19.3.2008 | 19:23
Á FERÐ OG FLUGI!
Jæja, gott fólk. Maður er svona rétt að komast niður á jörðina aftur eftir prófið í Stokkhólmi. Mér fannst ég svona 100 kg léttari þegar þetta var búið, svo mikill var léttirinn (ég er ekki 100 kg sko). Fyrri hlutinn gekk alveg ágætlega og sá seinni alveg stórvel! Þetta voru semsagt tvö þriggja tíma próf og veitti sko ekki af tímanum - þetta var alls ekki auðvelt! Nú er bara að bíða til 16. maí eftir niðurstöðunum - ég er örugg á svona 90% í seinni hlutanum og vona að ég lendi réttu megin við 70 prósentin í þeim fyrri.
Takk, elskurnar, fyrir að senda mér alla ykkar hlýju strauma og kveðjur! Það virkaði pottþétt!
Það var dálítið fyndið að þegar ég flaug aftur heim var aftur svona stór þota, svona u.þ.b. 200 farþega. Þá var ég samferða stelpu af námskeiðinu og spurði hana hvort það væru alltaf svona stórar flugvélar milli Stokkhólms og Växjö. ,,Já", sagði hún en horfði samt á mig eins og hún skildi ekki alveg spurninguna. Svarið fékk ég skömmu síðar. Þegar vélin var að fara að taka loft, fór hún öll á ið, leit svo óttaslegin á mig og sagði: ,,Mér er alltaf svo illa við að fljúga með svona litlum flugvélum!" Enn og aftur: Svíar vita ekki hvað þeir hafa það gott!
Það var ekki lítið notalegt að koma aftur heim. Óli og stelpurnar voru alveg svakalega dugleg meðan ég var að heiman og það var allt hreint og snyrtilegt. Kveikt á kertum um alla íbúð og ég fékk geisladiskinn með Magnúsi Ugglu sem mig hafði langað svo í, í eldhúsinu biðu blóm frá stelpunum mínum, í stofunni ostabakki og fleiri kræsingar og svo toppaði Óli allt saman með því að draga fram konfektkassa með hjartalaga molum. Getur lífið orðið öllu betra?
Þessa vikuna hefur verið svolítill vetur og snjór en milt veður samt. Systursonur hans Óla hefur verið hjá okkur síðustu daga en hann er í lýðháskóla í Noregi. Hér hefst páskafríið á föstudaginn langa og svo er frí í skólunum vikuna eftir páska. Í lok hennar förum við svo til Stokkhólms til að fara á tónleika með EAGLES í Globen. Munið þið ekki eftir ,,Hotel California"? Það verður ekki amalegt! Þar á eftir tekur síðasta törnin í skólanum við, fjórir dagar í Eskilstuna. Þá ætla ég að gista hjá Beggu í Stokkhólmi, það tekur klukkutíma á milli, og Begga ætlar að leyfa Diljá að koma með sér í vinnuna á leikskólanum sínum til að létta undir með Óla. Það verður sko ekki leiðinlegt hjá minni, Begga vinnur nefnilega á útileikskóla þar sem krakkarnir eru úti mest allan daginn. Síðan þegar við Diljá komum heim aftur byrja ég í starfsþjálfuninni og vonandi, vonandi, VONANDI fæ ég síðan vinnu hjá þeim! Jú, ég bæði get og vil - ætla og SKAL!
GLEÐILEGA PÁSKA, ELSKURNAR!! PUSS OCH KRAM! (Pústrar og kremjur.....nei, bara að grínast, það þýðir KOSSAR OG KNÚS!)
Athugasemdir
Til hamingju með þetta allt saman og gleðilega páska til ykkar allra frá okkur í DK Svava og Siggi
Svava Bjarna (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 09:30
Gleðilega páska
Hulda Dagmar Magnúsdóttir, 23.3.2008 kl. 00:19
Hæ, hæ, og til hamingju með prófið. Ég er ekki í vafa um að þú hefur brillerað á því eins og öðru sem þú tekur þér fyrir hendur.
Hafið það nú gott öll sömul
Kv.
Gulla og co
Guðlaug Úlfarsdóttir, 26.3.2008 kl. 17:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.