9.8.2008 | 18:02
MÚTTAN OG UNGLINGURINN MÆTTAR Á SVÆÐIÐ!
Mútta er mætt á svæðið í allri sinni dýrð! Við erum búin að hlakka mikið til að fá hana í heimsókn enda skemmtilegri manneskja vandfundin! Og svo endurheimtum við unglinginn um leið sem lóðsaði ömmu sína yfir hafið. Hún er alsæl eftir vistina á Íslandi í sumar, fannst gaman í vinnunni og auðvitað frábært að hitta alla vinina aftur! En mikið fannst okkur gott að fá hana aftur heim! Elsku Ragna, Heiðar, Anna, Elín og Nói - við þökkum kærlega fyrir vistina! Það er nú ekki hægt að eiga betri fósturfjölskyldu!
Múttan og unglingurinn komu með íslenskt nammi, harðfisk og Royal-búðing, svo að fátt eitt sé nefnt svo að það var mikil veisla.
Annars er ég bara búin að vera að vinna út í eitt, var að vinna í dag (laugardag) og fæ þá 4 tíma frí í staðinn næsta föstudag. Þá verða Bragi, Valdís og börn mætt á svæðið svo að það verður gott að geta nýtt sér fríið með þeim. Stelpurnar eru alveg að fara á límingunum af tilhlökkun og ég veit að það verða miklir fagnaðarfundir. Það spáir steikjandi hita og sól dagana sem þau verða hér og ég vona að það gangi eftir.
Hér er bæjarhátíð Växjöbúa í fullum gangi. Búið að vera tívolí í bænum alla helgina, tónleikar með sænskum stórstjörnum og alls kyns uppákomur. Sesselja og Diljá voru að syngja í SingStar í bænum í morgun og stóðu sig mjög vel. Þær misstu reyndar af SingStar keppninni sem var í gær en miðað við úrslitin hefði Sesselja rúllað þeirri keppni upp. Sesselja er með vinkonu sinni í bænum einmitt núna að hlusta á barnastjörnuna Amy Diamond og Óli og félagar í Streetcowboys eru að fara að spila á kaffihúsi í kvöld.
Svo nú er bara að njóta þess að hafa ættingjana í heimsókn!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.