AÐ SIGRA HEIMINN

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil

með spekingslegum svip og taka í nefið.

 

(Og allt með glöðu geði

er gjarna sett að veði.)

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið. 

Ég las þetta ljóð fyrst þegar ég var í menntaskóla og fannst það voða sniðugt en velti dýpri merkingu þess svosem ekki mikið fyrir mér.  Í miðnætursturtu í gærkvöldi fékk ég svo allt í einu hugljómun um það hvílík snilld þetta er og mikill sannleikur!  (Ókey, nú hugsið þið sem svo - ,,Alltaf sami nördinn - meðan við hin syngjum hallærisleg og úrsér gengin eighties-lög í huganum í sturtunni, er Heiða að velta sér upp úr heimspekilegum atómljóðum!"  - Reyndar var ég bara að spekúlera í því hvaða efni ég gæti notað fyrir Svíana í íslenskukennslunni minni og þá kom þetta ljóð upp í hugann).  Jú, eru þeir ekki spekingslegir á svipinn, þeir sem völdin hafa, spila með líf annarra og þykjast menn að meiri að hafa sigrað heiminn.  Og það er svo sannarlega vitlaust gefið í þessum leik, því misskiptingin og óréttlætið er alls staðar, hvort sem litið er bara til litla landsins okkar eða heimsbyggðarinnar allrar.  Og þó að fólk leggi stundum allt að veði, uppsker það ekki alltaf eins og það sáir.  Þá er spurningin þessi:  Úr því að það er hvort sem er vitlaust gefið, er þá hægt að ,,sigra heiminn" án þess að hafa rangt við??

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég hef aldrei skilið ljóð... kennarinn minn skipaði mér að læra eitt ljóð og það var eitt ljóð of mikið... en flott hjá þér

Gunnar Helgi Eysteinsson, 11.11.2006 kl. 19:12

2 Smámynd: Hulda Dagmar Magnúsdóttir

Já Steinn Steinarr hefur alltaf rokkað

Hulda Dagmar Magnúsdóttir, 11.11.2006 kl. 20:55

3 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Þetta er flott ljóð og gaman að spá í merkinguna. Sumum finnst að sigra heiminn þýði að vera við völd, öðrum finnst að sigra heiminn þýði að koma börnunum sínum í gegnum college hérna í Ameríku. Stundum fær maður góða hendi í spilunum, en kann ekki að spila vel úr henni, og stundum er fólk bara með meiri heppni en aðrir. Ég trúi á að það sé hægt að sigra heiminn án þess að hafa rangt við, maður þarf kannski að spila fleiri hendur, en ég held að sigurinn sé miklu sætari ef maður hefur ekki rangt við...

Bertha Sigmundsdóttir, 12.11.2006 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband