19.11.2006 | 11:26
JÓLAMARKAÐUR
Í gær fórum við á stærsta jólamarkað á Norðurlöndum í Huseby, gömlum herragarði 20 km hér fyrir sunnan. 150 aðilar kynna vörur sínar sem yfir 30 þúsund gestir skoða. Þetta var ótrúlega flott og mikil jólastemning. Sýningarbásar voru settir upp bæði utandyra og einnig í gömlum útihúsum og verksmiðjum, m.a. gamalli myllu og sögunarverksmiðju, þar sem sýnd voru jólatré sem send voru inn í keppni um flottustu skreytinguna. Þar var skólinn hennar Rebekku í 2. sæti! Landareignin er stór og meðfram öllum stígum voru upplýst jólatré, kyndlar og kerti og flóðlýsing inn á milli trjánna - sem eru auðvitað alls staðar. Við fórum seinni partinn til að njóta stemningarinnar þegar dimmdi og þetta var svo sannarlega jólalegt!
Þarna var fólk að kynna margs konar matvörur og það var hægt að smakka síld og osta, marsipan, reyktan kjúkling og strút og auðvitað alls konar pylsur, meðal annars villisvínspylsur, elgspylsur og hjartarpylsur. Þið getið sko trúað því að hún Diljá var í essinu sínu í smakkdeildinni! Þarna er líka boðið upp á ekta sænskt jólahlaðborð í hesthúsinu, en við ætlum að eiga það inni þar til á næsta ári.
Við sáum líka hvernig polkagris er búinn til, en það er rauði og hvíti brjóstsykurinn með piparmyntubragðinu sem er upprunalega héðan úr Smálöndunum. Það var mjög gaman að fylgjast með því og ekki síður gaman að fylgjast með Diljá sem var alveg dáleidd yfir þessu, klessti nebbann upp að glerinu og mátti ekki missa af neinu.
Svo var þarna auðvitað heilmikið af handverki, kerti, trévörur, gler og keramik, vefnaður, skartgripir, jólakort, jólaskraut og síðast en ekki síst, íslenskar ullarvörur. Við hittum þarna íslenska konu sem er búin að búa í Svíþjóð í 32 ár og lifir af því að selja íslenskar prjónavörur. Hún bauð okkur að koma í kaffi ef við ættum leið hjá (sem er í leiðinni til Stokkhólms) og allan tímann sem við töluðum við hana gengu prjónarnir á fullu, gott ef hún prjónaði ekki hálfa húfu á meðan!
Ef einhver vill komast í jólastemningu ætti hann bara að heimsækja okkur í nóvember á næsta ári og koma með til Huseby!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.