27.11.2006 | 17:16
BAKARAR OG BALLERÍNUR
Í gær var aldeilis viðburðaríkur sunnudagur. Við fórum og gerðum jólainnkaup, svona sitt lítið af hverju til að stinga í jólapakka til Íslands. Sesselja fór í jassdansinn og þegar við sóttum hana tók kennarinn hennar okkur á tal. Sagði stelpuna vera allt of hæfileikaríka til að njóta sín í tímunum hjá sér, hún gæti einfaldlega ekki sinnt henni nógu vel. Hún hafði sagt ballettkennaranum sínum, spænskri senjorítu, frá henni og sú vildi óð og uppvæg hitta stelpuna og sjá hvað hún gæti! Angelica, kennarinn hennar Sesselju, sagði að klassískur ballett myndi henta henni mjög vel og gefa henni góðan grunn fyrir hvaða tegund af dansi sem væri. Svo að nú er ég komin með símann hjá senjorítunni og við munum mæla okkur mót við hana nú í vikunni. Sesselja mun samt halda áfram í jassdansinum, bæði finnst henni það of skemmtilegt til að sleppa því og svo vill Angelica líka endilega hafa hana áfram og segir hana vera búna að eignast fullt af vinkonum þarna - NEMA HVAÐ!
Þegar heim kom skelltum við okkur svo í piparkökubakstur! Bökuðum nokkur hundruð piparkökur og íbúðin ilmar ennþá af piparkökulykt! Í dag dunduðu Diljá og Sesselja sér svo við að mála piparkökur. Þær sátu við í næstum því 2 tíma án þess að stoppa og Diljá ætlaði aldrei að vilja hætta.
Ég skrapp aðeins niður í bæ núna áðan þegar orðið var dimmt (sem gerist svona um fimmleytið) og sá bæinn í alveg nýju ljósi - nefnilega jólaljósi. Það var búið að setja upp skreytingar í göngugötunum svo að þetta var bara eiginlega alveg eins og Laugavegurinn - að slepptu stressinu! Nú bíðum við bara spennt eftir afmælinu hennar Diljár sem er inngangur að aðventunni...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.