McDonalds.  Nú er hún að væla í mér að fá að borða og verð ég víst að fara að gera eitthvað í því.

Ég er búin að kenna á íslenskunámskeiði 1 tíma og það var bara gaman.  Óli er síðan byrjaður á sænskunámskeiði þar sem hann var bestur í bekknum.  Þetta er ótrúlega fljótt að koma.

Okkur finnst ekkert haust komið ennþá.  Í dag var 21 stiga hiti en skýjað.  Við Diljá fórum út á róluvöllinn seinnipartinn í gær í steikjandi sól, bara á stuttermabolunum.  Þetta er ótrúlega ljúft líf.  Nú er bara spurningin:  Hver ætlar að verða fyrstur til að heimsækja okkur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband