1.10.2006 | 16:25
KIRKJUFERÐ
Jæja, þá er maður búinn að fara í messu í sænsku kirkjunni. Kórinn sem Sesselja er í sá um sönginn við messu í morgun sem var tileinkuð englum. Ég var alveg hissa hvað hún kunni eftir bara 4 kóræfingar. Þetta var ekki svo frábrugðið hefðbundinni íslenskri fjölskyldumessu. Það var líka skírð lítil stúlka, Nora litla. Guðmóðir hennar hélt á henni og presturinn spurði foreldrana um nafn stúlkunnar. Síðan hjálpuðu tvær litlar frænkur prestinum að hella vígðu vatni í skírnarfontinn og presturinn spurði foreldrana hvort það væri vilji þeirra að skíra barnið inn í kristið samfélag. Játtu þau því og þá tók presturinn Noru í fangið og jós hana vatni. Að því loknu lyfti hann henni hátt upp svo að allir sæju og kynnti Noru fyrir kirkjugestum. Síðan gekk hann með hana fram í kirkjuna og leyfði börnunum í kórnum að skoða hana.
Eftir messuna var ,,englakaffi" í safnaðarheimilinu. Ægilega fínar marenstertur, dúkuð borð og fínerí og þéttskipaður salurinn. Presturinn settist hjá okkur Sesselju og sagði mér að það væri alltaf kirkjukaffi á eftir messu á hverjum sunnudegi. Í lok messunnar var einnig beðið um fjárframlög til að styrkja eitthvert gott málefni og stóð kona með söfnunarbauk þegar fólk gekk út úr kirkjunni. Þetta hef ég ekki séð nema einu sinni áður og það var í kaþólsku kirkjunni heima á Íslandi.
Eftir hádegið fór ég með Sesselju í dansskólann og Óli fór með Rebekku og Diljá á listasafnið þar sem Rebekka átti að gera smá verkefni fyrir skólann. Við hittumst síðan í miðbænum og röltum um og fórum í Linnépark, sem er grasagarður Växjöbúa, áður en við komum heim og héldum áfram að slappa af - nema Rebekka, sem er að baka smákökur!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.