4.4.2008 | 12:25
THE EAGLES!
Sunnudaginn 30. mars skelltum við Óli, Begga og Steinar okkur á tónleika í Globen í Stokkhólmi með engum öðrum en hljómsveitinni The Eagles. Þetta er í annað skiptið sem við förum í Globen, sáum Eric Clapton þar sumarið 2006, auk þess höfum við farið á marga tónleika heima á Íslandi en þessir slógu allt annað út!
Í endurminningunni hefur lagið Hotel California alltaf verið til enda var ég víst ekki nema 8 ára þegar það kom út. Og þegar The Eagles gáfu út sína fyrstu plötu með lögum eins og Take it easy og Peaceful easy feeling var undirrituð 4 ára gömul hnáta, jafngömul og Diljá mín er núna. Manni finnst það ótrúlegt þegar maður hlustar á þessi lög í dag, þau eru einhvern veginn tímalaus. Þetta er svo sannarlega klassískt rokk af bestu gerð!! Við Óli höfum talað um það hvað það verði gaman hjá okkar kynslóð þegar við komum á elliheimilið, þá verði ekki hlustað á harmonikkutónlist, bara rokk og ról!
Ég verð að viðurkenna að ég velti því fyrir mér fyrir tónleikana hversu vel hljómsveitinni myndi takast að koma sinni frábæru tónlist til skila. Eitt af því sem einkennir lögin þeirra eru raddsetningarnar og ég hugsaði með mér hvort þeir yrðu með fullt af bakraddasöngvurum, þar sem þar sem þeir eru nú allir orðnir sextugir, kapparnir, og hvort hið eina, sanna Eagles-sánd yrði ósvikið.
Því er skemmst frá að segja að ÞEIR VORU ÓSVIKNIR! Sungu allir eins og englar, spilamennskan var í hæsta klassa og hljómgæðin voru ótrúleg. Þetta var eins og að hlusta á plöturnar þeirra - bara betra! Þeir toppuðu sjálfa sig og áheyrendur fengu fyrir allan peninginn og meira til!
Þeir spiluðu öll sín þekktustu lög og nokkur af nýju plötunni líka, samtals í tæpa 3 klukkutíma. Þeir höfðu greinilega gaman af því sem þeir voru að gera, göntuðust og náðu góðu sambandi við áhorfendur. Maður hefur nefnilega stundum farið á tónleika þar sem manni líður eins og tónlistarmennirnir séu bara að vinna vinnuna sína, séu orðnir þreyttir á þessu og það vantar alla sál. Það er ekki skemmtilegt á svoleiðis tónleikum. Þarna fékk maður allt beint í æð, af hjarta og sál!
Hér má sjá heimasíðu hljómsveitarinnar: http://www.eaglesband.com/
Og hér er sýnishorn af tónleikunum í Globen sem ég fann á YouTube: http://www.youtube.com/watch?v=q3z_DWIfd8o
Athugasemdir
Greinilega góðir tónleikar
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 17:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.