9.10.2006 | 20:47
X-TREME ROOM MAKEOVER
Við komum Rebekku heldur betur á óvart þegar hún kom heim úr fermingarbúðunum. Á laugardeginum leigðum við nefnilega sendibíl og héldum til IKEA. Þar keyptum við bókahillur, rúmteppi, lampa, blóm o.fl. inn í herbergið hennar og vorum svo búin að gera ægilega fínt þegar hún kom heim og hengja upp myndir og nýjar gardínur. Við biðum spennt eftir viðbrögðunum þegar hún opnaði dyrnar - en þeir sem þekkja Rebekku vita að hún tekur hlutunum með MJÖG MIKILLI stóískri ró. Það var ekkert öskrað, æpt eða hoppað upp í loftið. Það kom hvorki hik né fát á hana, hún hélt bara áfram inn í herbergið, leit í kringum sig, sneri sér svo við eitt sólskinsbros og gekk aftur út úr herberginu og faðmaði okkur. Hún var mjög ánægð með þetta allt saman, sérstaklega það að eiga blóm, og vill engu breyta af því sem ég gerði. NB: Hún var búin að velja sér mublurnar úr IKEA listanum, þannig að hún fékk það sem hún vildi inn í herbergið sitt.
Nú hlakkar hún til að fara að bjóða vinkonum sínum heim. Hún er búin að eignast nýja vinkonu utan bekkjarins en þær eru saman í myndmenntavali. Hún ætlar að reyna að koma hingað heim með Rebekku eftir skóla á föstudaginn, en hún býr utan við bæinn og þarf fyrst að athuga hvernig strætóferðirnar eru.
Hún skemmti sér annars vel í fermingarbúðunum og les nú af kappi í Nýja testamentinu - tekur fermingarundirbúninginn með trompi eins og flest annað. Og nú segjum við bara amen eftir efninu.
Athugasemdir
Úbs.... frænka þín er ekki eins skemmtileg. Hún er búin að taka þá staðföstu ákvörðun að hún ætli ekki að fermast og mætir ekki í fermingafræðslu í skólanum.
Ég hefði þá reynt að njóta þess betur að ferma síðasta barnið mitt, hann bróðir hennar, fyrir sex árum síðan ef ég hefði vitað þetta.....
Kossar og knús
Elín Helgadóttir, 10.10.2006 kl. 19:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.