SITT LÍTIÐ AF HVERJU

Það er nú ekki hægt að segja að það sé kominn vetur hér, Svíarnir segja að það sé ekki kominn vetur fyrr en meðalhiti dagsins fer undir núllið 10 daga í röð.  Það kom smákuldakast um daginn en síðustu 2-3 vikur hefur mælirinn verið í plús, allt upp í 12-15 gráður.  Og verslanirnar auglýsa þessa dagana hreinlætisvörur fyrir HAUSThreingerninguna!  Við höfum fylgst með veðrinu heima og það verður að segjast eins og er að við öfundum ykkur ekki.  Einn nemenda minna á íslenskunámskeiðinu var á Íslandi í vikunni og fannst ægilega kalt og hvasst.  Hún sagðist alveg skilja af hverju ég væri hér en ekki þar.

Maður fær oft dálítið skondin viðbrögð þegar maður segist vera frá Íslandi.  Algengustu viðbrögðin eru:  ,,TUNGUR KNÍVUR" - landsfræg setning hér úr myndinni Hrafninn flýgur sem allir Svíar virðast þekkja.  Stundum virðist það líka vera það eina sem þær þekkja.  Margir eru mjög spenntir fyrir tungumálinu - gamla víkingamálinu - og finnst það vera fallegasta mál í heimi, ,,svo mjúkt" - segja þeir og biðja mann að segja eitthvað á íslensku.  Stundum sér maður harmonikku- eða fiðluleikara niðri í bæ að spila fyrir smápeninga.  Mér datt í hug að stilla mér upp á götuhorni og tala íslensku fyrir fólk gegn greiðslu!  Annars halda sumir Svíar að það sé nóg að setja -UR aftan við sænskuna og þá verði útkoman íslenska!  Eins og fiskUR, hestUR, hundUR.  Þetta finnst þeim voða fyndið. 

Fyndnustu viðbrögð sem ég hef fengið voru þó þegar ég var að sækja Sesselju í skólann annan skóladaginn hennar í ágúst sl.  Þar sem ég sat og beið eftir henni á bekk fyrir utan skólann hennar í sumarblíðunni, kom ein mamman, sem ég hafði að sjálfsögðu aldrei séð áður, askvaðandi til mín með eftirfarandi romsu:  ,,Ert þú mamma hennar Sesselju frá Íslandi?  Dóttir mín situr við hliðina á henni og hún vill endilega fá að leika við hana.  Maðurinn minn hefur oft komið til Íslands og ég ELSKA BJÖRK!!"  ,,Ja, hej", var það eina sem ég gat sagt meðan ég var að melta þetta.  Ellen, dóttir hennar, og Sesselja eru afar góðar vinkonur og hafa m.a. gist hvor hjá annarri.

Það er margt spennandi framundan.  Diljá telur auðvitað dagana fram að afmælinu sínu og veit að á eftir því koma svo jólin.  Sesselja er að fara í skátaútilegu um helgina - það verður gist í skátakofa úti í skógi, grillaðir sykurpúðar við arininn og eldaður hádegismatur yfir opnum eldi úti í skógi.  Svo er verið að æfa á fullu í skólanum hennar og kórnum fyrir Lúsíuhátíðina sem er 13. desember.  Það er mikil hátíð hér og ég skal segja ykkur nánar frá henni þegar þar að kemur.  Rebekka er að æfa jólalögin í lúðrasveitinni og á að spila dúett á smátónleikum á afmælisdaginn hennar Diljár, svona afmælistónleikar.  Nú - og svo er maður auðvitað að byrja að huga að jólunum, það styttist víst í þau.  Ótrúlegt að maður skuli vera búinn að vera hér í 5 mánuði!  Ég held að tíminn hafi aldrei liðið svona fljótt áður.

Það er nú viðbúið að heimþráin segi til sín um jólaleytið en ég vona að við verðum ekki mjög illa haldin.  Við höldum okkar hefðbundnu íslensku jól að sjálfsögðu, með öllu sem þeim tilheyrir, og svo erum við að hugsa um að vera hjá Beggu og Steinari um áramótin svo að það verður bara eins og í gamla daga!!  Eða eins og segir í kvæðinu:  Jólin, jólin - alls staðar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðlaug Úlfarsdóttir

Æ, já það er orðið rosalega langt síðan þið fluttuð og mér finnst það nú ekki hafa liðið neitt svakalega hratt.  Hinsvegar er ég nú bara að biðja afsökunar á því hvað ég hef verið löt að skirfa inn á síðuna hjá ykkur.  Við biðjum að heilsa og knúsaðu stelpurnar frá okkur.  ( Hvað viljið þið fá í jólapakka ? )

Guðlaug Úlfarsdóttir, 27.11.2006 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband