12.2.2008 | 23:41
Í skólanum, í skólanum...
Jæja, ég var svona nokkurn veginn að detta inn úr dyrunum eftir að hafa verið í skólanum uppi í Eskilstuna í tvo daga núna. Mikið var gott að koma heim! Óli búinn að kveikja á fullt af kertum eins og hann gerir alltaf þegar ég er búin að vera í burtu. Þetta var í síðasta skipti fyrir prófið sem hópurinn hittist og ekki laust við að það væri smá skjálfti í sumum Námsefnið eftir jól hefur ekki verið neitt léttmeti en nú er þetta allt að smella saman í kollinum á mér. Lokaspretturinn eftir - rifja upp námsefnið frá því fyrir jól, klára að læra 200 skammstafanir fyrir flugvelli um allan heim og allar skipanirnar í Amadeus forritinu - já og svo allt hitt líka! Prófið verður í Stokkhólmi 11. mars og ég er ákveðin í að rúlla því upp!
Það er alltaf gaman að koma í skólann og hitta hópinn. Konurnar tvær sem eru með mér í vinnuhóp eru greindar og skemmtilegar konur, önnur frá Tyrklandi og hin frá Filippseyjum. Við gistum alltaf á sama gistiheimili ásamt tveimur öðrum stelpum af námskeiðinu, sænskum strák og miðaldra Indverja, Mohinder, sem er dálítið sérstakur kall. Hann notar hvert tækifæri til að segja samnemendum frá afrekum sínum: hann er stjörnuspekingur - les í lófa, gerir stjörnukort og les út úr nöfnum, leikari - hefur leikið í fjöldamörgum indverskum leikritum og kvikmyndum og tveimur sænskum líka. Önnur þeirra verður frumsýnd núna eftir nokkra daga og þar er hann m.a.s. með nokkrar línur! Og það er varla til sú íþrótt sem hann hefur ekki spilað en mestum árangri hefur hann samt náð í krikket. Varð Svíþjóðarmeistari með sínu liði en gekk ekki sem best á Evrópumótinu. Hann er búinn að vinna við tölvuforritun í 25 ár með rosalega góð laun en er orðinn leiður á því og ætlar að stofna ferðaskrifstofu eftir námið. Annars er gaman að spjalla við hann þegar hann er búinn að koma þessum upplýsingum öllum frá sér og indæliskall, ég hef forvitnast aðeins um indverska heimspeki, hindúisma og sanskrít, en hann er fróður um tungumál sem eru eitt af mínum aðaláhugamálum.
Ef ég ákvæði að skipta um trú myndi ég annað hvort gerast búddisti eða hindúi. Af hverju? Hafið þið einhvern tímann heyrt um ofsatrúarhópa út frá þessum trúarbrögðum eða stríð og glæpi sem þau hafa réttlætt? Spáið aðeins í þetta.
Svo var þarna ung kona, Joanna, sem ég hef ekki hitt áður þar sem hún hefur verið í öðrum hóp en er að fara að taka prófið samtímis mér. Hún leitaði mig eiginlega uppi því að hún vinnur nefnilega á ferðaskrifstofunni hér í Växjö sem ég er að fara í starfsþjálfun hjá. Við vorum samferða heim í lestinni, ásamt nokkrum fleirum, og hún gat frætt okkur heilmikið um það hvernig það síðan er að vinna við þetta. Og hún hafði bara gott eitt um það að segja, segir að þetta sé rosalega gaman! Mér heyrist á henni að launin séu bara nokkuð góð og síðan er bónuskerfi líka, ódýrar ferðir (stundum ókeypis) og síðast en ekki síst - góður vinnumórall á staðnum
Reyndar býr hún drjúgan spöl héðan og tekur lest á milli á hverjum degi. Hún skilur tæplega 4 ára son sinn eftir á leikskólanum kl. 6:00 (!!!) og er síðan 1,5 tíma í lestinni. Vinnur frá 9-18 og er komin heim hálftíu á kvöldin og þá er litli strákurinn hennar auðvitað sofnaður! Maðurinn hennar er kokkur en vinnur við að smíða kafbáta fyrir Kínverja og fleiri og sækir strákinn þeirra kl. 16.
Það eru margir hér sem leggja svona mikið á sig til að fá vinnu, fólk ferðast allt upp í tvo tíma á milli hvora leið bara ef það fær vinnu við sitt hæfi. Maður einnar konu sem ég þekki og er þýskukennari á menntaskólastigi, fékk enga vinnu hér í bænum og fór að heiman á mánudagsmorgnum og kom heim á fimmtudagskvöldum sl. 2 vetur. Nú í haust fékk hann svo loksins vinnu hér og varð mikil hamingja hjá fjölskyldunni.
Við megum aldrei gleyma að þakka fyrir það sem við höfum. Að hafa fasta vinnu sem við getum mætt í á hverjum degi án þess að þurfa að vera fjarri heimilinu og fjölskyldunni er ómetanlegt. En við verðum líka að reyna að gæta þess að vinna til að lifa en lifa ekki til þess eins að vinna. Ég vona bara svo heitt og innilega að ég fái vinnu hjá Resia eftir starfsþjálfunina! Ég skal og ætla!!! En þið megið samt alveg senda mér góða strauma - ég get alveg sagt ykkur að það virkar
Athugasemdir
Elsku besta Heiða mín, ég veit að þú átt eftir að standa þig vel í prófinu, og einnig í starfsþjálfuninni, það er bara ekki spurning, því að þú ert svo rosalega dugleg, elskan. Ég skal sko senda þér alla þá jákvæðu og góðu strauma sem ég hef, þannig að ef þér líkar vel í starfsþjálfuninni, þá færðu stöðu þar, ég veit það bara. Það er rosalega gaman að sjá hversu rómó Óli Kalli er orðinn, mér finnst þetta bara frábært!!!!!
Alltaf jafn gaman að lesa um ævintýri ykkar í Sverige, og mikið er hún Sesselja mín nú flott ballerína, skilaðu því til hennar frá mér. Hvernig fór annars með bílinn? Var þetta rétt nafn á þessu stykki? Ég er búin að vera mikið þreytt undanfarið, þannig að ég missti af ykkur nokkrum sinnum þegar þið hringduð, endilega sendu mér tölvupóst eða hringið aftur, svo að ég geti aðstoðað ykkur við þetta, ef ég get...
Farið vel með ykkur í bili, kossar og knús á alla línuna, ég sakna ykkar allra. Við erum enn óákveðin með dagsetninguna, en ég býst við núna að brúðkaupið verði um miðjan Júlí, útskýri nánar á blogginu mínu, Heyrumst fljótlega, farið vel með ykkur, bið að heilsa.....
Bertha Sigmundsdóttir, 14.2.2008 kl. 07:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.