KONUR ERU LÍKA MENN!

Ég held ég fari nú að endurskíra bloggsíðuna og kalla hana ,,Bloggsíðu Diljár" en það er bara svo margt skemmtilegt að gerast á þessum aldri sem gaman er að festa á blað.

Það nýjasta tengist salernisferðum.  Sú stutta er orðin afar dugleg að fara sjálf á klósettið - stundum heimtar hún að mamma komi með en þess á milli tilkynnir hún að hún vilji ,,fá að vera í friði" og lokar á eftir sér.  Ég rauk hins vegar upp til handa og fóta um daginn þegar hún kallaði í mig bak við luktar klósettdyrnar:  ,,Má ég pissa eins og pabbi?!!"  Já, hún er ekki alveg sátt við það þessa dagana að fá ekki að pissa standandi!

Annars gengur lífið sinn vanagang.  Ég fór í foreldraviðtal hjá Sesselju í síðustu viku.  Það var ósköp notalegt.  Við sátum inni í litlu, kósý herbergi þar sem voru tveir litlir sófar andspænis hvor öðrum og sófaborð á milli þeirra.  Síðan var kveikt á lampa og kertum og allt fullt af blómum svo að þetta var ægilega notalegt.  Það er skemmst frá því að segja að stelpan stendur sig mjög vel.  Hún er búin að læra ótrúlega mikla sænsku á þessum stutta tíma og ég skildi meira að segja ekki allt sem hún sagði við kennarann, enda talar hún eins og innfæddur Svíi.

Á sunnudaginn fór ég síðan í messu hér í Dómkirkjunni með Rebekku.  Það er auðvitað hluti af fermingarundirbúningnum að sækja messur en hún er alltaf á sundæfingum á sunnudagsmorgnum á hefðbundnum messutíma.  Svo sá ég auglýsta síðdegismessu, tónlistarmessu Taizé og dreif Rebekku af stað.  Ég velti því fyrir mér hver þessi Taizé væri og hvort þetta yrði kannski einvhers konar kammertónlist - en, nei - svo var nú ekki.  Þegar við Rebekka komum inn í þessa stóru, glæsilegu dómkirkju Óli og stelpurnar fyrir utan Dómkirkjuna í Växjö í sumar.tók ung kona með pönkaralega klippingu og í tjullpilsum (píanóleikarinn) á móti okkur, rétti okkur sálmabækur og sagði okkur að setjast á bak við altarið.  Það var búið að skerma það af og þar sátu svona 40 manns á bekkjum og stólum.  Svo kom eldri maður (sennilega meðhjálpari) og settist á gæruskinnsmottu á hækjur sér.  Að lokum kom presturinn á sokkaleistunum og gerði slíkt hið sama.  ,,Í hvað er ég nú komin með barnið?", hugsaði ég og velti því fyrir mér hvort þetta væri einhvers konar sértrúarsöfnuður!  En presturinn útskýrði að þetta messuform, taizé (það er semsagt ekki tónskáld), væri þannig að venjulega sætu allir á gólfinu (við máttum ráða hvort við gerðum það) og það væri mikið sungið, sálmarnir væru einfaldir og byggðu á endurtekningu til að ná nokkurs konar hugleiðsluástandi.  Svo byrjaði ballið!  Fyrsti sálmurinn var afar fallegur, rólegur og róandi - eins og allir sálmarnir, og var hver þeirra endurtekinn a.m.k. fjórum sinnum.  Síðan var þagnarstund, sem varði sjálfsagt um 5 mínútur, en að öðru leyti var þetta nokkuð hefðbundið, með prédikun og altarisgöngu.  Í fyrsta sálminum áttaði ég mig á því að flestir þeirra sem þarna sátu voru í kórnum (jú, því þau kunnu alla sálmana og sungu í röddum).  Annars var þetta afar ljúf stund og svo sannarlega róandi og endurnærandi fyrir sálina og Rebekku fannst þetta messuform voða notalegt.  Eftir messuna spurði ég prestinn nánar út í þetta og hann sagði þetta vera upprunnið í frönsku klaustri og þangað kæmi ungt fólk í þúsundatali alls staðar að úr heiminum til að vera við svona messur.  Já, maður er alltaf að læra eitthvað nýtt!

Annar er ég í fullu starfi þessa dagana við að leita mér að vinnu og vona að það fari að skila einhverjum árangri.  Sendið mér nú góða strauma!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband