15.11.2006 | 11:25
BARNAVAGNABÍÓ
Bíóið hér í Växjö hefur bryddað upp á þeirri nýjung að bjóða upp á mömmumorgna. Þá geta mæður í fæðingarorlofi komið í bíó kl. 10:00 að morgni með börnin með sér og séð vinsælustu myndirnar. Höfð er smáskíma í bíósalnum og hljóðstyrkurinn lægri en venjulega og börnin kúra ýmist í bílstólum eða mjúkum móðurfaðmi. Gert er hálftímahlé á sýningunni (venjulega er ekkert hlé í bíó hér í Svíþjóð) svo að mæðurnar geti sinnt börnunum. Boðið er upp á bleyjuskiptaaðstöðu og örbylgjuofn í öðrum bíósal, ásamt fjölbreyttu úrvali af barnamat, og í þriðja salnum geta mömmurnar síðan fengið sér kaffi og meðlæti. Mömmumorgnabíó kostar það sama og venjulegur bíómiði en bleyjur og veitingar fyrir mæður og börn eru innifaldar í miðaverðinu!
Nú nýlega var boðið upp á mömmumorgun í fimmta sinn í bíóinu og fara vinsældir þeirra ört vaxandi. Sýningar eru á þriggja vikna fresti og í fyrsta skiptið mættu 5 mæður en nú voru þær 60 talsins (ásamt nokkrum pöbbum) og íhuga forráðamenn kvikmyndahússins að fara að bjóða upp á myndir í fleiri sölum í einu. Mæðurnar eru himinlifandi yfir þessari tilbreytingu og bíóhúsin nýta annars steindauðan tíma.
Ekki svo galið!
Athugasemdir
Já þetta er sko ekki galið. Það er einmitt boðið uppá svona hér í Oakland, Kaliforníu, og mér finnst þetta alveg frábært. Oft hér þegar maður fer í bíó er fólk mætt með litlu börnin sín og þurfa svo að rjúka út af því að börnin eru byrjuð að væla. Svíarnir eru sko fínir, ég sé það alveg...
Bertha Sigmundsdóttir, 15.11.2006 kl. 16:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.