* * * TREVLIG HELG * * *

Hmmm....  Ég var búin að velta ýmsum fyrirsögnum fyrir mér, t.d. Brúnaðar kartöflur og blues!" eða ,,Pabbi, mamma, börn og bíll", nú eða þá ,,Lok, lok og læs og allt í stáli" eða jafnvel ,,Busl og blástur" en ekkert eitt af þessu náði yfir allt það skemmtilega sem helgin hafði upp á að bjóða þannig að til að einfalda þetta ákvað ég bara að skella titlinum ,,Trevlig helg" eða ,,Góð helgi" hér á síðuna.

1. KAFLI - PABBI, MAMMA, BÖRN OG BÍLL

Þannig var að við vorum búin að vera að skoða bíla á netinu og fundum einn alveg eins og þann sem við EIGUM á Íslandi (ef einhvern vantar frábæran fjölskyldu- og ferðabíl, endilega hafið samband), meira að segja sami græni liturinn.  En Diljá tók nú aldrei neitt annað í mál en að kaupa bláan bíl.  Um síðustu helgi fórum við síðan og prófuðum græna bílinn en þá var óvart annar blár bíll sem var bara miklu betri og við ákváðum að kaupa hann.  Skyldi Diljá vera forspá??

2. KAFLI - BRÚNAÐAR KARTÖFLUR OG BLUES

Síðan vorum við búin að bjóða pabba, Irene og Maríu í mat núna á laugardagskvöldinu, kjúklingur og brúnaðar kartöflur skyldu það vera en það er nokkuð sem Svíar þekkja ekki á sínum matborðum (sko, brúnuðu kartöflurnar).  María var semsagt að smakka slíkt gómsæti í fyrsta sinn og pabbi í fyrsta sinn í 30 ár.  En fyrst fórum við og sóttum sóttum bláa bílinn HlæjandiHlæjandiHlæjandiHlæjandiHlæjandi sem er Ford Windstar, 7 manna, ekkert ósvipaður þeim sem við áttum.  Begga hafði svo hringt um morguninn og spurt hvort þau Steinar mættu koma í kvöldmat.  Nú - ÞVÍ FLEIRI ÞVÍ BETRA - og nú var gott að geta KEYRT í stórmarkaðinn og kaupa meiri kjúkling og kartöflur!!

3. KAFLI - LOK LOK OG LÆS OG ALLT Í STÁLI!

Begga og Steinar komu sko ekki tómhent því að þau höfðu arfleitt okkur að heimsins besta kúrusófa (þessi blái sem var í Hafnarfirðinum!).  Þetta er risastór hornsófi og kemur í nokkrum pörtum en við erum svo heppin (þar sem við erum á 3. hæð) að búa í lyftuhúsi.  Það fór þó ekki betur en svo að í fyrstu lyftuferðinni, festist Óli með 2 hluta af sófanum á 2. hæð og komst hvorki upp né niður - hvað þá út!  Það var ekkert um annað að ræða fyrir hann en ýta á neyðarhnappinn og bíða eftir viðgerðarmanni.  Um tíma leit út fyrir að ekkert yrði af brúnuðu kartöflunum (það er sko Óli sem er meistarinn á heimilinu í því) en fyrir rest tókst að ná honum út úr lyftunni en síðan varð að bera sófann upp.  Og lyftan er ennþá biluð!

En við áttum frábæra kvöldstund með næstum því öllum sem við þekkjum hér í Svíþjóð!  Og kúrðum svo makindalega í sófanum um kvöldið.

4. KAFLI - BUSL OG BLÁSTUR

Í gær (sunnudagur) var síðan nóg að gera.  Ég er búin að fara á námskeið hjá sundfélaginu hennar Rebekku til að geta verið tímavörður, brautavörður o.þ.h. á sundmótum.  Ég þarf síðan að taka 6 klst. verklegt til að fá skírteini og í gær var einmitt sundmót hér og ég tók 3 klst. ,,praktik".  Það var mjög gaman en ansi stíft.  Þetta var stórt mót fyrir 12-16 ára krakka og tóku 17 félög úr öllum Smálöndunum þátt.  Þetta var a.m.k. jafnstórt mót og sundið á unglingalandsmótinu í Vík í fyrra!  Laugin hér er ein sú flottasta í Svíþjóð og öll aðstaða er frábær.  En það var 30 stiga hiti þarna inni allan tímann!

En meðan ég fylgdist með busluganginum í lauginni var Óli með Rebekku og stelpunum í menntaskóla úti í bæ á ársfundi sambands lúðrasveita hér í bæ.  Þar tróð Rebekka upp með lúðrasveitinni sinni og Óli sagði að þetta hefði verið alveg ótrúlega flott.  Þetta er alvöru lúðrasveit sem ,,grúvar" og stelpur sem snúa sprotum (það fannst Sesselju æðislegt) OG ALLT!!  Þau spiluðu m.a. New York - New York og lagið úr Rocky og gerðu það án þess að ein feilnóta heyrðist!  Rebekka er líka mjög stolt af þessari flottu lúðrasveit!

Jæja, eins og þið sjáið var þetta afar viðburðarík helgi og skemmtileg!  Í dag er lóðrétt rigning og ekkert rok, en frekar blautt.  Á morgun er útivistardagur í skólanum hjá Sesselju, þau verða úti allan daginn og taka með sér nesti.  Vonandi rignir ekki eins mikið þá en það er nú hlýtt ennþá, 13 stiga hiti á daginn.  Kaldasti dagurinn sem hefur komið síðan við komum var núna fyrir stuttu, þá var 7 stiga hiti.

Og Diljá er farin að syngja á sænskuHlæjandi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband